Þegar hæstiréttur sýknaði sakfellda af drápum á Geirfinni Einarssyni og Guðmundi Einarssyni, bættust tvö ný óupplýst mannshvörf á borð lögreglunnar. Sem lögreglumál urðu til ný óupplýst mál, þótt mannshvörfin sjálf hafi átt sér stað fyrir 46 og nærri 47 árum síðan. Fyrri rannsókn á mannshvörfunum lauk með þeirri dómsniðurstöðu að mennirnir hefðu verið drepnir og hverjir hefðu drepið þá, þótt aldrei hefði verið upplýst hvað varð um líkin. Þegar hæstiréttur sýknar hina sakfelldu af drápunum, verða mannshvörfin lagalega séð óupplýst á ný. Hvað ætlar lögregla að gera í því?
Einfalda sagan af mannshvarfinu
Ég er hér aðeins að fjalla um hvarf annars þessara horfnu manna, Geirfinns Einarssonar, og tel rétt að rifja söguna aðeins upp fyrir yngra fólki. Að kvöldi þriðjudagsins 19. nóvember 1974, gekk Geirfinnur Einarsson út af heimili sínu í Keflavík og hvarf. Síðan hefur hann ekki fundist og ekki komið fram nein handbær skýring á því hvað um hann varð.
Vitað er með góðri vissu að vinur Geirfinns, sem hafði verið í heimsókn, skutlaði honum að Hafnarbúðinni um kl 22 um kvöldið og að hann kom þangað inn og keypti sígarettupakka og fór. Kona hans sagði hann hafa komið heim aftur, fengið símtal og farið rétt strax út aftur og í það skiptið á bíl þeirra. Daginn eftir fara kona hans, vinir og vinnufélagar að grennslast fyrir um hann, spurðu m.a. lögreglu hvort þeir vissu eitthvað um hann og vinir hans fundu bílinn skammt frá Hafnarbúðinni. Á fimmtudagsmorgninum hóf lögreglan formlega leit og lýsti eftir Geirfinni í útvarpi og með mynd af honum í blöðum og sjónvarpi. Fjölmennir leitarflokkar frá björgunarsveitum leituðu víða næstu daga, á landi og með ströndum og köfuðu í höfninni og þyrla Gæslunnar leitaði úr lofti.
Lögreglan ræddi við nokkra einstaklinga og tók formlega skýrslu af sumum þeirra. Fljótlega barst grunur lögreglu að því að hvarf Geirfinns mætti rekja til ókunnugs manns sem kom inn í Hafnarbúðina og fékk að hringja þaðan á svipuðum tíma og kona Geirfinns segir að hann hafi fengið símtal sem varð til þess að hann fór út aftur. Reyndi lögregla að láta gera eftirmynd af þessum manni, en erfiðlega gekk að ná fram mynd sem vitni sammæltust um eða felldu sig við. Þessi myndagerð endaði með leirstyttu af mannshöfði, sem eftir það gekk undir nafninu Leirfinnur.
Mannshvarfið sem hvarf ekki
Mannshvörfin tvö vöktu hvort um sig skammvinna athygli fyrst eftir að mennirnir hurfu, en döguðu síðan uppi. Innan við mánuði eftir hvarf Geirfinns, var lögreglan engu nær um það hvað orðið hefði af honum og ekkert nýtt að koma fram til að leita eftir. Þá dró mjög úr virkri rannsókn lögreglu á mannshvarfinu, en formlega var málið lagt upp sem óupplýst í júní 1975.
Þegar gögn lögreglunnar í Keflavík um hvarf Geirfinns eru skoðuð, kemur í ljós að bæði eru veruleg vanhöld á gögnum málsins og að í rannsókninni sjálfri er stórt gat á mikilvægum stað. Það gat er svo stórt og á svo mikilvægu svæði að það er varla hægt að afsaka það sem klaufaskap.
Athugun á fyrirliggjandi gögnum um mannshvarfið sýnir að enn hefur ekki fennt yfir öll þau spor sem hægt er að rannsaka og einnig að líkur eru á að enn sé einhver á lífi sem veit hvað varð um Geirfinn Einarsson, sem hvarf í Keflavík fyrir 46 árum síðan.
Greitt úr netinu
Til að rannsaka hvað orðið hefði um Geirfinn, ákvað ég að byrja á að fara yfir fyrirliggjandi gögn, greiða úr netaflækju gagnanna, sjá hvaða hnútar héldu og hvaða þræðir trosnuðu upp og hvar götin væru sem fiskarnir syntu í gegnum.
