Snæbjörn Guðmundsson jarðfræðingur fjallar um rammaáætlun í grein 10. febrúar sem hann boðar að sé sú fyrsta í röð fjögurra greina á Kjarnanum.
Ég geri ráð fyrir að Snæbjörn hafi kastað út jólunum á þrettándanum eins og aðrir landsmenn en jólaerindi orkumálastjóra hefur hann geymt til þess að orna sér við á þorranum. Hann kýs reyndar að ávarpa undirritaðan sem fyrrverandi orkumálastjóra. Hvort sem þetta er einhvers konar barnaleg tilraun til smættunar eða merki um sterka óskhyggju læt ég liggja á milli hluta. Í greininni er rammaáætlun lýst sem einhvers konar samsæristilraun fjármagnseigenda og virkjanasinna til þess að koma aftan að sjálfskipuðum varðmönnum íslenskrar náttúru.
Ein af grunnstoðum greinarinnar er að forstjóri fyrirtækis á samkeppnismarkaði með raforku lýsir því yfir að ekki sé þörf á frekari rafmagnsframleiðslu. Samfélagið setur almennar reglur um kröfur til fyrirtækja og einstaklinga sem setja einstökum atvinnugreinum skorður sem í sumum tilfellum girða fyrir eða draga úr fjárfestingum. Þörfin fyrir vöru og þjónustu á markaði skilgreinist hins vegar í okkar þjóðfélagi af því hvort einhver er tilbúinn að greiða fyrir afurðirnar. Rafmagn er í þessum skilningi vara sem er framleidd ef öll skilyrði af hálfu samfélagsins eru uppfyllt og ef það er til kaupandi að henni og þar með þörf fyrir hendi. Hættan á að menn hefji stórfellda rafmagnsframleiðslu án þess að hafa kaupanda að raforkunni verður að teljast hverfandi. Við búum við markaðshagkerfi þar sem framleiðsla á vöru og þjónustu byggir á mögulegum viðskiptatækifærum sem á endanum ákvarðast af eftirspurn hins almenna borgara. Áætlunarbúskapur sem stjórnast af æðri markmiðum gæti virst einföld leið til þess að breyta heiminum til hins betra en hefur reynst afar erfiður í framkvæmd.
Greinarhöfundur boðar að hann ætli að færa rök fyrir því að til rammaáætlunar hafi verið stofnað til þess að auðvelda framkvæmd virkjanaáforma. Það er auðvitað rétt að ef ekki hefðu verið fyrirhugaðar nýjar virkjanaframkvæmdir í landinu hefði rammaáætlun verið með öllu óþörf. Með rammaáætlun var skilgreint vandað ferli sem gerði ráð fyrir ítarlegri greiningu mögulegra virkjunarkosta m.t.t. nýtingar eða verndar byggt á meginstoðum sjálfbærrar þróunar. Þetta var reyndar bara ein breyting af mörgum á lagaumhverfi stærri framkvæmda, sem allar miðuðu að því að undirbúa upplýsta ákvörðun um hugsanlegar framkvæmdir. Með lögum um mat á umhverfisáhrifum áætlana og framkvæmda var tryggð vönduð umfjöllun um áætlanir og fyrirhugaðar framkvæmdir. Með staðfestingu Árósasamkomulagsins var almenningi tryggð aðkoma að undirbúningi ákvarðana um nýjar framkvæmdir og með lögum um rammaáætlun var lögfest að friðlýsing eða nýting virkjanastaða þyrfti samþykki alþingis.
