Langri og erfiðri kjarasamningalotu aðildarfélaga BHM við ríki og sveitarfélög lauk um mitt þetta ár. Samningar náðust til ársbyrjunar 2023 sem verður að teljast langur tími á íslenskum vinnumarkaði. Samið var um styttingu vinnuvikunnar og nýtt vaktavinnukerfi. Hvort tveggja tímabært og framfaraskref í ljósi þess að 40 stunda vinnuvika hefur verið reglan í hálfa öld. Aðildarfélög BHM sem semja við Samtök atvinnulífsins hafa nú hafið viðræður við SA um endurnýjun kjarsamnings frá árinu 2017.
Krónutöluhækkanir lífskjarasamninganna settu aðildarfélögum BHM þröngar skorður í kjaraviðræðunum eins og margoft hefur komið fram. Þær skiluðu litlum prósentuhækkunum og í ofanálag hefur verðbólgan rýrt kaupmátt þeirra. Mikilvægt er að hagstjórnaraðilar þ.m.t. Seðlabankinn og ríkið virki stjórntækin til að vernda þann árangur sem þó náðist í kjaralotunni. Sem fyrr er það verðbólgan og óstöðugt gengi íslensku krónunnar sem á endanum ræður miklu um kjör launafólks á Íslandi.
Stytting vinnuvikunnar
Bestu tíðindin á vinnumarkaði á þessu erfiða ári eru án nokkurs vafa stytting vinnuvikunnar. Um áramótin tekur stytting vinnuviku dagvinnufólks gildi. Í haust hafa staðið yfir umbótasamtöl á vinnustöðum hjá ríki og sveitarfélögum um styttinguna en hún er samvinnuverkefni stjórnenda og starfsfólks. Hámarksstyttingin er 4 stundir á viku en þá verður vinnuvikan 36 stunda. Það er gleðilegt að sjá á hversu mörgum vinnustöðum samtalið er að geta af sér hámarksstyttingu. Leiði umbótasamtalið ekki til sameiginlegrar niðurstöðu verður vinnutíminn styttur um 13 mínútur á dag eða 65 mínútur á viku.
Samráðsferlið um styttingu vinnuvikunnar hefur víða gengið vel en því miður verður það ekki sagt um alla vinnustaði og vinnuveitendur. Það er áhyggjuefni hversu mörg sveitarfélög hafa dregið lappirnar í þessu mikilvæga umbótaverkefni. Í upphafi nýs árs mun staðan verða ljós á opinberum vinnumarkaði og ég fullyrði að launafólk mun gaumgæfa hvar hefur vel tekist til og hvar ekki. Aðildarfélög BHM hafa og munu fylgja þessu mikilvæga verkefni eftir af krafti og standa vörð um hagsmuni sinna félaga. Vinnustaðir þar sem vel hefur tekist til með styttinguna verða í framhaldinu eftirsóttir og þannig á það líka að vera.
Í vor stendur til að innleiða nýtt vaktavinnukerfi hjá hinu opinbera sem einnig mun marka tímamót á vinnumarkaði. Vinnuvikan verður að sjálfsögðu stytt en það skiptir ekki síður máli að gangi breytingarnar eftir mun launafólk í vaktavinnu geta stundað 100% vinnu á þrískiptum vöktum. Það er tímabær breyting til batnaðar. Út af stendur hópur sem er í dagvinnu en gengur reglulegar aukavaktir á öðrum tíma. Það þarf að gæta þess að hægt sé að stytta vinnutíma þess starfsfólks án kjaraskerðingar.
Ekkert okkar bjóst við þessu
Þegar árið 2020 gekk garð bjóst líklega ekkert okkar við því að nokkrum vikum síðar yrði öll heimsbyggðin að berjast við skæðan faraldur af völdum áður óþekktrar veiru sem ógnaði lífi, heilsu og velferð mannkyns. Kórónuveirufaraldurinn hefur kostað mörg hundruð þúsund mannslíf og raskað högum milljarða karla, kvenna og barna um víða veröld. Viðskipti og samskipti, jafnt innan ríkja sem milli þeirra, hafa gengið úr skorðum og mikill samdráttur hefur orðið í hagkerfum heimsins.
Hér á landi hefur faraldurinn haft gífurleg áhrif á atvinnulíf, útflutning og hagkerfið í heild sinni. Þetta stafar ekki síst af því hve íslenskt efnahagslíf er orðið háð ferðaþjónustu. Kórónukreppan, eins og við köllum hana, bitnar með ólíkum hætti á mismunandi hópum og byrðunum af henni er ójafnt skipt. Samkvæmt greiningu sem nýlega var unnin á vegum sérfræðingahóps verkalýðshreyfingarinnar kemur kórónukreppan harðast niður á þeim sem lægst hafa launin. Tekjur þeirra sem tilheyra lægsta tekjufjórðungnum hafa þannig lækkað hlutfallslega miklu meira en fólks í öðrum fjórðungum. Að þessu leyti er grundvallarmunur á kórónukreppunni og samdrættinum sem varð í kjölfar bankahrunsins fyrir rúmum áratug. Þá fengu hátekju- og efri millitekjuhóparnir þyngsta skellinn.
Almennt bitnar faraldurinn verr á konum en körlum. Annars vegar hafa konur frekar misst vinnuna eða þurft að þola tekjuskerðingu en karlar. Hins vegar eru konur í meirihluta meðal framlínustarfsmanna í heilbrigðiskerfinu og öðrum opinberum kerfum. Fólk í þessum störfum hefur verið undir gífurlegu álagi í langan tíma og náð ótrúlegum árangri við erfiðar aðstæður. Fyrir það eigum við hin að vera þakklát.