Gögn í málinu eru nokkur. Þar er fyrst til að telja þau gögn sem lögð voru fyrir dómstóla og eru nú mörg aðgengileg. Síðan eru gögn sem verða til í síðari rannsóknum, en þau tengjast mest rannsóknum á eftirmálum dómanna í G&G. Bætast þar í nokkrum tilvikum við ný gögn og sums staðar er þar vísað til gagna sem eru ekki opinber. Gagnlegar voru bæði skýrsla Láru V. Júlíusdóttur setts saksóknara í rannsókn á því af hverju Magnús Leópoldsson var dreginn inn í rannsóknir á hvarfi Geirfinns (2003) og skýrsla Starfshóps um Guðmundar- og Geirfinnsmál undir stjórn Arndísar Soffíu Sigurðardóttur þar sem farið var yfir alla þætti þeirra mála (2013). Þá kemur líka sitthvað fram í heimildamyndum og í bókum, viðtölum og greinum sem skrifaðar hafa verið um þessi mál, en þær eru líka mest um málatilbúnaðinn í G&G. Einnig hefur verið gagnlegt að renna yfir þau fréttaskrif sem urðu um hvarf Geirfinns á þeim tíma, en síðari fjölmiðlaumfjöllun hefur bætt þar afar litlu markverðu við um hvarf hans.
Mikilvægast er að skoða þau gögn sem urðu til á frumstigi málsins, sem kölluð er Keflavíkurrannsóknin, til aðgreiningar frá Reykjavíkurrannsókninni sem varð hluti af G&G. Samt bætast nokkur mikilvæg atriði inn í G&G-rannsókninni sem skýra betur hvað gerðist í Keflavíkurrannsókninni. Þá fyrst er farið að kalla á fólk til að skrifa undir gamlar skýrslur og oft bætt við viðbótarskýrslum. Það kom líka sitthvað athyglisvert fram þegar Karl Schütz fór að yfirheyra ýmsa í Keflavík, bæði rannsakendur og þá sem rannsakaðir höfðu verið. Annars er Reykjavíkurrannsóknin líka sneisafull af málatilbúnaði sem er ekki til gagns.
Vinnubrögðin við rannsóknina á mannshvarfinu
Rannsókn lögreglunnar í Keflavík, á hvarfi Geirfinns, var undir styrkri og virkri stjórn Valtýs Sigurðssonar fulltrúa bæjarfógetans í Keflavík. Hann bar enn fremur formlega ábyrgð á rannsókninni, flutti starfstöð sína tímabundið á lögreglustöðina meðan rannsóknin stóð sem hæst og tók virkan þátt í henni, tók m.a. sjálfur skýrslur af öllum lykilpersónum. Stærstur hluti lögregluvinnunnar hvíldi á herðum Hauks Guðmundssonar rannsóknarlögreglumanns og átti hann fjölda samtala við fólk og tók einnig nokkrar formlegar skýrslur, sumar þeirra upp á segulband og aðrar skrifaðar meðan á skýrslutökum stóð.
Frumgögnin á segulbandsspólunum eru mörg ekki aðgengileg og af sumum þeirra er aðeins til skrifleg skýrsla með endursögn af því sem þar er sagt hafa komið fram, en enginn framburður er skrifaður orðrétt upp. Í nokkrum tilvikum eru til skýrslur sem Haukur skráði hjá sér þar sem hann rekur atriði sem hann segir hafa komið fram þegar hann „hafði tal af“ einum og öðrum, en um önnur samtöl eru ekki til nein skráð gögn.
Flestar lögregluskýrslurnar lágu lengi óundirritaðar og margar þeirra ódagsettar. Sumar þeirra eru aðeins stutt skýrsla lögreglumanns um það sem hann segir hafa komið fram í samtölum hans við tiltekna einstaklinga, en í mörgum þeirra tilvika er allsendis óvíst að þeir sem framburðurinn er hafður eftir hafi, jafnvel ennþá, nokkra vitneskju um hvað var eftir þeim haft.
Valtýr og Haukur voru ólíkir að því leiti að Valtýr var mjög skipulagður í sínum orðum og athöfnum, á meðan Haukur ræddi við mann og annan og punktaði hjá sér eitt og annað. Þeir tóku sameiginlega hljóðritaðar skýrslur af eiginkonu Geirfinns, og af afgreiðslukonu og vitni að komu Geirfinns og Leirfinns í Hafnarbúðina á þriðjudagskvöldinu. Allar þær skýrslur hefjast á þeim formála að „við“ fórum og tókum skýrslu af X, svo er rakið hvað þeir segja X hafa sagt og loks eru undirskriftalínur fyrir þá tvo. Ekki var gert ráð fyrir að lykilvitnin undirrituðu neitt og reyndar var þeim ekki kunnugt um hvað var eftir þeim haft, fyrr en löngu seinna.
