Síðustu sex ár hafa verið þau hlýjustu frá upphafi veðurmælinga og áratugurinn 2011-2020 sá heitasti. Fyrir utan 8% minni losun gróðurhúsalofttegunda á síðasta ári vegna kórónuveirunnar er ekki margt sem gefur ástæðu til mikillar bjartsýni. Hamfarir sem tengjast hlýnun jarðar eru næstum daglega í fréttum hér á Íslandi og um allan heim, aurskriður, ofsaveður, vatnsflóð, snjóflóð, þurrkar, skógareldar, stöðugur útdauði dýrategunda o.s.frv.
Staðan er grafalvarleg og ástæða þess að 196 þjóðir heims komu saman árið 2015 til að gera samning um aðgerðir í loftslagsmálum. Úr varð Parísarsamningurinn sem hefur að markmiði að halda hlýnuninni undir 2°C, helst 1.5°C. En hvar erum við stödd í dag?
Erum að falla á tíma
Í desember 2020 skrifaði dr. Zeke Hausfather grein sem birt er á heimasíðunni Carbon Brief og heitir Analysis: When might the world exceed 1.5°C and 2°C of global warming?
Grein Hausfather er byggð á spálíkani sem kallast CMIP6 sem er notað af Vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna (IPCC eða The Intergovernmental Panel on Climate Change) til að búa til Sixth Assessment Report sem mun líta dagsins ljós 2021-2022. Helsta niðurstaða hans er að ef ekki verði dregið stórlega úr losun gróðurhúsalofttegunda muni hlýnunin fara yfir 1.5°C á árunum 2026 til 2042. Miðgildið er árið 2031.
Í þeirri sviðsmynd sem gerir ráð fyrir mestri losun förum við yfir 2°C þröskuldinn á árunum 2034 til 2052. Miðgildið er árið 2043.
Miðað við lítilsháttar samdrátt og að losunin verði svipuð og hún er í dag förum við yfir 2°C hlýnun á árunum 2028-2072 með miðgildi árið 2052.
Það er mismunandi hvaða forsendur eða sviðsmyndir liggja til grundvallar útreikningunum og hægt að deila um nokkur ár til eða frá. Aðalatriðið er þó að lítill munur er á milli spálíkananna og ljóst að það er lítill tími til stefnu ef takast á að stöðva hlýnunina við 1.5°C eða 2°C. Margir þjóðarleiðtogar hafa lýst þessu sem neyðarástandi og sama gerðu rúmlega 11 þúsund vísindamenn frá 153 löndum í tímaritinu BioScience.
Loftslagsmálin ekki tekin alvarlega
Heimsbyggðin er nokkuð langt frá því að taka loftslagsvandann alvarlega. Ekki þarf nema að skoða áform ríkisstjórnar Íslands til að átta sig á því að hversu lítil alvara er í aðgerðunum. Áherslan hefur verið á að komast upp með að gera sem minnst og Parísarsamningurinn hentað vel því einungis lítill hluti losunar Íslands fellur undir hann. Aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar stefnir á samdrátt að hámarki 1-2 milljóna tonna á næstu 10 árum á meðan heildarlosun Íslands á ári er um 18 milljónir tonna (með landnotkun og illa förnu landi). Það er ekki lítil losun en til samanburðar er Noregur með losun upp á um 51 milljón tonn og þar búa 5.4 milljónir.
Samkvæmt gögnum frá European Environment Agency (EEA) erum við með langstærsta kolefnisspor per einstakling í Evrópu eða næstum 40 tonn á mann á meðan Lúxemborg, sem er í næsta sæti á eftir okkur, losar 17 tonn á mann.
Það sem upp á Ísland stendur er að draga hratt úr losun á þeim 18 milljónum tonna sem bestu upplýsingar vísindamanna kveða á um.
Hægt að ná miklum árangri strax
Það verður að teljast umhugsunarefni að ekki skuli fastar tekið á þeim tveim þáttum sem losa rúmlega tvo þriðju af gróðurhúsalofttegundunum á Íslandi þ.e. framræst votlendi og gróðureyðing á illa förnu landi. Framræst votlendi losar 8.4 milljónir tonna á ári og ef dregið er frá allt það framræsta land sem er í notkun, t.d. í landbúnaði, eru eftir 6.6 milljónir tonna sem hægt að endurheimta strax. Illa farið land er talið losa 4 milljónir tonna sem eru vegna ofbeitar við framleiðslu á kindakjöti. Á Íslandi eru framleidd 9000 tonn af kindakjöti en markaður er fyrir 6000 tonn hérlendis. Kolefnissporið af því kjöti er í þokkabót á engan hátt verjandi.
Áherslan yfirvalda er að mestu á orkuskipti í samgöngum, sem vissulega þarf að hraða, en hafa ber í huga að losun gróðurhúsalofttegunda í samgöngum er einungis tæp milljón tonn á ári af þeim 18 sem Ísland losar.
Það er kominn tími til að gyrða í brók, það eru hamfarir handan við hornið.
Greinarhöfundur er ráðgjafi.