Það er svo mikið að gerast að ég veit ekki hvort ég gæti talað um einn sérstakan atburð. Þá er rökrétt að fara yfir hvers vegna hið alþjóðlega samfélag er að fara í vaskinn. Hvers vegna erum við orðin svona sundruð? Af hverju er samfélagslegur klofningur að aukast útum allan heim samtímis? Getum við ekki öll bara fengið okkur bröns saman og rætt málin?
Internetið er forsenda Arabíska vorsins, Hong Kong uppþotanna og BLM-hreyfingarinnar. Sömuleiðis er internetið forsenda þess að fólk trúir á flata jörð, QAnon og kenningar um að Dagur B. Eggertsson hafi keypt bílastæði frá Reykjavíkurborg. Fjölbreytileiki Internetsins hefur færst frá klígjukenndum bloggfærslum á MySpace yfir í efni sérsniðið að þörfum og skoðunum neytenda, sérvalið af algóritma sem vill halda notendum virkum sama hvað.
Landvættir nútímasamfélagsins eru Facebook, Youtube, Pornhub og Google, sem vernda ekki Ísland heldur hagsmuni fyrirtækjaeigenda. Facebook er drekinn, þar sem þú færð að spýta eldi og brennistein á smámenni án eftirsjár, Google er gammurinn sem fylgist með og svífur ætíð yfir þér, Youtube er nautið sem baular og hleypur úr einu yfir í annað í stefnulausu móki og Pornhub er bergrisinn, vel skeggjaður hellisbúi sem þorir ekki að sjá sólina eða tala við mannfólk.
Internetið snýst ekki lengur um að upplýsingar séu frjálsar öllum, heldur um að halda notendum innan þeirra eigin þægindaramma. Ef skoðanir andsnúnar hugsjónum notandans koma fram, t.d. að Borgarlínan sé góð, Stalín hafi verið fúlmenni eða jafnvel að sólin sé ekki ljósapera hönnuð af NASA eru notendur líklegir til þess að skrá sig út og valda þannig Netfyrirtæki Ehf. fjárhagslegum skaða.
Þar sem ég er ungur og óþroskaður trúi ég að fólk sé oftast gott. Fólk sem tilheyrir skúmaskotum samfélagsins reynir að upplýsa tilvist sína með öfgakenndum hugmyndum sem flokkast undir samsæriskenningar, því hefðbundnar útskýringar hafa brugðist þeim. Ef ég mætti umorða boðskap stórskáldsins og heimspekingsins Yoda: samfélagsmiðlanotkun eykur vanlíðan, vanlíðan eykur ótta, ótti eykur hatur og hatur leiðir til aukins gróða samfélagsmiðla.
Verum samt bjartsýn, því það er hægt að fyrirbyggja að fólk leiti sér svara í samsæriskenningum eða öfgahugmyndafræðum. Þetta er gert með því að hlusta betur á fólk sem finnst eins og rödd þeirra sé hunsuð, hvort sem það er öryrki eða grunnskólakrakki. Sigurinn er tvíþættur, því við náum líka að fyrirbyggja að fólk finni eðlumennina sem stjórna heiminum með örflögum undir klósettsetum.
Höfundur er nemi við Menntaskólann á Akureyri.