Við skoðun á ljósritum af skýrslum sést hvaða skýrslur voru skrifaðar á hvaða ritvélar og hvaða mismunandi ritstíll var hjá þeim sem sömdu og hjá þeim sem skráðu. Vitað er að ritarar á fógetakontórnum vélrituðu nokkrar skýrslur upp eftir hljóðritunum og meðal þeirra eru ofangreindar skýrslutökur af eiginkonunni og vitnunum í Hafnarbúðinni. Greinilegt er að skrifuðu skýrslurnar eru ekki orðrétt samskipti, heldur er búið að endursegja þau í skýrsluform. Hver breytti þeim?
Samantekt og undanskot
Eitt mikilvægasta skjalið í Keflavíkurrannsókninni er stór samantektarskýrsla sögð í fyrstu persónu frásögn og undirrituð af Hauki þar sem hann rekur gang mála fyrstu dagana. Hún er ódagsett en líklega skrifuð til undirbúnings fundi sem haldinn var í Sakadómi Reykjavíkur, á þriðjudeginum 26. nóvember, en á þeim fundi var Leirfinnur frumsýndur. Sú skýrsla er vélrituð af riturunum á fógetakontórnum. Vitnað er til hennar sem Samantektarskýrslunnar, á nokkrum stöðum hér.
Hvað gerðist á þriðjudagskvöld 19. nóvember?
Geirfinnur hverfur á þriðjudagskvöld og lögreglan fréttir af því á miðvikudag að fjölskylda og vinir séu að grennslast fyrir um hann. Þá gerir Haukur það sem hann kann vel, hann fer að leggja við hlustir og aðeins að taka púlsinn og úr verður að ef Geirfinnur skili sér ekki, þá skuli vinnuveitandi hans koma á lögreglustöð kl 9 á fimmtudagsmorgun og tilkynna formlega um mannshvarf. Þar með hófst formleg rannsókn lögreglu á hvarfi Geirfinns.
Samantektarskýrslan hefst á því að segja að vinnuveitandi Geirfinns hafi tilkynnt um hvarf hans hans á fimmtudagsmorgni kl 9 og bætt við að þá þegar „voru fyrirliggjandi upplýsingar frá vinnufélaga hans ... (skýrsla nr. 1) um síðasta fund þeirra félaga“ á þriðjudagskvöldinu. Sú skýrsla er hins vegar dagsett á fimmtudagskvöld og meira að segja undirrituð á staðnum, en líklega var búið að „hafa tal af“ félaganum áður.
Í samantektarskýrslunni segist undirritaður hafa haft tal af eiginkonu Geirfinns um kl 14.00 á fimmtudag og rekur í löngu máli hvað hún hafi sagt honum þá. Þetta samtal átti sér stað á heimili hennar og var tekið upp á kassettutæki. Engin skýrsla var gerð eftir það samtal og því hefur eiginkonan aldrei staðfest það sem eftir henni var haft þar. Sumt af því sem eftir henni var haft hefði þurft að rannsaka nánar, en var ekki gert. Aðeins í þessarri samantektarskýrslu er til endursögn af því hvað eiginkonan hafi sagt um það hvað henni og Geirfinni fór fram fyrr á þriðjudagskvöldinu og svo aftur síðar um ferðir hans í og úr Hafnarbúðinni og símtal sem leiddi til þess að hann fór aftur út og hvarf.
Annað og ekki síður mikilvægt, sem vitað er að hún sagði Hauki frá í þessu samtali, var ekki fært inn í samantektarskýrsluna. Af hverju ekki?
Bíllinn hans Geirfinns
Vitað er að vinnuveitandi Geirfinns (ásamt fleirum) fann bíl Geirfinns síðdegis á miðvikudag þar sem hann stóð ólæstur fyrir utan fjölfarna verslun í nágrenni Hafnarbúðarinnar. Hann kallaði til sporhund frá Hafnarfirði til að rekja slóð frá honum, en hundurinn rakti slóðina að Hafnarbúðinni og líka stutt í eina aðra átt. Þar stóð bíllinn öllum aðgengilegur þar til lögregla sótti hann kl 18:10 á fimmtudag.
