„Virðulegi forseti. Ég vil ítreka hversu mikilvægt stjórntæki rammaáætlun er fyrir ákvarðanatöku stjórnvalda um mikla hagsmuni og málefni sem hafa valdið miklum átökum í okkar samfélagi. Það er brýnt að tapa ekki sjónum á því að rammaáætlun er ætlað að leggja stóru línurnar fyrir áform stjórnvalda um vernd og orkunýtingu orkukosta.“
Svo mælti umhverfisráðherra þegar hann lagði fram þingsályktunartillögu um 3. áfanga rammaáætlun núna í janúar. Hann er alls ekki einn um þá skoðun að rammaáætlun sé mikilvægt faglegt ferli sem beri að virða og standa vörð um til að koma böndum á átök milli virkjunarafla og náttúruverndar. En gengur þetta raunverulega? Gæti það kannski verið þess virði að staldra aðeins við og spyrja sig hve mikla virðingu þetta ferli eigi raunverulega skilið?
Staðreyndirnar tala sínu máli: Raforkuframleiðsla Íslendinga hefur hvorki meira né minna en fjórfaldast frá því þetta „ferli“ var sett af stað – af kynslóðum sem hugsuðu ólíkt flestu ungu fólki í dag. „Stóru línur“ stjórnvalda, eru það kannski áform um að fjórfalda aftur raforkuframleiðslu Íslendinga áður en það fólk verður miðaldra?
Afgömul rammaáætlun
Byrjum á að fara yfir uppruna rammaáætlunar. Upphaflega verkefnavinnan sem leiddi síðar til rammaáætlun var unnin fyrir tæplega 30 árum. Í greinargerð með lögum um rammaáætlun sem samþykkt voru árið 2011 stendur eftirfarandi:
„Vinna að gerð rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma á rætur sínar í sjónarmiðum um sjálfbæra þróun. Árið 1993 skipaði þáverandi umhverfisráðherra starfshóp um umhverfismál, iðnþróun og orkumál. Honum var falið að skilgreina sjálfbæra þróun í þessum málaflokkum og setja markmið til skemmri tíma. Jafnframt var honum falið að gera framkvæmdaáætlun í umhverfis- og þróunarmálum til aldamóta. Starfshópurinn skilaði áliti sínu í mars 1995. Þar var lagt til að unnin yrði rammaáætlun til langs tíma um nýtingu vatnsafls í samræmi við samhæfða stefnu í umhverfis-, orku-, iðnaðar- og efnahagsmálum.“
Þar höfum við það, upphafið að rammaáætlun nær aftur til vinnuhóps árið 1993. Við erum sem sagt ennþá að vinna í samræmi við hugmyndafræði sem lagt var upp með snemma á tíunda áratug síðustu aldar. Næsta spurning hlýtur þá að vera: Af hverju ættum við að virða tæplega 30 ára gamla hugmyndafræði? Út á hvað gekk rammaáætlun í upphafi?
Hugmyndin með rammaáætlun var nefnilega fyrst og fremst að aðstoða orkufyrirtæki landsins við að finna þægilegustu og auðveldustu virkjanakostina, og fá skotleyfi að ofan til að ráðast í þá án vandræða með því að friða náttúruverndarfólk með sýndarmennsku. Í almennum athugasemdum frumvarps um rammaáætlun árið 2011 stendur að því sé „ætlað að stuðla að meiri sátt um orkuvinnslu og minnka óvissu orkufyrirtækja við val á virkjunarkostum.“ Á sama stað stendur einnig þetta: „Þá er mikilvægt að skapa betri sátt um nýtingu þessara mikilvægu náttúruauðlinda en á undanförnum árum hefur andstaða við uppbyggingu virkjana aukist.“ Sem sagt, rammaáætlun hefur í grunninn alltaf snúist um að finna virkjunarstaði fyrir orkufyrirtæki. Náttúruvernd og barátta gegn risavirkjunum stendur í vegi fyrir nýtingu, er greinilega „andstaða“ við framfarir og eingöngu til trafala.
