Áramót eru oft tími uppgjörs, kannski eitt ár aftur í tímann en stundum lengra. Ég get fullvissað Hr. Ólaf Stephensen, framkvæmdastjóra FA um að hefði ég talið mig þurfa að hringja í Bændasamtökin til að fá leyfi til að lýsa skoðunum eða jafnvel fara með einfaldar staðreyndir hefði ég kraflað mig fram úr því. En sem betur fer fengu konur kosningarétt, fyrir 100 árum og þurfa ekki lengur að biðja feður sína um leyfi ef þær vilja opna munninn.
Rétt er það að í nóvember sl. kom út skýrsla á vegum atvinnuvegaráðuneytisins þar sem Bændasamtök Íslands áttu fulltrúa, um þróun tollverndar. Upphaflega var ég skipuð í hópinn en við starfslok hjá Bændasamtökunum hætti ég samtímis í hópnum. Við útgáfu hennar var hins vegar gerð grímulaus tilraun til að bendla mig við skýrsluna sem ég mótmælti skriflega og hún þá leiðrétt. Það sem meira er að Bændasamtökin sjálf, ásamt fleirum, hafa sent sama ráðuneyti bréf þar sem niðurstöðum skýrslunnar var staðfastlega mótmælt, sjá hér. Engin andmæli eða svör hafa borist við því (mér vitanlega) og samkvæmt almennum fundasköpum hljóta athugasemdirnar því skoðast samþykktar.
Það að Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtakanna lagði til við ráðherra í vor að frestað yrði útboðum á tollkvótum felur að sjálfsögðu ekki í sér bann né kröfu um bann við innflutningi á einni einustu örðu af kjöti né osti. Með innleiðingu GATT samninganna árið 1995 var öllum bönnum við innflutningi á landbúnaðarvörum breytt í tolla. Það að tollar séu lagðir á vörur felur ekki í sér bann við innflutningi. Slík útlegging er meira í ætt við ósjálfráða skrift en vitræna umræðu.
Ég get fullvissað starfsmann FA um að fleiri greina um landbúnaðarmál er að vænta frá mér með hækkandi sól og vona einlæglega að hann mun lesa þær hafandi sýnt þennan áhuga á efninu. Mögulega munu einhverjar þeirra birtast í blaði sem fyrrum vinnuveitandi minn gefur út. Ég rétt vona að starfsmaður FA sé nú þegar dyggur áskrifandi að því, þar er oft margar staðreyndir að finna um landbúnað svo að ekki á að þurfa að byggja umræðurnar á „…einhverjum tilbúningi“.
Höfundur er hagfræðingur og verkefnastjóri hjá Mjólkursamsölunni.