Það er flestum orðið ljóst að hlýnun jarðar er grafalvarlegt mál sem þarf að taka mun fastari tökum. Vísindamenn segja að við jarðarbúar verðum að minnka losun okkar niður í 2.1 tonn af CO2 ígildum á ári fyrir árið 2050 ef við eigum að geta haldið hlýnuninni undir 2°C. Við erum flest langt frá því marki og sem dæmi er kolefnisspor hvers Íslendings skv. gagnagrunnum Evrópusambandsins tæp 40 tonn af CO2 ígildum, sjá mynd 1. Það er því verk að vinna ef við ætlum að standa við okkar hluta af losuninni.
En hvað eigum við að gera og hvaða aðgerðir skipta mestu máli til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda?
Í áhugaverðri grein sem birtist 2017 í tímaritinu Environmental Research Letters, Volume 12, Nr. 7 eftir Seth Wynes og Kimberly A. Nicholas er farið ofan í þessi mál. Þar eru bornar saman fjölmargar aðgerðir sem einstaklingar geta framkvæmt og áhrif þeirra metin á einu ári með aðferð sem er kölluð life cycle approach. Helsta niðurstaða greinarinnar er að það eru fjórar aðgerðir sem hafa mjög mikil jákvæð áhrif á samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.
1. Eignast einu barni færra
Sú aðgerð sem mest áhrif hefur er að eignast færri börn. Þrátt fyrir að vera áhrifamest var hún aldrei nefnd í tengslum við aðgerðir til að sporna við loftslagsbreytingum. Áætlað er losun á hvert barn sé að meðaltali 4 tonn af CO2 ígildum á ári. Munurinn er mikill á milli landa og hafa ber í huga að ríkustu 10% heimsins bera ábyrgð á næstum helmingi losunar gróðurhúsalofttegunda. Það að fæða barn í heiminn þýðir að viðkomandi mun losa gróðurhúsalofttegundir alla ævi og ef hann er eins og meðal Íslendingur er kolefnissporið með því mesta sem gerist í heiminum.
2. Ekki eiga bíl
Í öðru sæti var að eiga ekki bíl sem að meðaltali dregur úr losun um 2.4 tonn af CO2 ígildum á ári. Þeir sem ekki eiga bíl eru auk þess líklegri til að hjóla, ganga og hreyfa sig meira og lifa heilbrigðara lífi. Í sama flokki en með minni jákvæð áhrif er að skipta út bíl fyrir annan sem losar minna af gróðurhúsalofttegundum t.d. metangasbíl eða rafmagnsbíl. Það skiptir máli varðandi rafmagnsbílinn hvernig rafmagnið er framleitt en ávinningurinn er umtalsverður ef rafmagnið er framleitt á grænan hátt líkt og gert er á Íslandi.
3. Forðast lengri flugferðir
Í þriðja sæti er það að forðast lengri flugferðir. Ein flugferð til fjarlægra landa getur losað á við heimilisbílinn og í greininni er miðað við að hver ferð líkt og milli heimsálfanna losi að meðaltali 1.6 tonn á hvern farþega. Hver stutt borgarferð til Evrópu losar um 300-400 kg af CO2 ígildum. Ljóst er að hver ferð sem er sleppt hefur umtalsverð áhrif. Vonandi er stutt í að eldsneyti verði vistvænt en þangað til er ábyrgt að bíða með allar ónauðsynlegar flugferðir.
4. Neyta grænkerafæðis (e. plant-based diet)
Það að skipta yfir í grænkerafæði var líkt og að eignast færri börn ekki nefnt sem aðgerð í neinum upplýsingaritum, kennslubókum eða leiðbeiningum til almennings. Nefnt var stöku sinum að æskilegt væri að draga úr kjötáti en það er stór munur á því að draga saman og skipta alveg yfir. En það eitt að skipta yfir grænkerafæði getur lækkað kolefnisspor einstaklings um 0.8 tonn af CO2 ígildum á ári.
Kolefnisspor plöntufæðis er mjög lítið og kolefnisspor dýraafurða er mjög stórt. Neysla á kjöti er mismunandi eftir löndum, sem dæmi er kjötneysla á hvern íbúa hjá ríkustu 15 þjóðum heimsins 750% meiri en hjá fátækustu 24 þjóðum heimsins. Íslendingar neyta um 85 kg af kjöti á ári, sem er með því mesta í heiminum. Ástæða er til að ætla að kolefnisspor kjöts af sauðfé, nautgripum og hrossum á Íslandi sé margfalt meira en víða annars staðar þar sem kjötframleiðsla hér á landi er að stórum hluta á framræstu votlendi og illa förnu landi vegna ofbeitar. En framræst votlendi og illa farið land er talið losa 12.4 milljónir tonna af CO2 ígildum á hverju ári. Til samanburðar losar allur iðnaður, þ.e. öll álver, kísilver, járnblendi og iðnaðarferlar, rétt rúmar 2 milljónir tonna af CO2 ígildum á ári. Í nýútkomnu riti Landbúnaðarháskólans kemur fram að 1 kíló af kindakjötsskrokki getur verið með kolefnisspor upp á 1 tonn af CO2 ígildum. Í því ljósi má draga þá ályktun að breyting yfir í grænkerafæði er stærsta skrefið sem við Íslendingar getum tekið til að stöðva hlýnun jarðar.
Við verðum að vinna í þessu öllu og því fleiri sem leggjast á árarnar þeim mun fyrr náum við árangri. Það er ekki er eftir neinu að bíða.
Höfundur er stjórnendaþjálfari og ráðgjafi hjá Þekkingarmiðlun.