Stundum er talað um að fólk þurfi ekki að finna aftur upp hjólið. Oftast er þá átt við að ekki sé þörf á að eyða mikilli orku eða tíma í að gera athuganir á því sem þykir augljóst. Í nýsköpunarumhverfi er hins vegar talið hollt að efast um allt, að minnsta kosti einhvers staðar í þróunarferlinu. Að leyfa sér að spyrja spurninga og hafa efasemdir um þá hluti sem flestir hafa áður talið sjálfsagða. Oft er það einmitt þetta atriði sem opnar nýjar dyr og möguleika fyrir sprotafyrirtæki, þegar komið er auga á tækifæri til þróunar á sviðum þar sem áður var talið að ekkert væri að frétta. Sem betur fer er mikil gróska í íslenskri nýsköpun og nú þegar hefur tekist að kollvarpa mörgum sjálfgefnum hugmyndum fyrri tíma. Jafnvel á ólíklegustu sviðum.
Lengi vel taldi fólk sjálfgefið að ekki væri hægt að stunda hjólreiðar á Íslandi allan ársins hring, hér væru veður einfaldlega of slæm og ófyrirsjáanleg. Jafnvel var það talið til að Ísland væri einfaldlega of hæðótt til að fólk nennti að fara á milli staða með vöðvaafli. Sumir héldu því meira að segja fram að hjólandi fólk andaði svo ótt og títt að koltvísýringur í útöndun myndi í bröttustu brekkunum jafnast á við eitraðar dísilgufurnar frá gamalli hrepparútu. En það var þá og síðan hefur margt breyst.
Með þeirri holskeflu ferðafólks sem reið yfir Ísland á undanförnum árum varð mikil aukning í sölu á alls kyns útivistarfatnaði, sérstaklega þeim sem er þróaður og framleiddur með hliðsjón af áralangri reynslu af útivist og fjallalífi og byggir á íslensku hugviti. Efni og aðferðir við framleiðslu á léttum og vönduðum útivistarflíkum sem halda frosti og láréttri rigningu frá því að fólk gegnblotni eru nú orðin svo háþróuð að það jafnast næstum á við gamla lopapeysu. Fatnaðurinn andar þannig út nær öllum þeim umframhita og -raka sem mannslíkaminn gefur frá sér við áreynslu, til dæmis við hlaup eða fjallgöngu. Og hjólreiðar.
Flest fólk sem fylgist sæmilega vel með veðri og vindum veit að veðurspár eru sífellt að verða nákvæmari og eru ekki lengur eins staðbundnar og áður. Með hvaða snjallsíma sem er má nú fletta upp veðurspá næstu daga og vikna sem sýnir nokkuð nákvæmlega hvernig veðrið verður, jafnvel á svo smáu svæði að mismunandi hús við sömu götu fá mismunandi veðurhorfur. Að minnsta kosti ein af þeim vefþjónustum sem bjóða þannig spár er byggð á íslensku hugviti. Tæknin og aðferðirnar að baki þeirri þjónustu eru orðin verðmæt útflutningsvara á þessu sérhæfða sviði. Nú getur fólk sem sagt notað afurð af íslensku hugviti til að skipuleggja útivistina og átta sig á hvaða fatnað og búnað þarf að taka með í veiðiferðina eða fjallgönguna. Og hjólatúrinn.
Mikið er rætt um orkuskipti til framtíðar, þörfina á að fækka eiturspúandi hrepparútum og öðrum vélknúnum ökutækjum til að draga úr útblæstri almennt. Þó enn sé lítið um innlenda framleiðslu á rafknúnum ökutækjum hlýtur sú breyting sem er að verða í notkun raforku í samgöngum á Íslandi að vera fagnaðarefni. Raforkuframleiðsla og dreifing er líkast til ekki nema að litlu leyti íslensk uppfinning, en framleiðslan er bæði öruggari og hagkvæmari en á mörgum öðrum stöðum í heiminum og það byggir á íslensku hugviti. Fyrir litla eyþjóð sem hefur um langt skeið kostað miklu til við innflutning á jarðefnaeldsneytum til að komast yfir skörðótt fjöll og firnindi er þetta í raun alger bylting. Að líða áfram á rafknúnu farartæki og fara þannig nánast hljóðlaust milli staða, jafnvel upp bröttustu brekkur, er yndisleg tilfinning. Hvort sem farartækið er bifreið eða reiðhjól.
Svo var það þetta með koltvísýringinn í andardrættinum. Meira að segja þar kemur íslenskt hugvit líka til bjargar. Þó ekki megi slaka neitt á því að draga úr eitruðum útblæstri er líka hægt að skoða hvernig má bregðast við þeim útblæstri sem þrátt fyrir allt á sér stað. Nú hafa fundist aðferðir til að draga kolefni úr andrúmsloftinu og þjappa því aftur djúpt niður í jarðveginn þaðan sem það kom. Þetta þýðir að jafnvel þó öll þjóðin færi á hverjum degi yfir hæstu tinda landsins á eldgömlu reiðhjóli með haugryðgaða keðju verður væntanlega í náinni framtíð mögulegt að tryggja kolefnishlutleysi.
Með snjallsímann að vopni eru margir nú þegar farnir að fylgjast vel með veðurútliti næstu daga. Svo klæðist þetta fólk háþróuðum íslenskum útivistarfatnaði þegar það á við og rennur á reiðhjólum hvert sem þurfa þykir í nánast hvernig veðri sem er. Þetta fólk sannar fyrir okkur hinum að hjólreiðar eru raunhæfur samgöngumáti, allan ársins hring, líka á Íslandi. Kannski fleiri ættu að efast um það sem áður þótti sjálfgefið. Fólk gæti jafnvel spurt hvort ekki sé kominn tími á að leggja endanlega dísilknúnu hrepparútunni.