Afurðir rammaáætlunar?
En hverju hefur rammaáætlun skilað raunverulega? Jú, mörgum mikilvægum náttúrusvæðum hefur sem betur fer verið hlíft (þau hefðu reyndar mörg hver verið afar óhagstæð og erfið til nýtingar fyrir orkufyrirtækin hvort eð er), en á móti hafa virkjunaröflin fengið að háma í sig mörg svæði sem hefði átt að hlífa. Alls 8 nýjar stórvirkjanir hafa verið gangsettar frá því rammaáætlun fór af stað skömmu fyrir aldamót: Sultartangavirkjun var gangsett árið 1999, Vatnsfell 2001, Hellisheiði og Reykjanes 2006, Kárahnjúkar 2007, Búðarháls 2013, Þeistareykir 2017 og Búrfellsvirkjun II árið 2018. Ofan á þessar virkjanir hafa aðrar stórvirkjanir einnig verið stækkaðar, og heildarframleiðsla raforkukerfisins aukist úr um 4.700 GWst árið 1999 upp í um 20.000 GWst árið 2021.
Raforkuframleiðsla hefur ríflega fjórfaldast á þeim tíma sem rammaáætlun hefur verið við lýði. Miðað við þessar tölur virðist tilgangi rammaáætlunar hafa verið náð og vel það: að aðstoða orkufyrirtæki við að miða út þægilega virkjunarkosti sem hægt er að nýta möglunarlaust.
Og enn á að virkja. Landsvirkjun vill fara af stað í virkjanir í neðri hluta Þjórsár og Bjarnarflagi við Mývatn. HS orka gín yfir Eldvörpum og öðrum jarðhitasvæðum Reykjanesskagans. Ósnortin víðerni Austurlands eru undir, hart er sótt að Hólmsá og Skaftá, og nú síðast hafa fjölmörg vindorkufyrirtæki sýnt vilja til að troða risastórum vindorkuverum upp á lítil samfélög víða um land. Maður spyr sig: Er staða umhverfis- og náttúruverndarmála ef til vill ekkert betri í dag heldur en fyrir 30 árum, þegar rammaáætlun var í startholunum? Það er vissulega óþægileg tilhugsun en ef litið er raunsætt á málin þá er það líklegast niðurstaðan. Við erum því miður enn makalaust sjálfhverf þegar kemur að umgengni okkar um náttúruna, þröngir fjárhagslegir hagsmunir okkar liggja langt ofar henni. Ósnortin víðerni, lífríki, vistkerfi, viðkvæmar jarðminjar, landslagsheildir og smærri samfélög víða um land – ekkert af þessu virðist mæta nokkrum skilningi þeirra sem vilja fyrst og fremst halda áfram að virkja. Mesta raforkuframleiðsluþjóð heims er óseðjandi.
Þrátt fyrir málflutning framsýnna eldhuga eins og Ómars Ragnarssonar og Guðmundar Páls Ólafssonar heitins hefur grundvöllur rammaáætlunar aldrei verið ræddur. Sannleikurinn er sá að við erum að reyna að stýra umgengni okkar um viðkvæma náttúru landsins með 30 ára gamlar hugmyndir sem fyrirmynd. Í ansi mörgum öðrum málaflokkum væri búið að endurskoða allt kerfið í það minnsta einu sinni á þessu tímabili, ef ekki tvisvar. En hugmyndafræðin sem snýr að umgengni okkar um náttúruauðæfi landsins er ennþá ósnertanleg þremur áratugum eftir að til hennar var stofnað.
