Í dag, 20. nóvember, er alþjóðlegi dagur barna sem og afmælisdagur Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þessi dagur er mikilvægur meðal annars vegna þess að við fögnum því að 193 lönd hafa undirritað Barnasáttmálann sem gerir hann að þeim mannréttindasáttmála sem hefur verið samþykktur af flestum ríkjum í heiminum. Á þessum degi er þess vegna tilvalið að vekja athygli á mikilvægi þess að það sé hlustað á raddir ungs fólks, eins og kveður á um í 12. grein sáttmálans, sérstaklega þegar stórar breytingar eiga sér stað sem varða börn og annað ungt fólk.
Síðan sáttmálinn var samþykktur árið 1989 hefur miklum árangri verið náð í málum réttinda barna, og tilvalið dæmi um þetta er að við, sem skrifum þessa grein, erum í Ungmennaráði heimsmarkmiðanna. Þetta er aðeins eitt af fjölmörgum ungmennaráðum á Íslandi, sem eru samkvæmt okkar rannsóknum 295 talsins. Þessi ráð eru kjörinn vettvangur til að börn fái að tjá sig um mál sem þau varða. Hins vegar er enn margt sem hægt er að bæta svo sem það sem er tekið fram í 2. grein sáttmálans sem segir að öll börn, óháð kyni, litarhætti, trúar og öðrum persónulegum sérkennum, eigi að njóta réttinda Barnasáttmálans. Þrátt fyrir að Ísland sé að standa sig vel, þurfum við líka að vera meðvituð um það sem er að gerast í öðrum löndum varðandi réttindi barna. Með því að halda góðu starfi gangandi hér á Íslandi getum við veitt öðrum löndum innblástur til að vinna að bjartri framtíð barna um allan heim.
Á tímum sem þessum er sérstaklega mikilvægt að við stöndum saman og gætum að lýð- og geðheilsu barna. Covid-19 faraldurinn hefur haft mikil áhrif á börn og unglinga. Til dæmis hafa fjöldatakmarkanir komið í veg fyrir að börn geti hisst án grímu og spjallað eða tekið þátt í tómstundum. Okkur finnst að meira gæti verið gert til að upplýsa börn, á jákvæðan og hvetjandi hátt, um hvað þau geti gert til að viðhalda góðri heilsu svo sem að hreyfa sig reglulega eða njóta útivistar. Einnig er mikilvægt að vera ekki dómharður við börn og leifa þeim að læra af eigin mistökum þar sem þau verða miklu þroskaðar og heilbrigðari einstaklingar þannig.
Við viljum óska öllum börnum til hamingju með þennan dag og hvetja börnin sem eru að lesa þetta til að kynna sér réttindi sín og láta skoðanir ykkar heyrast. Nýtum okkur þau réttindi sem við höfum til að tjá okkur um mikilvæg málefni sem varða okkur nú og munu varða okkur í framtíðinni, það er ekki sjálfgefið. Lesa má barnasáttmálann í heild sinni inni á vefsíðu Umboðsmanns barna (barn.is).
Fyrir hönd Ungmennaráðs heimsmarkmiðanna,
Finnur Ricart, Pétur Már og Arnar Snær.