Í samantektarskýrslunni hefur Haukur eftir tveimur mönnum á nærliggjandi vinnustað að þeir hafi séð bílinn þarna þegar þeir stimpluðu sig út kl 22:34 „kvöld þetta“ og bætir skýrsluhöfundur því við að: „Þetta er talinn nokkuð nákvæm tímasetning á því að Geirfinnur hafi verið kominn, að Hafnarbúð á þessu tíma og þá líklega horfinn á braut...“ Samt var engin skýrsla tekin af þessum vitnum sem hafðir voru til marks um útgangstímapunkt á því hvar og hvenær hinn horfni maður væri horfinn. Í vitnaleiðslum fyrir rétti í Guðmundar- og Gerifinnsmálinu, löngu síðar, var frásögn orðin mjög á reiki, þeir voru ekki sammála um hvort bíllinn var rauður eða grænn, hvort þeir voru að koma eða fara þegar þeir sáu bílinn og hvort þeir voru voru samferða, eða hvort annar þeirra sá bílinn og sagði hinum frá því, en þeir voru samt vissir um að þetta var kl. 22:34.
Í örstuttri lögregluskýrslu um rannsókn á bílnum er sagt að leit að fingraförum „utan og innan“ á bílnum hafi verið „án árangurs“. Ekki er ljóst hvort þar væri um að kenna kunnáttuleysi eða að bíllinn hafi verið svona vel þrifinn. Annars segir bara að eftir ítarlega leit í bílnum hafi ekkert komið í ljós sem bent gæti til um afdrif Geirfinns. Allt og sumt um rannsókn á bíl sem hinn horfni á að hafa ekið til þess staðar þar sem hann hvarf.
Engar vettvangsrannsóknir
Lögreglan ákvað snemma að Geirfinnur hefði horfið á litlu svæði sem náði bæði yfir þann stað sem bíll hans fannst á og Hafnarbúðin stóð. Engar vettvangsrannsóknir áttu sér stað á því svæði, hvorki skýrslur eða minnst neins staðar á slíkt og engar ljósmyndir af staðháttum. Engin vettvangsrannsókn var gerð í Hafnarbúðinni, en til er uppdráttur þar sem vitni voru látin merkja inn hvar einn og annar hefði verið eða gengið á þriðjudagskvöldinu.
Engin vettvangsrannsókn var gerð á heimili hins horfna, en löngu síðar var fært inn á grunnteikningu íbúðarinnar hvar síminn hefði verið og hvar eiginkonan hefði verið þegar hún heyrði símtalið um kvöldið. Eiginkonunni var falið að finna þau gögn sem lögreglan spurði um.
Engar ljósmyndir tilheyra allri Keflavíkurrannsókninni og ekki eitt einasta fingrafar. Ekkert er til um að svo mikið sem reynt hafi verið að rekja tímasetningu símtala.
Geirfinnur og fjölskylda hans bjuggu í tvíbýlishúsi. Engar skýrslur eru teknar nágrönnunum á efri hæðinni, en þar bjuggu hjón með fimm börn á aldrinum frá 11 ára og upp yfir tvítugt. Loks þann 7. desember tekur Haukur sig til og skrifar stutta skýrslu um að hann hafi haft tal frúnni á efri hæðinni og hún borið þeim á neðri hæðinni gott orð, en ekki er haft eftir henni að hún hafi verið svo mikið sem spurð út í atburði og mannaferðir næsta á undan og daginn sem Geirfinnur hvarf. Ekkert bendir til að frúin hafi vitað af þessari skýrslu, hvað þá hvað var valið að hafa eftir henni þar. Engar skýrslur eru af neinum öðrum nágrönnum og hvergi minnst á að haft hafi verið tal af þeim, ekki frekar en að í því hverfi hafi aldrei tíðkast að líta út um eldhúsgluggann.
Geirfinnur vann nálægt Sandgerði við að moka grjóti á vörubíla fyrir sjóvarnargarða og enn er ekki vitað hvernig eða með hverjum hann fór heim úr vinnunni á þriðjudeginum.
Klúbburinn
Í samantektarskýrslunni er haft eftir konu Geirfinns að hann hafi farið ásamt tveimur vinum sínum í Klúbbinn á sunnudagskvöldið næsta á undan. Annar þeirra var sá sami og heimsótti hann á þriðjudagskvöldið og í formlegu skýrslunni að honum er hann spurður talsvert um þessa Klúbbför en telur þar ekkert óvenjulegt hafa gerst. Þarna strax á fyrsta degi rannsóknarinnar er lögreglan farin að sperra eyrun yfir því hvað hafi gerst í Klúbbnum, og sá draugur gengur aftur og aftur í spurningum þeirra, jafnvel til fólks sem hafði ekki verið í Klúbbnum um hvort viðkomandi telji að eitthvað gæti hafa gerst í Klúbbnum.
