Í samfélaginu er rík tilhneiging til að eyrnamerkja fólk flokkum. Oftar en einu sinni hef ég verið spurð hvaða flokki ritstjóri þessa miðils tilheyri, eins og fólk hafi innbyggða þörf til að tengja hann við stjórnmálaflokk til að gengisfella orð hans ef hann hefur skrifað eitthvað sem því þótti óþægilegt að lesa. Eina sem mér dettur þá í hug er að segja: Ég veit ekki betur en hann sé trúr prinsippum frekar en einhverjum flokki.
Þá er viðbúið að spurt sé: Prinsippum, hvernig þá? Hvaða prinsippum? Kannski prinsippum Viðreisnar ... Samfylkingarinnar eða Pírata? Sósíalistaflokksins, kannski?
Það vill gleymast að flokkarnir sem sitja í ríkisstjórn, hverju sinni, eru handhafar valdsins og svo fremur að maður sé ekki sérstakur skríbent fyrir stjórnmálaflokk, þá býður skyldan bæði blaðamönnum og samfélagsrýnum að höggva í það sem gæti hugsanlega verið misnotkun valdhafa á valdinu eða þá eitthvað sem ekki virðist hafa verið hugsað til hlítar. Í stuttu máli sagt: Að veita valdinu aðhald – enda hættir stjórnmálamönnum að meta ekki alltaf sem skyldi hlutverk sitt og raunverulega valdastöðu.
Raunar er mikilvægt, vilji maður standa vörð um sjálfstæði sitt við að skrifa um og greina samfélagið, að tengjast ekki stjórnmálaflokki og það á við um blaðamenn, samfélagsrýna og fræðimenn. Fyrir að verða tuttugu árum síðan, þegar ég aðeins yngri og vitlausari, var ég beðin um að vera á lista fyrir Samfylkinguna. Án þess að hugsa málið til hlítar sló ég til og var, að mig minnir, í sextánda sæti á lista. Í að minnsta kosti tíu ár á eftir hnaut ég annað slagið um eitthvað á netinu þess efnis að það sem ég hefði skrifað um hitt eða þetta væri á vegum Samfylkingarinnar. Já, hún er nú bara málpípa Samfylkingarinnar! Og þar með urðu orð mín dauð og ómerk – sem samfélagsrýnis.
Jólasveinninn rithöfundurinn
Eitt sinn tók ég viðtal við fyrrverandi fréttastjóra á Ríkisútvarpinu sem sagði að á meðan hann hefði gengt því starfi hefði hann forðast mannamót. Það er skiljanlegt í íslenska nábýlinu þar sem sérhagsmunir rekast óhjákvæmilega á í hinum ýmsu myndum og félagsmenningin er bæði lituð af þeim og stjórnmálum. Eitt það flóknasta við tilveru mína síðustu árin hefur verið að sameina þessi tvö ólíku hlutverk, að vera annars vegar samfélagsrýnir og hins vegar rithöfundur með margflókið félagsnet – því það að vera áberandi rithöfundur á Íslandi er svolítið eins og að vera jólasveinninn, fólk leitar í þig, þú þarft að vera farandsali í jólabókaflóðinu og aðgengi að þér er greitt.
Ef þú hefur skrifað eitthvað ofur mannlegt í bók tengjast ólíkir lesendur þér á þeim forsendum, fólk úr allskonar áttum sem maður á við einlæg samtöl, og það býður upp á að einhverjir upplifa sig svikna þegar þú síðar gagnrýnir eitthvað í pólitík, orðræðu, atvinnuháttum, siðferðisátakamálum eða viðskiptum sem snýr að þeim.
Ýmsir æskuvina minna og aðrir vinir eru áberandi í stjórnmálum eða nátengdir inn í ólíka flokka og fyrir vikið upplifi ég reglulega særindi, að einhverjum finnst ég hafa hnýtt of harkalega í eitthvað sem viðkomandi er heilagt, þannig að ég hef þurft að brýna fyrir sjálfri mér að hlutverk samfélagsrýni er ekki minna hlutverk en að vera stjórnmálamaður. Á meðan ég starfa sem slíkur ber mér að skorast ekki undan að segja óvinsæla hluti, svo lengi sem ég get rökstutt mál mitt.
