Eftir þriggja ára hlé höfum við hjá Vísbendingu ákveðið að endurvekja gamla hefð og útbúa veglega jólaútgáfu ritsins þar sem litið er yfir árið sem er að líða, en hægt er að opna það með því að smella hér. Okkur fannst nægt tilefni til þess, enda verður seint sagt að árið 2020 hafi verið viðburðalítið.
Hefðir eru mikilvægar, sérstaklega á umbrotatímum sem þessum. Þegar allt fer í skrúfuna er gott að eiga fasta punkta í tilverunni til að týnast ekki í óreiðu. Vísbending hefur verið fastur punktur í lífi margra síðustu 38 árin, með vikulegum greiningum á efnahagsmálum og viðskiptum.
Ég tók við sem ritstjóri Vísbendingar í byrjun marsmánaðar, tveimur dögum eftir að fyrsta kórónuveirusmitið greindist hér á landi. Á þeim tíma höfðu áhyggjurnar af mögulegum heimsfaraldri vaxið hægt og rólega, þótt fáa grunaði að hann myndi hafa jafnmikil áhrif á samfélag okkar og raun ber vitni.
Síðan þá höfum við gefið út 37 tölublöð með yfir 80 greinum sem skrifaðar eru af sérfræðingum úr öllum áttum, en flestar þeirra snúa að þessum áhrifum á einn eða annan hátt. Alls eru tölublöðin orðin 48 og birtar greinar á árinu yfir 100.
Árið 2020 hefur verið einstaklega slæmt, það verður ekki orðað öðruvísi. Veiran hefur haldið heimnum í gíslingu, sett daglegt líf úr skorðum og valdið sögulegri efnahagskreppu. Hins vegar virðist árið ætla að enda á bjartari nótum, en búist er við fyrstu bólusetningum gegn veirunni hér á landi um áramótin og að hjarðónæmi myndist gegn henni innan fárra mánaða. Það er við hæfi að fréttirnar um væntanlega bólusetningu komi um það leyti sem daginn tekur að lengja á ný. Loks er hægt að horfa fram á veginn og segja skilið við árið 2020.
Vísbending óskar ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári, megi það verða margfalt betra en það gamla.