Áhuga lögreglunnar á Klúbbnum er áhugavert að skoða í samhengi við síðari þróun rannsóknarinnar. Margar heimildir, en þó engar þeirra skráðar hjá lögreglu, eru um að lögregla hafi borið ýmsar ljósmyndir undir vitni og jafnvel líka þá sem unnu að eftirmyndum af Leirfinni.
Leitin mikla að Leirfinni
Samkvæmt samantektarskýrslunni hafði Haukur „tal af“ lykilvitnum að komu bæði Geirfinns og Leirfinns í Hafnarbúðina á þriðjudagskvöld og rekur hann þar frásögn þeirra af útliti mannsins, klæðaburði og hátterni. Um var að ræða afgreiðslukonu sem þekkti Geirfinn og afgreiddi Leirfinn, 15 ára stúlku sem vissi hver Geirfinnur var og tók eftir Leirfinni og 13 ára vinkonu hennar sem var að horfa á sjónvarpið í veitingasalnum og veitti þeim enga athygli þótt hún hafi orðið þess vör að þeir kæmu inn. Engin skýrsla var tekin af þessu tali af vitnunum á þessum tíma, heldur voru þær sendar í að reyna að búa til mynd af Leirfinni, fyrst með samsetningarborðum, svo með teiknuðum myndum og loks með leirstyttu af höfði mannsins. Þá var afgreiðslukonan látin skoða þúsundir mynda af öllum karlmönnum yngri en 35 ára, sem áttu ökuskírteini eða vegabréf. Löngu var búið að birta lýsingu af Leirfinni og leirstyttuna af höfði hans og lýsa eftir honum í öllum blöðum og sjónvarpi, áður en loks var tekin formleg skýrsla af vitnunum 29. október. Þær skýrslur voru hljóðritaðar, en endursagnir af þeim skrifaðar og bornar undir vitnin árið 1976.
Sviðsmyndin mótaðist snemma
Ljóst er að á föstudag 22. nóvember er lögreglan búin að móta þá sviðsmynd sem hún hélt sig við æ síðan. Þar er dregin upp sú mynd að Geirfinnur hefði farið tvisvar út um kvöldið, komið heim eftir fyrra skiptið og fengið dularfullt símtal og farið út aftur og horfið. Þá er ákveðið að tilefni fyrra erindis hans hafi verið stefnumót við einhvern sem hlyti að hafa hringt í hann á milli þess sem hann kom heim úr vinnu og þar til félagi hans kom, en að seinna tilefnið hafi verið síðara símtalið.
Þarna á föstudeginum er líka búið að ákveða það að Leirfinnur sé hlekkurinn á milli Geirfinns og glæpamanna sem stunduðu skipulagða glæpastarfsemi með því að smygla ýmsum nytjavarningi til landsins.
Eftir það beindist öll orka lögreglunnar að því að finna þrjótinn Leirfinn, en Geirfinnur lá úti.
Á þriðjudag 26. nóv. var búið að semja samantektarskýrslu og móta leirmynd af höfði óþekkts eftirlýsts manns og mætt með hvort tveggja upp í Sakadóm Reykjavíkur til að ráðgast við sérhæfða menn og háttsetta og Leirfinnur frumsýndur.
Á sama tíma var ekki búið að taka eina einustu formlegu skýrslu af eiginkonu hins týnda, afgreiðslukonunni og stúlkunum sem sáu Leirfinn, það var ekki gert fyrr en á fimmtudag og föstudag, 8-9 dögum eftir að Geirfinnur hvarf, og þá féllst önnur stúlkan á að láta lýsingu afgreiðslukonunnar halda, en hin hafði ekki veitt manninum neina athygli.
Fljótlega kom í ljós að ekkert límdi þessa sviðsmynd saman, engin tengsl milli Geirfinns og glæpamanna. Þá mátti Geirfinnur hverfa inn í hinn hljóðláta hóp horfinna manna og lögreglan snúa sér að því að afhjúpa raunverulega smyglara, sem smygluðu miklu magni af áfengi, sígarettum, kjöti og fleiri varningi með fimm af fossum Eimskipafélagsins, en vissu hvorki neitt um Leirfinn né Geirfinn.
Sumt var rannsakað ítarlega
Lögreglan í Keflavík vann í frumrannsókn sinni ítarlegt æviágrip Geirfinns frá vöggu til þess er hann hvarf. Sú rannsókn sýnir eindregið að ekkert bendlaði hann við neitt misjafnt, hvorki hans eigið athæfi eða fólk sem hann umgekkst, fjármál hans voru eðlileg, hann hafði hvorki tengsl við spírasmygl né Klúbbmenn og heldur ekki neina þá sem síðar voru dæmdir fyrir að drepa hann. Skoðaðir voru bankareikningar og skattaskýrslur Geirfinns og bornar saman við sýnileg fjármál hans. Það sýndi mann sem kom eignalaus og byrjaði að búa í kjallaraholu og vann sig hægt og bítandi upp í rýmri kjallara og loks í neðri hæði í tvíbýlishúsi með íbúðalán í skilum og staðgreiddan notaðan bíl eftir sölu á fyrri notuðum bíl. Eins og duglegum verkamanni sæmdi.