Tryggðin við hlutverk
Með árunum hef ég þjálfast í þessum flókna veruleika og skerpt prinsippin, þannig reyni ég að halda hlutleysi með því að forðast núorðið að skrifa gagnrýnið um einstaklinga ef ég á einhvers konar persónulega óþægilega sögu í samskiptum við þá sem gæti haft áhrif á skynjun mína og að sama skapi forðast ég líka að hampa þeim sem standa mér of nærri. Það hefur einnig komið fyrir að ég hef þurft að hætta að skrifa um mál eftir að hafa áttað mig á óvæntum tengslum sem ég var ekki meðvituð um áður og stundum hef ég verið hættulega nálægt grensunni, en getað leyft mér það sem rithöfundur á aðeins skáldlegri forsendum. Um leið ber mér skylda til að gagnrýna pólitík fólks sem stendur mér nærri, rétt eins og ég myndi gagnrýna pólitík annarra, ef sannfæring mín er sú. Annars væri ég ekki hlutverki mínu vaxin, það verður að vera æðra mér, þó að það takist ekki alltaf.
Svona sé ég prinsipp mín, mótuð af reynslunni, en um leið er ég meðvituð um að ég hef gert mistök og ef meðvitundin er ekki stöðug er auðvelt að gera þau í hugsunarleysi, jafnvel afdrifarík, enda veruleikinn oft töluvert flóknari en skáldskapur. Eina varðan í slíkri vegferð er að tryggðin getur ekki legið í vinanetinu, á endanum geturðu aðeins verið trúr hlutverki þínu, ef þú á annað borð virðir það sem skyldi.
Góðborgarar innan sama kerfis
Á Íslandi er svo margt félagslega persónulega samtvinnað, á þann hátt að hið félagslega getur verið öflugt vopn í bæði stjórnmálum og viðskiptum, sem og svo mörgu öðru. Hér liggja völdin hjá góðborgurum, sama við hvaða flokk þeir kenna sig og hvort sem völdin liggja fjármagnslega, menningarlega, félagslega eða menntunarlega. Góðborgarar tala sama lingóið og geta verið samtaka í að normalísera hvers konar hnjask á prinsippum, svo lengi sem það haggar ekki veruleika þeirra sjálfra, hvort sem þeir flokka sig til vinstri, hægri eða einhver staðar á miðjunni. Þeir standa vörð um sameiginlega hagsmuni. Góðborgarar þrífast í sama veruleikanum og taka ekki eftir eigin góðborgarablindu því þeir sjá ekki nógu vel út fyrir hann. Þeir tilheyra sama kerfinu. Sama strúktúr. Þar með taldir vel flestir stjórnmálamennirnir. Og fjölmargir góðir vinir mínir. Jafnvel ég sjálf – þó ekki fjármagnslega. Svo lengi sem vel gengur er maður ósjálfrátt innan þess kerfis og fær aðgengi að tækifærum og félagsneti. Það er innbyggt í góðborgarann að finnast hann eiga heimtingu á góðu trídi!
Einhver tímann heyrði ég sagt að listamenn standi utan kerfisins og einmitt þess vegna geti þeir sem eru áberandi valsað inn í allar kreðsur en um leið staðið utan þeirra. Ekki algilt en heldur ekki rangt. Kannski er það þetta sem ég á við þegar ég tala um að rithöfundur sé eins og jólasveinn. Sama hversu blankur og ómenntaður listamaðurinn er, þá er hann víða velkominn ef verkið hans er vinsælt. Og þá þarf sérstaklega að hafa varann á sér gagnvart vinalegum stjórnmálamönnum sem eiga til að hringja og biðja um stuðning. Eitthvað sem listamenn segja oft hugsunarlaust já við, án þess að gera sér grein fyrir fengnum sem þeir eru, að þeir eru að ljá stjórnmálamanninum ljómann af lífsverki sínu og ákveðna ímynd sem er dýrmætari en gull í nútímasamfélagi. Og lunknir og læsir stjórnmálamenn vita virði ímyndar og félagsnetsins, í raun þarft oft öflugt tengslanet til að komast áfram í stjórnmálum.
