Það var blíðskapaveður í djúpinu þennan föstudag í lok febrúar. Þrátt fyrir hæga norðvestan golu og bjartviðri var þung undiralda og talsverður straumur í djúpálnum. Ég var yngstur um borð eða nýlega orðinn fimmtán ára. Ég var nokkuð stór eftir aldri og þótti stýrimanninum því óhætt að setja mig á garðann. Þetta var minn fjórði róður á þessum 64 tonna eikarbáti og upplifði ég mig sem fullveðja háseta, enda nýlega fermdur og því karlmaður í fullorðinna manna tölu. Stýrimaðurinn brýndi fyrir mér að halda vöku minni og gæta þess að að stíga ekki nær böndunum þegar ég vippaði grjót-sökkunum fyrir borð. Hann lagði áherslu á að ég yrði að vera fljótur að stíga aftur á bak ef snuðra hlypi á lykkju eða net því ekki yrði aftur tekið ef ég færi útbyrðis með trossunni.
Vitjun dagsins hafði gengið vel og flestar trossur bunkaðar af gol-þorski svo strákarnir voru enn að ganga frá stýjunum niðri í lest þegar við vorum að leggja. Þegar síðasta trossan var að renna frá borði vissi ég ekki fyrr en eitthvað reif í hægri fótinn og hreif mig á leifturhraða yfir lunninguna bakborðsmegin og aftur fyrir skut. Mér sortnaði fyrir augum og missti áttir um leið og trossan dró mig í nístingskalt djúpið. Einungis einni hugsun laust í huga mér, sem strákarnir höfðu hamrað á við mig allan fyrsta túrinn: „Ekki berjast um ef þig tekur fyrir borð. Þá muntu flækjast í netunum og festast”.
Sársaukinn í líkamanum nísti gegnum merg og bein enda tilfinningin sem ég væri rifinn í sundur um mig miðjan er trossan togaði mig með sér niður í myrk undirdjúpin. Það var sem tíminn stöðvaðist þegar adrenalínið spýttist um blóðrásina. Hugsunin varð leifturhröð og líkamlegur þróttur margefldist. Ég fann þó að fóturinn var fastur og ég gat mig hvergi hreyft af ótta við að flækjast í netin. Mér virtust allar bjargir bannaðar um leið og líkami minn sökk eins og blý. Á sama tíma og ég heyrði skrúfuhljóðið fjarlægjast jókst þrýstingurinn í eyrunum þar til mér fannst höfuðið á mér vera að springa. Skíma skammdegisbirtunnar hvarf sjónum og ég vissi að endalokin færðust nær eftir því sem dýpið togaði. Sársaukinn færðist úr skrokknum inn í lungun sem voru að kremjast undan þrýstingnum. Ég fylltist örvæntingu og öskraði í bólakafi og í sömu andrá fylltust lungun af jökulköldum sjó. Í örskamma stund varð sársaukinn óbærilegur en síðan sortnaði mér og ég missti meðvitund. Allt varð myrkvað og kyrrt. Ég var dáinn en samt fannst mér sérkennilegt að vita það að ég væri dáinn. Hvernig gat ég verið meðvitaður um sjálfan mig eftir að vera orðinn lífvana?
Skyndilega varð ég var við ljóstýru í fjarska sem færðist nær og mér hlýnaði. Þetta var allt svo óraunverulegt í ljósi þess að ég vissi að líkaminn sykki æ dýpra og ég væri drukknaður. En þetta ljós var öðruvísi en venjulegt ljós. Það var einhverskonar seigfljótandi orka sem gaf frá sér gullna birtu sem yljaði mér á þann hátt sem ég hlyti að vera hluti af. Allt varð nú kristaltært og hugsun mín skýr. Úr ljósinu birtist mér andlit sem færðist nær og nær þar til ég gat séð það skýrt og greinilega. Það var maður sem ég þekkti. Hann var fallegur með djúp augu og hátt enni. Hann var hluti af þessu gullna ljósi og ljósið var hluti af honum. Hann rétti mér styrka hönd sína og hreif mig úr djúpinu og upp á yfirborðið þar sem líkami minn var hífður lífvana um borð.
Starandi upp í myrkt en stjörnubjart himinhvolfið milli æpandi andlita skipsfélaganna var það næsta sem ég man. Nístingskuldi og sárir verkir í lungum og líkama gerðu vart við sig og kallinn æpti: „Gerið klárt strákar,-landstím”! Áhöfnin hlúði að mér á dekkinu, vafinn inn í mörg ullarteppi og segl. Brjóstbeinin höfðu brotnað við endurlífgunina og líkaminn var skjálfandi kaldur og illa lemstraður. Strákarnir sögðu mér að ég hefði verið í undirdjúpunum í 10-15 mínútur og að enginn púls né líf hafi verið með mér er mér hafi skyndilega skotið upp á yfirborðið eins og korktappa, 30-50 metrum frá bátnum. Þeir hafi vart trúað sínum eigin augum er ég hóf að kasta upp vatni úr lungunum og byrja að anda með hveljum. Hægri fótur minn, sá sem flæktist í trossunni, var svo illa brotinn að þeir þorðu ekki að bera mig inn undir þiljur, enda einungis hálf önnur klukkustund af landstími framundan og stiginn niður í lúkar þröngur og brattur.
Það mátti heyra saumnál detta er gamli maðurinn lauk frásögninni. Við þekktumst lítillega frá fyrri tíð en hann glímdi við krabba sem hafði lengi hrjáð hann. Nú hafði meinið dreift sér um allan líkamann og komið að loka áfanganum. Við áttum því þetta hinsta samtal við rúmbeð hans á líknardeildinni.
Ég spurði þennan vin minn, hvers andlit og hönd hafi hrifið hann úr undirdjúpunum?
Hann horfði undrandi í augu mín yfir þessari spurningu og svaraði: „Var ég ekki búinn að segja þér það? Það var vitaskuld Jesú Kristur. Á leiðinni upp á yfirborðið sagði frelsarinn mér, að ég ætti eftir að flytja þessa frásögn áður en við hittumst aftur, sem ég geri hér með“.
Það færðist friður yfir ásjónu gamla mannsins um leið og hann lyngdi aftur augunum og varpaði öndinni léttar. Á náttborði hans var lítil bæn Steingríms Thorsteinssonar á snjáðum pappírssnepli sem hafði greinilega fylgt honum margan veginn.:
Trúðu á tvennt í heimi,
tign sem hæsta ber:
Guð í alheims geimi,
Guð í sjálfum þér.
Hálfur annar áratugur er liðinn frá því að þessi vinur minn kvaddi jarðvistina. Frásögn hans var mér að mestu gleymd þar til nú, á jólanótt sem leið, að gamli maðurinn vitjaði mín ljóslifandi í draumi. Hann ljómaði og birtist mér nú eins og hann var upp á sitt besta og sagði: „Maðurinn í jarðvist, hneigist til að skilja það sem honum er meðvitað en ekki ómeðvitað, þó hvor veruleikinn fyrir sig sé jafn raunverulegur“.
Síðan kinkaði hann brosmildur kolli og rétti mér penna og autt blað í hönd. Ég tók við ritföngunum og vaknaði frá draumnum með vissu um hvað gera þyrfti.
Gleðilegt nýtt ár.
Höfundur er áhugamaður um betra líf.