Vandi greinarhöfundar virðist vera sá að hann telur sig búa yfir hinni einu réttu nálgun þessara mála og treystir ekki þar til bærum lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum eins og alþingi og sveitarstjórnum til þess að taka réttar ákvarðanir í málinu þrátt fyrir að mál hafi verið vandlega reifuð og upplýst. Örlög rammaáætlunar hafa hins vegar orðið þau að í þriðja áfanga hefur umfjöllunin orðið of einhliða og gapið virðist afar stórt á milli álits sérfræðinganna og hinnar almennu skynsemisvitundar meðal þjóðarinnar og alþingismanna. Vonandi ber alþingi gæfa til að vinna úr þeirri stöðu á vorþinginu og losa um þá pattstöðu sem þetta hefur skapað en það mun að öllum líkindum hafa í för með sér töluverða endurskoðun á tillögum verkefnisstjórar.
Í greininni er fjallað ítarlega um það hver eyðileggingarmáttur væntanlegra loftslagsbreytinga mun verða fyrir náttúru Íslands. Greinarhöfundur forðast hins vegar að tengja möguleika til þess að nýta endurnýjanlegar og kolefnisfríar orkulindir við þróun loftslagsmála. Viðbrögð skoðanasystkina hans hafa yfirleitt verið að Ísland sé svo lítill hluti af heimsbyggðinni að það sem við gerum hér skipti ekki máli fyrir heildina. Vandinn er bara sá að um allan heim höfum við baráttuglaða hópa fólks sem hafa sett sér það markmið að vernda nærumhverfi sitt fyrir hvers konar breytingum á umhverfi og upplifun sem vinnsla endurnýjanlegrar orku getur haft í för með sér. Þegar ég kom út af jarðhitaráðstefnu í Offenburg í Þýskalandi fyrir nokkrum árum gekk ég fram á mótmælastöðu sem ég við fyrstu sýn hélt að beindist gegn nýjum kjarnorkuverum en þegar ég kom nær sá ég að þetta var hópur fólks sem virtist ætla að leggja allt í sölurnar til þess að koma í veg fyrir fyrirhugaða jarðhitanýtingu á svæðinu.
Loftslagsvandinn er vandi heimsbyggðarinnar, ekki bara Íslands. Þegar og ef við eftir miðja öldina verðum búin að ná markmiðum okkar um takmörkun hlýnunar á heimsvísu verðum við búin að nýta alla möguleika til orkusparnaðar, orkuskipta og kolefnislausrar orkuvinnslu sem völ er á. Við munum líka upplifa miklar breytingar á hagkerfum og framleiðsluferlum og það er ekki sjálfgefið að þau lönd sem nú búa við sterkan efnahag og góð lífskjör muni viðhalda forystu sinni í nýrri heimsmynd. Ísland hefur alla burði til þess að leggja mikið til baráttunnar gegn loftslagsvánni og skapa um leið nýja möguleika með grænni orkuvinnslu og orkutengdri starfsemi, möguleika sem standa nálægt okkur í tíma og geta verið mikilvægur þáttur í viðreisn efnahagslífsins eftir Covid og skapað ný atvinnutækifæri og aðstæður til nýsköpunar. Forsenda þess er að við finnum skynsamlegt jafnvægi milli nýtingar og verndar sem byggir á öllum meginstoðum sjálfbærrar þróunar og látum ekki stjórnast um of af einhliða málflutningi einsmálshreyfinga.
Við Íslendingar búum við lýðræði og markaðshagkerfi. Við búum almennt við góð lífskjör og viðhöldum sterkum innviðum sem undirstöðu almennrar heilbrigðisþjónustu, menntunar, félagslegs öryggis og fjölbreytts atvinnulífs. Til að viðhalda þessari stöðu þurfum við nú að þróa atvinnulíf okkar þannig að við tryggjum áframhaldandi hagvöxt og hámörkum jafnframt framlag okkar í baráttunni gegn hlýnun jarðar. Ekkert af þessu virðist falla vel að viðhorfum Snæbjörns greinarhöfundar og skoðanasystkina hans og virðist heldur á brattann að sækja, enda metur hann það greinilega svo að hann þurfi fjórar greinar til þess að undirbyggja sinn boðskap.
Höfundur er orkumálastjóri.