Fréttamaðurinn og stjórnmálamaðurinn
Eiginlega ber góðborgurum skylda til að vera gagnrýnir í hugsun og meðvitaðir um prinsipp vilji þeir samfélagi sínu vel. Svo mikið vald liggur hjá þeim. Menningarlegt auðmagn og fjárhagslegt auðmagn stýra samtíga dansi í því að móta samfélagið. Valdið leitar í vinsældirnar og öfugt. Síðustu árin hefur popúlisma vaxið svo ásmegin í Evrópu og víðar í heiminum að svartsýnustu spámenn hefðu ekki getað séð það fyrir, hvað þá þróunina eins og hún hefur orðið í sumum nágrannalöndum okkar. Náungar á borð við Berlusconi og Trump, svo nefndir séu einhverjir skrautlegir kandídatar sem kunnu að leika með samspil valds og menningarlegra ímynda, náðu völdum á öldum sjónvarpsmenningar og netheima, á tímum þegar poppfígúrur hafa getað spúð áróðri yfir umfjallanir hefðbundinna fjölmiðla, grafið undan þeim og þverbrotið öll prinsipp.
Einmitt þess vegna þurfum við að tala um prinsipp. Meðal einkenna popúlískra afla eru að það er grafið undan prinsippum sem lúta að sjálfstæði og starfsskilyrðum hinnar heilögu þrenningar: fjölmiðla, dómstóla og sérfræðinga – nokkuð sem hefur gerst hér á landi. Við tölum ekki nóg um prinsipp – með það fyrir augum hversu mikið brautargengi popúlískir öfgaflokkar hafa fengið í mörgum frjálslyndum lýðræðislöndum síðustu ár, jafnvel löndum þar sem enginn hefði búist við slíkri þróun í. Prinsipp móta stjórnmálamenninguna, gildismat samfélagsins. Svo ef sitjandi valdafólk, varið af góðborgurum, veigrar sér við að standa vörð um prinsipp í málum sem varða atferli stjórnmálamanna og afdrifaríkar ákvarðanir í strúktúr lýðræðisstoða, þá normalíserar það hættulega ómenningu, jarðveg fyrir popúlisma, án þess að gera sér grein fyrir því. Það aðeins hliðrar til í þessu máli, gerir samkomulag í öðru, lítur framhjá í því þriðja, sýnir ákveðið yfirlæti í því fjórða af því það nennir ekki enn einum slagnum eða dýpra í umræðuna, svarar með glamri í tómum orðum í því fimmta ... og smám saman er menningin orðin verri.
Þegar stjórnmálafólk sýnir slíka takta verð ég afhuga því. Fyrir utan að sýna grunnhyggni á tímum pr-isma & popúlisma, þá skapar það með því móti frjótt umhverfi fyrir hvers konar spillingu, jafnvel ómeðvitað, þannig að við hættum að greina spillingu því hún verður samdauna gangverki samfélagsins. Ef öll viðmið eru miðuð við þægilegan takt hins góðborgaralega hversdags – félagslega samheldni, yfirborðslega umræðu og yfirlæti eða óþol gagnvart gagnrýnum greiningum – er hætt við að blindan mylji undan okkur eitthvað dýrmætara. Einmitt þess vegna er ómetanlegt að til er fólk eins og fréttastjórinn sem forðast félagsnet eins ákaft og stjórnmálamaðurinn sækir í að skapa þau.
Þetta er fyrsti pistillinn af þremur þar sem Auður greinir nýyrðið góðborgarablinda. Hinn fyrsti fjallar um félagslega góðborgarablindu, annar um hina lífskjaralegu og þriðji um stjórnmálalega góðborgarablindu.