Ekki má heldur gleyma því að kórónukreppan hefur komið mjög hart niður á fólki af erlendum uppruna á íslenskum vinnumarkaði. Ferðamannagóðærið var borið uppi af erlendum ríkisborgurum sem flykktust hingað þúsundum saman til að taka þátt í ævintýrinu og halda atvinnugreininni gangandi. Það er dapurlegt til þess að vita að margt af þessu fólki glími nú við mikla erfiðleika. Almennt bitnar kreppan frekar á yngri kynslóðunum. Það er sérstakt áhyggjuefni.
Ekki nóg að horfa bara á bráðavandann
Í því ástandi sem nú ríkir hér á landi skipta rétt viðbrögð stjórnvalda miklu. Margar af þeim ráðstöfunum sem stjórnvöld hafa gripið til hafa mætt bráðavanda á vinnumarkaði, ekki síst í ferðaþjónustunni. Í þessu sambandi má t.d. nefna hlutabætur, hækkun atvinnuleysisbóta, lengt tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta úr 3 í 6 mánuði, tekjufallsstyrki, lokunarstyrki og viðspyrnustyrki. Allt eru þetta almennar aðgerðir. Nú þarf að huga að sértækari aðgerðum og þeim hópum sem veikast standa í því ástandi sem kórónukreppan hefur skapað.
Atvinnuleysi er í hæstu hæðum og hefur aldrei verið meira á lýðsveldistímanum. Þúsundir félagsmanna aðildarfélaga BHM eru án vinnu, helmingi fleiri en eftir hrun. Þetta er algjörlega óviðunandi staða. Til að breyta henni þarf í fyrsta lagi að stórauka opinbera fjárfestingu á öllum sviðum. Í öðru lagi þurfa stjórnvöld að nýta það svigrúm sem, þrátt fyrir allt, er enn fyrir hendi í ríkisfjármálunum til að fjölga störfum á vegum hins opinbera. Í þriðja lagi er ekki nóg að beina eingöngu sjónum að bráðavandanum. Við verðum líka að hefja samtalið um hvernig við getum byggt hér upp fjölbreytt og þróttmikið atvinnulíf til framtíðar. Það má ekki gerast í þriðja skiptið á þessari öld (sem er þó bara nýlega hafin) að við föllum í þá gryfju að treysta um of á eina atvinnugrein sem undirstöðu hagvaxtar. Auðvitað þarf að hlú að stofninum og stærstu greinunum. En við verðum líka að örva minni greinarnar og vökva sprotana. Þetta eiga stjórnvöld að gera með því að móta metnaðarfulla stefnu til langs tíma þar sem áhersla er lögð á virkjun hugvits og þekkingar, öflugt menntakerfi og opinbert stuðningskerfi við rannsóknir og nýsköpun.
Réttindamál og fjarvinna: „Þú ert á mjút!“
Forsætisráðherra hefur sett af stað ritun grænbókar um vinnumarkaðinn, þ.s. skilgreina á helstu álitamál og viðfangsefni. Verkefnið er mikilvægt og gerir kröfu til aðila vinnumarkaðarins að hugsa fram í tímann með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Vonandi nýtist grænbókin við að marka stefnu til framtíðar. Að mörgu er að huga. Staða lífeyriskerfisins og lífeyrisréttindi launafólks eru eitt stærsta viðfangsefni næstu missera. Með samkomulagi ríkis og sveitarfélaga við BHM, BSRB og KÍ frá 2016 um jöfnun lífeyrisréttinda á milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins var stigið stórt skref í átt að samræmingu réttinda á vinnumarkaði. Þeirri vinnu þarf að ljúka og uppfylla samkomulagið m.t.t. jöfnunar launa á milli markaða.
Fjarvinna og fjarfundir hafa sannarlega sett mark sitt á störf fólks þetta árið. Eins og réttilega hefur verið bent á þá verður ekki öllum störfum sinnt með fjarvinnu. Það verður t.d. hvorki skúrað né hlynnt að fólki í fjarvinnu. Margar stéttir innan BHM eiga þess kost að sinna störfum sínum í fjarvinnu og það hefur án nokkurs vafa veitt nauðsynlegan sveigjanleika í viðbrögðum við samkomutakmörkunum. En fjarvinnan hentar ekki öllum og getur reynt mjög á starfsfólk ekki síst þegar aðstæður leyfa ekki að vinnan sé stunduð á heimilinu. Um fjarvinnu þarf að marka skýrar reglur á vinnumarkaði. Launafólk má ekki bera af henni aukakostnað eða lenda í aukna álagi vegna hennar. Starfsumhverfi fjarvinnu þarf að uppfylla sambærileg skilyrði og umhverfi á vinnustað. Það kæmi mér ekki á óvart að í fjarvinnunni væri staða kynjanna ólík. Það þarf að skoða til hlítar.
Það hefur tíðkast að velja orð ársins. Ef ég mætti velja setningu ársins þá yrði hún: „Þú ert á mjút!“ Þótt hún lýsi vandræðum við fjarfundaformið þá segir hún líka sögu af óvenjulegasta ári sem sögur fara af á vinnumarkaði. Öll höfum við þurft að aðlagast breyttum aðstæðum. Fyrir það skal þakkað en líka minnt á að stóra verkefni næsta árs er að skapa sjálfbæran vöxt og störf almennum og opinberum vinnumarkaði svo að ekkert okkar þurfi að ganga atvinnulaust til langs tíma.
Ég óska lesendum Kjarnans gleðilegrar hátíðar!
Höfundur er formaður BHM.