Ég skoðaði nýlega vef Alþingis (eins og geðheilsuhraustir ungir menn gera) og sá þar frumvarp um menntastefnu Íslands 2020-2030. Þar var listi sem innihélt mikilvægustu hæfileika framtíðarinnar (samkvæmt mennta- og menningarmálaráðuneytinu) og var lestur í fyrsta sæti á þeim lista. Það er rökrétt að kennsla í lestri sé forgangsatriði, enda fer lestri og lesskilningi sífellt hrakandi á Íslandi og tímabært að kippa því í lag.
Eins og stendur er vinsælt að auka lestur barna og ungmenna með því að þvinga þau til lestrar. Það þýðir að barn sem hefur ekki áhuga á lestri er látið lesa þangað til að það kann að meta skemmtanagildi lesturs hvort sem því líkar það betur eða verr, en lestrarhestur bekkjarins sem hefur unun af lestri græðir tímabundna virðingu bekkjarfélaga sinna í stemningu þar sem hann tekur að sér hlutverk Sörla úr Dýrabæ. Kannski er betra fyrir geðheilsu, náttúrulega forvitni og lestraráhuga barna að láta þau í friði eftir að þau eru búin að koma sér í gegnum Sísí og Lóló svo að þau sjálf ákveði hvað þau lesa næst og á hvaða hraða.
En hvað með unglinginn? Viðmót klámkynslóðarinnar gagnvart „réttu“ málfari og „réttri“ íslensku er aðallega mótað af íslenskukennslu, en hún er eins og stendur álíka opin fyrir frjálsu hugarfari og Pútín er fyrir Gay Pride. Hið gífurlega magn málfræðiverkefna og skyldulesturs í íslenskunámi ætti að vera gott efni í samsæriskenningu um hvort að íslenskunám sé hannað af sértrúarsöfnuði rétttrúnaðarriddara innan Stofnunar Árna Magnússonar, með það markmið að koma í veg fyrir hinn næsta Halldór Laxness og nýja bylgju atómskálda með því að drepa áhuga ungmenna á íslenskri tungu.
Þetta gengur ágætlega hjá þeim enda eru ungir rithöfundar, tónlistarmenn, skunkskáld og veggjakrotarar farnir að stunda listir sínar í síauknum mæli á ensku. Ein ástæða fyrir aukinni enskunotkun í listsköpun er ótti við að nota íslensku, en sá ótti stafar af áhyggjum um að ef það finnast málfræðivillur munu hneykslaðir herskarar fyrri kynslóða koma og svívirða listamanninn svo að sjálfstraust hans og listaferill verði fyrir varanlegum skaða. Er til önnur þjóð þar sem ungmenni þora ekki að skrifa ljóð á móðurmáli sínu af ótta við stafsetningarvillur?
Ég efast ekki um að ótti um að íslenska sé að hverfa muni viðhaldast jafn lengi og íslenskan sjálf, en getum við samt náðarsamlegast nýtt þann ótta í að sækja fram og nútímavæða kennsluhætti á íslensku og lestri svo að krökkum finnist í alvöru gaman að læra tungumálið og lesa frekar en að grafa okkur niður í skotgrafir íhaldssemi og afturhvarfshyggju. Við lifum á öld endalausrar afþreyingar þar sem sífellt erfiðara er að búast við því að krakkar (og fullorðnir) geri eitthvað sem þeim finnst leiðinlegt að gera, eins og að læra gott og rétt mál án nokkurrar umbunar nema minni kvartana foreldra og hagfræðinga yfir PISA-könnunum. Á einhverjum tímapunkti verður nám að verða skemmtilegt, hvort sem fólki líkar það betur eða verr.
Höfundur er nemi við Menntaskólann á Akureyri.