Úrelt hugmyndafræði eldri kynslóða
Þessu verður að breyta tafarlaust, hugmyndafræði rammaáætlunar er löngu orðin úrelt. Stjórntæki sem fæst við ein allraveigamestu mál okkar samtíðar, umhverfi og náttúru Íslands, má ekki byggja á 30 ára gömlu gildismati sem snerist fyrst og fremst um að koma náttúruauðlindum í lóg. Vegna aldurs eins og sér tekur þessi hugmyndafræði raunar ekkert tillit til sjónarmiða þeirra kynslóða landsins sem fæddar eru eftir 1970-1980, af þeirri einföldu ástæðu að þær voru ekki fullvaxta, já eða yfir höfuð fæddar. Yngstu kynslóðir Íslendinga voru ekki enn komnar til áhrifa þegar lagt var upp í þá vegferð sem enn er við lýði. Þær kynslóðir sem munu erfa landið búa við afgamalt fyrirkomulag eldri kynslóða.
Hlutverk eldri kynslóðanna er að stíga til hliðar og leyfa yngri kynslóðum að taka við keflinu. Yngstu kynslóðir landsins verða að hafa umsagnarrétt um þetta gríðarlega mikilvæga mál. Nánast allir sem komu í upphafi að hugmyndinni um rammaáætlun árið 1993–1995 og allmargir þeirra sem sátu í fyrstu verkefnisstjórn rammaáætlunar 1999–2003 eru komnir á eftirlaunaaldur eða að nálgast hann. Árið 1995, þegar lagt var til að unnin yrði rammaáætlun, var núverandi umhverfisráðherra hins vegar í framhaldsskóla og iðnaðarráðherra rétt byrjuð í grunnskóla. Greinarhöfundur var 11 ára. Rammaáætlun er hugmynd kynslóða sem ekki eiga sér langa framtíð, á meðan hinar yngri hafa aldrei haft neitt um málið að segja.
Þverpólitísk heildarendurskoðun
Endurskoðun ferlisins á bak við rammaáætlun ætti alls ekki að vera flokks- eða byggðapólitískt mál. Endurskoðun umhverfismála og umgengni okkar um náttúruna snýst um eðlilegar og löngu tímabærar breytingar á viðhorfum okkar til náttúrunnar og þarfa komandi kynslóða. Grundvallarviðhorfsbreytingar til auðlindanýtingar og skaðlegrar ágengni mannsins hafa orðið síðustu 30 ár, sérstaklega hjá yngstu kynslóðunum.
Hér mega alls ekki áratuga viðhorf stýra umræðu og ákvarðanatöku. Við vitum vel að þau viðhorf eru ennþá við lýði, forvígismenn þeirra vilja halda í valdið og hafa áfram tangarhald á öllum ákvörðunum sem snúa að umhverfi og náttúru. En slíkt gengur ekki lengur og nú er tími til að stoppa. Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og varamaður í umhverfis- og samgöngunefnd, kom beint að innsta kjarna málsins í ræðu sinni um rammaáætlun þann 21. janúar síðastliðinn. Hún lýsti yfir vilja sínum til að setja sem flesta kosti í biðflokk til lengri tíma, og sagði:
„[É]g er bara sannfærð um að þegar kemur að okkar mikilvægu náttúruauðlindum og hvernig skuli nýta þær sé svo margt sem framtíðarkynslóðir verði bara að fá að gera upp við sig. Við sjáum svo ofboðslega miklar tækniframfarir eiga sér stað sem valda því að við þurfum minni orku til að framleiða ákveðna hluti, á sama tíma og aðrir hlutir kalla á meiri orku, til að mynda í orkuskiptunum og öðru.“
Hér birtist kjarni þeirrar umræðu sem við þurfum að ganga í gegnum tengt virkjunum og annars konar náttúrunýtingu: „Kynslóðir framtíðar þurfa að fá að gera þetta upp við sig sjálfar“. Kynslóðirnar fæddar 1900–1960 hafa tekið nánast allar ákvarðanir hingað til um stórvirkjanaframkvæmdir landsins sem gefið hafa af sér hina gríðarlega miklu orkuframleiðslu Íslendinga. Núna þurfum við að láta frekari ákvarðanir bíða komandi kynslóða, allra helst þeirra ófæddu.