Lögregla sendi fulltrúa austur á land til að afla gagna um uppvöxt Geirfinns á bernskuslóðum hans og skilaði sá skýrslu um samtöl sín við fólk sem hafði þekkt hann sem barn og ungling áður en hann fór suður.
Lögreglumenn voru sendir upp að Sigöldu til að ræða við menn sem höfðu unnið með Geirfinni þar og við gerð Búrfellsvirkjunar. Einn hafði búið með honum í sama skála og vísaði á annan sem hafði búið með honum í herbergi og sá var leitaður uppi og tekin af honum skýrsla. Ef einhver benti á einhvern annan sem þekkti Geirfinn, var sá nýi spurður líka. Spurt var um hvernig maður Geirfinnur væri, hvernig hann væri með víni og hvort hann hefði eitthvað haft að gera með spíra eða grunsamlega menn.
Öll svörin voru á eina lund, að Geirfinnur væri eins venjulegur og venjulegur maður gæti verið, samviskusamur og góður verkmaður, segði fátt af sjálfum sér og væri ekki með nefið í annarra manna koppum og allsendis ólíklegur til að láta hafa sig út í nokkra vitleysu.
Sumt var farið hljóðlega með
Í samtali Hauks við eiginkonu Geirfinns, strax á fyrsta degi, sagði hún honum frá því að hún ætti í virku ástarsambandi framhjá hinum horfna eiginmanni og nafngreindi viðhald sitt. Frá þessu var ekki sagt í samantektarskýrslunni þar sem vitnað var til ýmislegs annars í hljóðritaða samtalinu á fimmtudeginum.
Það er ekki fyrr en á fimmtudegi 28. nóvember, 8 dögum eftir hvarf Geirfinns, sem tekin er formleg skýrsla af eiginkonu hans. Þá mæta Valtýr og Haukur heim til hennar með kassettutæki og hljóðrita af henni skýrslu, sem síðar er skrifuð upp í endursögn og borin undir eiginkonuna hjá lögreglunni í Reykjavík í febrúar 1976.
Skýrslan er skráð í 12 tölusettum liðum þar sem 3. liðurinn heitir „Hjúskaparbrot“, en allir hinir liðirnir fjölluðu um uppvöxt Geirfinns, fyrri búsetu hans og störf, hvernig þau kynntust, samskipti þeirra, fjármál þeirra, um karakter hans og hvort eitthvað væri athugavert við kynhneigð hans. Í skýrslunni nafngreinir eiginkonan þetta viðhald sitt og segist hafa hitt hann nokkrum sinnu og síðast á mánudagskvöldinu 18. nóv. Ekkert er í þeirri skýrslu minnst á atvik næstu daga áður en og þess dags er Geirfinnur hvarf. Í skýrslunni nafngreindi hún einnig aðra menn og atvik sem engin heimild er um að hafi verið skoðuð nánar. Þar á meðal eru atriði sem hefði vissulega þurft að skoða.
Viðhaldið sem var óviðkomandi
Áður en lögreglan tekur þessa skýrslu af eiginkonunni þar sem hún viðurkennir hjúskaparbrot, var lögreglan samt búin að komast að því að hún þyrfti að taka skýrslu af þessu viðhaldi. Hann var því boðaður til skýrslutöku og mætti seint að kvöldi mánudags 25. nóvember þar sem Valtýr tók einn skriflega skýrslu af honum. Skýrslan er vandlega orðuð og þar er hvergi sagt berum orðum að þau hafi átt í kynferðissambandi, heldur má eins lesa af skýrslunni að þau hafi þekkst og kynnst gegnum sameiginlega vini. Segist hann hafa hitt eiginkonuna nokkrum sinnum síðan um sumarið, ýmist heima hjá sér, heima hjá vinkonu þeirra eða heima hjá eiginkonunni. Hafi hann m.a. farið og heimsótt þessa vinkonu þeirra í Keflavík sunnudagskvöldið 17. nóvember og hitt eiginkonuna þar og þau eitthvað setið öll saman yfir glasi fram eftir nóttu. Einnig segist hann hafa verið hjá vinkonunni á mánudagskvöld þegar eiginkonan kom þangað aftur, en hann síðan gist hjá frænda sínum og farið þaðan til Reykjavíkur á þriðjudagsmorgun (daginn sem Geirfinnur hvarf um kvöldið).
