Eins og fram kemur í Kjarnanum 11. febrúar sl., er Landsvirkjun í umsögn sinni um þingsályktunartillögu 3. áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar ósátt við flokkun m.a. Búrfellslundar. Landsvirkjun vill að fyrirhugað vindorkuver verði fært úr biðflokki í orkunýtingarflokk og þykir þykir ljóst að við framkvæmd rammaáætlunar hafi verkefnastjórn á ýmsan máta ekki farið lögum, m.a. með því „að ganga framhjá valdsviði Orkustofnunar og ákvarða sjálf hvaða virkjunarkostir voru teknir til umfjöllunar.“ Undir þetta má taka með Landsvirkjun, en það er Búrfellslundur, sem ég vil gera að umtalsefni.
Forsenda þess að verkefnisstjórn fjalli um virkjunarkost er sú að kosturinn sé að mati Orkustofnunar nægilega skilgreindur. Brúfellslundur, sem Landsvirkjun lagði til sem vindorkukost og verkefnastjórn tók til umfjöllunar vegna 3. áfanga rammaáætlunar, nota bene, að ósk Landsvirkjunar, var ekki skilgreindur og metinn af Orkustofnun. Sama á við um Blöndulund sem lagt er til að fari í orkunýtingarflokk. Orkustofnun og fleiri aðilar töldu og telja enn að lög um verndar- og orkunýtingaráætlun gildi ekki um vindorku. Verkefnastjórninni væri því óheimilt að taka umrædda kosti til skoðunar og gera um þá tillögu. En Landsvirkjun vildi ekki „rugga bátnum,“ hnýtti sér hnút og óskaði þess að verkefnastjórnin fjallaði um Búrfellslund „vegna óvissu um túlkun laganna.“ Verkefnastjórnin ákvað í framhaldinu að taka virkjunarkostinn til skoðunar og raðaði honum í biðflokk, sem Landsvirkjun er nú ósátt við.
Hafði það verið vilji Alþingis að takmarka vindorkuorkunýtingu við tiltekin skilgreind landsvæði i rammaáætlun og um leið stjórnarskrárvarin rétt einstaklinga til að velja sér að búa til rafmagn úr vindorku í atvinnuskini á eignarlandi sínu og í samræmi við skipulag sveitarfélags, hefði þurft að tryggja jafna stöðu manna á skíran og ótvíræðan hátt, til að koma í veg fyrir hvers kyns mismunun með löggjöf sem stæðist stjórnskipunarlög. M.ö.o. lög um rammaáætlun þarf að hugsa upp á nýtt standi vilji til þess að vindorka falli þar undir með öllum þeim takmörkunum sem sveitarfélögum og borgurunum eru þá sett – sem engin þörf er á.
Skilyrði virkjunarleyfis samkvæmt raforkulögum er að virkjun sé í skipulagi sveitarfélags, að fyrir liggi mat á umhverfisáhrifum og tengisamningur við Landsnet. Fyrirhugaður Búrfellslundur er í skipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps, með nálæga tengingu við háspennulínur. Fyrir liggur mat á umhverfisáhrifum Búrfellslundar þar sem brugðist var við ábendingum Skipulagsstofnunar varðandi stærð vindorkuversins, uppsett afl þess var minnkað og vindmyllum fækkað. Það er því ekkert sem mælir gegn því að Landsvirkjun sæki um virkjunarleyfi vegna Búrfellslundar til Orkustofnunar, óháð rammaáætlun, enda uppfyllir verkefnið öll skilyrði raforkulaga fyrir slíku leyfi. Telji einhver slíka leyfisveitingu Orkustofnunar ólögmæta, vegna rammaáætlunar, mætti sá hinn sami láta á það reyna fyrir dómstólum. Það er ekki vandamál Landsvirkjunar. Landsvirkjun verður hins vegar að gera upp við sig hvort heldur hún vill lúta raforkulögum um Búrfellslund eða una ólögmætri málsmeðferð verkefnastjórnar um þann kost. Skilvirkast væri auðvitað fyrir Landsvirkjun að sækja um bara virkjunarleyfi fyrir Búrfellslund, höggva á hnút lagatúlkunar sé hann enn að þvælast fyrir mönnum þar á bæ.
Höfundur er lögfræðingur.