Heimtufrekjan að drepa umhverfi okkar
Í sömu umræðu og Bryndís Haraldsdóttir kvaddi sér hljóðs um hagsmuni komandi kynslóða sagði Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður VG og nefndarmaður í umhverfis- og samgöngunefnd, hins vegar þetta:
„Þegar þetta er lagt saman þá ætla ég að fullyrða að orð – ég vil nánast kalla það mýtu eða goðsögn – um að ekki sé þörf á frekari raforkuframleiðslu um árabil á Íslandi, eru meira en lítið vafasöm.
Þetta viðhorf er ákaflega sorglegt, sérstaklega frá þingmanni þess flokks sem hingað til hefur helst kennt sig við umhverfismál og náttúruvernd. Hér er skautað algjörlega fram hjá núverandi raforkuframleiðslu Íslendinga, sem er sú langmesta í heimi miðað við mannfjölda
Það er mjög réttmætt að sú þjóð sem þegar framleiðir mest allra þjóða í heimi af raforku þurfi ósköp einfaldlega að finna út úr því hvernig hún getur hlíft náttúrunni við frekari virkjanabrölti í stað þess að halda einstrengingslega áfram á sömu braut. Krakka sem hagar sér svona og heimtar enn meira þótt hann hafi þegar miklu meira en allir hinir krakkarnir, væri hreinlega sagt að hætta heimtufrekjunni og láta sér duga það sem hann hafi nú þegar. Íslendingum virðist þó finnast það sjálfsagt að heimta græðgislega enn meira þótt þeir hafi þegar aðgengi að margfalt meiri raforku en allar aðrar þjóðir á jörðu. Af hverju erum við svona rosalega mannhverf og yfirgangssöm gagnvart umhverfi okkar á þessari eyju? Með öll þessi náttúruauðæfi sem aðrar þjóðir öfunda okkur af og myndu gefa mikið til að hafa. Maður spyr sig: Erum við kannski frekasta þjóð í heimi?
Það er forneskjuleg og úrelt hugsun að kalla þá hugmynd mýtu, að það þurfi að hlífa náttúrunni við aukinni rányrkju okkar sjálfhverfu hugsunar sem lítur á umhverfi sitt einungis sem sjálfsagða eign til eigin hagnýtingar. Yfirstandandi loftslagsvá sýnir glögglega að við þurfum snarlega að losna undan oki þessa úr sér gengna hugmyndaheims, sem þegar hefur leitt yfir náttúru jarðar hörmulegar og ófyrirsjáanlegar afleiðingar, og mun gera um langa tíð.
Óvirðing gagnvart komandi kynslóðum
Það er sjálfsögð krafa að hugmyndafræðin á bakvið rammaáætlun verði strax tekin til gagngerðrar endurskoðunar, með alvöru hagsmuni framtíðarkynslóða, sjálfbærni í réttum skilningi þess orðs og langtímasjónarmið að markmiði. Það er vægast sagt óásættanlegt að yngstu kynslóðir Íslendinga þurfi að berjast fyrir áheyrn víða um land, sérstaklega á svæðum þar sem virkjanaógn vofir yfir. Það er hrein og bein óvirðing við yngri og ófæddar kynslóðir landsins. Hér á landi hefur nóg verið virkjað, við þurfum einfaldlega að gera okkur núverandi raforkuöflun að góðu og verja öll óvirkjuð svæði til handa komandi kynslóðum. Ef við gerum það ekki verður okkar minnst sem græðgiskynslóðanna. Þau eftirmæli munu þó auðvitað ekki skipta nokkru máli miðað við eyðileggingu villtrar náttúru landsins sem við munum láta kynslóðum framtíðar í té. Þar ætti virðing okkar að liggja; alls ekki gagnvart rammaáætlun heldur gagnvart komandi kynslóðum.
Höfundur er jarðfræðingur, rithöfundur og stjórnarmaður í Hinu íslenska náttúrufræðifélagi og Hagþenki.