Frændinn sem viðhaldið sagðist hafa gist hjá á mánudagskvöldinu var kvaddur til skýrslutöku hjá Hauki fyrr um sama kvöld og viðhaldið mætti síðar hjá Valtý. Skýrslan af frændanum er á skýrsluskrá en skýrslan sjálf er týnd og óljóst hvenær hún hvarf. Hvergi annars staðar er minnst á hvort þeim frændum bar saman um tímasetningar eða önnur tilvik.
Ekkert er að finna um að neitt annað hafi verið gert til að staðfesta frásögn viðhaldsins um fjarvist sína á þriðjudagskvöldinu, eða hvort einhverjir hefðu, þá eða fyrr, séð til ferða hans í Keflavík.
Í síðari skýrslu sem tekin var af viðhaldinu í Reykjavíkurrannsókninni tveimur árum seinna, 5.11.1976, sagði hann frá því að fyrir skýrslutökuna hjá Valtý (hann kallar hann Hauk, en það var Valtýr) hefði hann hitt áðurnefnda vinkonu eiginkonunnar í sjoppunni við vegamótin upp á Keflavíkurflugvöll, á leið sinni til skýrslutökunnar og átt samtal við hana og einnig símtöl fyrir og eftir skýrslutökuna. Í seinni skýrslutökunni talar hann opinskátt um ástarsamband sitt við eiginkonuna. Hann fullyrti að hafa ekki verið í Keflavík seinni hluta þriðjudagsins. Í þeirri skýrslutöku er ekki spurt út í neitt það sem fram hefði farið í fyrri skýrslutöku. Í báðum skýrslum segist hann aldrei hafa séð Geirfinn. Bíll hans var ekki rannsakaður.
Karl nokkur frá Þýskalandi spurði þá Valtý og Hauk af hverju væri engin gögn um fjarvistarsönnun viðhaldsins á þeim tíma sem Geirfinnur hvarf. Þeim vafðist nokkuð tunga um tönn, en svöruðu því til að þeir væru bara vissir um að hann væri hvarfi mannsins óviðkomandi.
Besta vinkona aðal
„Hver er hún?“ hváði lögreglumaður í Reykjavík, árið 1976, þegar honum var sagt frá því að hann hlyti af hafa upplýsingar um vinkonu eiginkonunnar, sem ætti að vita allt. Sú var traust vinkona eiginkonunnar og jafnframt fastagestur á heimili hennar og Geirfinns og pössuðu þær oft börn hvor annarrar. Hún skaut skjóshúsi yfir ástarfundi eiginkonunnar og viðhaldsins þegar ekki stóð nógu vel á heima hjá eiginkonunni. Það var hún sem hélt utan um eiginkonuna eftir að maðurinn hvarf og flutti inn til hennar samdægurs og fram yfir næstu áramót. Hún tók líka á móti viðhaldinu til undirbúnings yfirheyrslunni hjá Valtý. Ef einhver vissi allt sem hægt var að vita um heimilishagi Geirfinns og eiginkonu hans, þá var það þessi vinkona. Samt var aldrei tekin nein skýrsla af henni í allri Keflavíkurrannsókninni, þótt ljóst væri að hún væri lykilvitni að samskiptum allra aðila næstu daga áður en og daginn sem Geirfinnur hvarf.
Í fyrstu skýrslutöku yfir bestu vinkonu aðal (í Reykjavík í apríl 1976) segist hún hafa verið viðstödd og gætt barna þeirra hjóna á meðan Haukur hljóðritaði samtal við eiginkonuna í stofunni heima hjá henni, rétt eftir að Geirfinnur hvarf. Þá sagði hún framburð sinn (meðal annars um framhjáhaldið) í samræmi við það sem eiginkonan hafi sagt við Hauk. Þetta er líklega samtalið sem Haukur vitnar til (á fim. 21. kl. 14) í stóru samantektarskýrslunni þar sem ekkert er minntist á framhjáhaldið. Sjá má misræmi í framburði vinkonunnar, eiginkonunnar og viðhaldsins um tímasetningar og atvik næstu tveggja daga fyrir hvarfið og daginn sem Geirfinnur hvarf – nokkuð sem hefði verið nauðsynlegt að leiða fram strax á fyrstu dögum.
Sumt var rannsakað og annað ekki
Athygli vekur það mikla ósamræmi sem var í vinnubrögðum lögreglunnar, annars vegar á því hversu sumir þræðir málsins voru raktir ítarlega, út í enda og niður í smáatriði, á meðan aðrir þræðir málsins voru ekki raktir.
