Lögmaðurinn og áhrifavaldurinn Sigurður Guðni Guðjónsson var á meðal viðmælenda í Silfri Egils nýverið. Hann andmælti mikilvægi tillagna Stjórnlagaráðs (hér eftir kallað Ráðið) um nýja stjórnarskrá. Daginn áður, eða svo, hafði vel titlaður kennari við HÍ baunað því yfir þjóðina, órökstutt, að tillögum ráðsins hefði verið hafnað. Það er rangt og stórundarlegt að lagaprófessor láti slíkt frá sér.
Sigurður hefur áhyggjur af því að baráttumenn fyrir nýrri stjórnarskrá nái fram vilja sínum. Hann hefur áhyggjur af því að tekið verði mark á lýðræðislegum kosningum um tillögur Ráðsins, 2012. Það er óvenjulegur þankagangur hjá löglærðum manni. Ég hef áhyggjur af slíkum málflutningi frá fagmönnum úr röðum Sigurðar.
Tiltók hann, og stökk því miður greinilega bros á kinn, eitt dæmi úr tillögum Ráðsins, sem er mér sérstaklega hugleikið. Það er 36. gr. um dýravernd, sem hljóðar svo:
,,Með lögum skal kveðið á um vernd dýra gegn illri meðferð og dýrategunda í útrýmingarhættu".
Sigurður telur að fólk þurfi að spyrja sig hvort þörf sé á þessu ákvæði. Ég svara: já það er þörf á því. Af hverju ég tel svo vera mun ég útskýra, enn einu sinni. Af orðum hans mátti ráða að hann hefur ekki lesið greinargerðina, sem Ráðið skrifaði með ákvæðinu og er í eðli sínu lögskýringargagn, væri tillaga ráðsins orðin að stjórnskipunarlögum.
Sigurður er flinkur málaflutningsmaður og veit að fátt er betra en að geta stutt málflutnings sinn við stjórnarskrárákvæði þegar á reynir að sannfæra dómara.
Núgildandi dýraverndarlög, sem tóku gildi 2013 eru ágæt, sem slík, við fyrsta lestur, en undirliggjandi er að þau eru sniðin að hagsmunaaðilum þó tónninn sé fagur. Framkvæmd þeirra er að mörgu leyti í molum. Væri þeim fylgt þá væri t.d. ekki lengur heimilað að stunda loðdýraeldi, blóðmerabúskap, margar tegundir af fiskveiðiaðferðum og veiðiheimildir á villtum spendýrum eins og hreindýrum væru miklu þrengri. Þá er hæpið að mjólkurframleiðsla væri heimiluð. Allt framangreint og reyndar miklu fleira inniber illa meðferð á dýrum hvað ég hef og aðrir hafa margoft rökstutt í ýmsum skrifum.
Það er alvarlegt og villandi með hagsmuni dýranna að leiðarljósi og fyrir misvel upplýsta áhorfendur RÚV þegar svona rugli er haldið fram framan í þjóðina í vinsælum sjónvarpsþætti.
Höfundur er lögfræðingur og áhugamaður um vernd allra dýra.