Á sama tíma og fjarlægir kunningjar voru spurðir um allt hvað eina um Geirfinn, voru margir sem nær þeim stóðu ekki spurðir um neitt, a.m.k. ekki svo heimildir séu um. Þannig var til viðbótar við það sem áður er upp talið, engin skýrsla af móður og stjúpa eiginkonunnar, sem bjuggu þó í Njarðvíkum. Heldur ekki af bróður eiginkonunnar sem jafnframt var barnsfaðir bestu vinkonunnar og bjó líka í Njarðvík. Ekki var heldur tekin skýrsla af þáverandi vini vinkonunnar, sem þar gisti í landlegum, þótt hann vissi um framhjáhaldið og fleira sem á gekk. Hann gaf svo skýrslu tveimur árum seinna og kætti það ekki vinkonuna.
Það sem hljóðlega fór í Keflavíkurrannsókninni, fór líka hljóðlega alveg framhjá réttarhöldum sem síðar fóru fram. Þar var engra óþægilegra spurninga spurt.
Í stuttu máli
Nokkrir þættir málsins Maðurinn sem hvarf í Keflavík, voru rannsakaðir ítarlega:
- Víðtæk leit björgunarsveita fór fram á landi og með ströndum og í sjó í nokkra daga.
- Ævisaga og skýrsla um fjármál Geirfinns sjálfs var skráð frá vöggu til hvarfs.
- Leirfinns var leitað ákaft.
- Leitað var tengsla Geirfinns við spíra og við Klúbbinn og það leiddi til þess að upp komst um stórfellt smygl en engin tengsl Geirfinns við spíra eða Klúbbinn.
Svo er það sem var slælega rannsakað:
- Veigamiklar vettvangsrannsóknir fóru ekki fram og öðrum vettvangsrannsóknum var ábótavant.
- Skýrslan um rannsókn á bíl Geirfinns er snubbótt og engin skýring þar á af hverju leit að fingraförum var „án árangurs“ og hvergi annars staðar er minnst á neina fingrafararannsókn.
- Lítið er um formlegar skýrslur, flestar þeirra óundirritaðar og margar dagsetningar þeirra á reiki. Margar skýrslur eru í raun ekki skýrslur vitnanna, heldur skýrslur lögreglumanna um það hvað vitnið hafi sagt þegar tekin var af því skýrsla eða „haft tal“ af vitninu, sem líklega vissi í sumum tilvikum ekki einu sinni hvort eitthvað hefði verið skráð eftir því haft.
- Hljóðritarnir af skýrslutökum hafa farið forgörðum.
- Þær hljóðritarnir sem eru skráðar eru ekki orðréttar heldur umorðaðar í skýrsluform.
Loks er það stóra gapið á Keflavíkurrannsókninni:
- Framhjáhald eiginkonu Geirfinns var sniðgengið og allt það sem varpað gæti ljósi á þá sem þar komu að.
- Fjarvistarsönnun viðhalds eiginkonunnar var hvorki staðfest né hrakin og hvergi minnst á að hún hafi verið staðfest af frændanum.
- Ekki eru til skýrslur af neinum nágrönnum Geirfinns, hvorki úr sama húsi né öðrum, og þar með ekkert um neinar mannaferðir í aðdraganda hvarfs hans.
- Ekki eru til skýrslur úr Keflavíkurrannsókninni af eiginkonu Geirfinns eða vinkonu hennar sem eru lykilvitni um atburðarás kvöldsins sem Geirfinnur hvarf.
Af hverju eru þessi stóru göt og yfirbreiðslur á mjög mikilvægum þáttum?
Undir teppinu
Í Keflavíkurrannsókninni á hvarfi Geirfinns, virðast leynast meðal rannsakenda og vitna einstaklingar sem lögðu sig fram um að sópa óþægilegum atriðum undir teppi. Það þýddi um leið að gæta þess að því teppi yrði ekki lyft. Í ákafa sínum við að leyna litla kuskinu undir teppinu komu þeir í veg fyrir það, viljandi eða óviljandi, að finna annað sem undir teppinu var.
Ég er ekki að halda því fram hér að nokkur þeirra sem að ofan er minnst á, eigi sök á hvarfi Geirfinns. Það bendir sitthvað til að fleiri fiskar hafi synt gegnum götótt net lögreglunnar. Ég er að benda á það sem á eftir að rannsaka í málinu. Þá rannsókn þarf að ráðast í og þá er vel mögulegt að sú rannsókn leiði til að loksins verði upplýst hvað varð um Geirfinn Einarsson, sem hvarf í Keflavík fyrir 46 árum síðan.