Staða brotaþola í íslensku samfélagi er mér ofarlega í huga en hún getur hvorki talist sanngjörn né réttlát í núverandi kerfi. Mörg dæmi eru um að brotaþoli hafi þurft að ganga í gegnum meingallað réttarvörslukerfi sem tekur í raun við keflinu af geranda og heldur áfram að brjóta á brotaþola sem brotinn er fyrir.
I Afleiðingar ofbeldis
Ofbeldi hefur bæði andlegar og líkamlegar afleiðingar fyrir þolanda og haldast afleiðingar brotanna á líkamskerfið í heild sinni í hendur sem leiða oft til áfallastreituröskunar. Langvarandi áfallastreituröskun getur verið lífshættuleg. Dæmi eru um að einstaklingur með áfallstreituröskun sé á stöðugu varðbergi, jafnvel í mörg ár, kippist til við minnstu hljóð og hreyfingar og sé ávallt viðbúinn árás. Líkaminn fer í „fight and flight mode“ í varnaðarskyni. Slíkt ástand getur valdið líkamlegum kvillum s.s., álagsháþrýstingi og miklu álagi á hjarta sem pumpar á óeðlilegum hraða.
Til viðbótar getur andleg vanlíðan verið lífshættuleg og margir sem vinna sig ekki úr áfallastreitunni nema með sértækri aðstoð s.s. EMDR áfallastreituröskunarmeðferð. Þá meðferð er þó ekki á færi allra að nýta sér þar sem hver tími kostar rúmar 18.000.kr.
Í ljósi þess að ofbeldi spyr hvorki um stétt né stöðu, ættu allir sem verða fyrir ofbeldisbroti að eiga kost á sértækri aðstoð til að vinna sig frá slíkum óskapnaði sem ofbeldi er, óháð efnahag. Til viðbótar viðtalsmeðferðum bætist við lyfjakostnaður, og eru mörg dæmi um að þolendur þurfi á þunglyndis-,svefn-,kvíða-, og hjartalyfjum að halda í kjölfar brota, jafnvel í mörg ár.
Bjarkarhlíð og Stígamót sinna viðtalsþjónustu við brotaþolendur. Sú þjónusta heldur brotaþola á floti meðan á málsmeðferð stendur, jafnvel í mörg ár þar sem málsmeðferðartími í ofbeldisbrotum getur verið mjög langur. Mörg dæmi eru um að þolandi geti illa unnið sig frá lífsreynslunni fyrr en málsmeðferð er endanlega lokið, það er því rétt hægt að ímynda sér álagið á þolendur þegar málsmeðferðartími dregst úr hófi fram.
II Ábyrgð réttarvörslukerfisins
Í stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu er kveðið á um að allir skuli eiga rétt á réttlátri málsmeðferð fyrir óháðum dómstólum, enda um mikilvæg mannréttindi að ræða. Þegar rétturinn til hefnda var tekinn af almúganum og færður til ákæruvalds var rannsakendum gert að vanda vel til verka, enda ábyrgðarmikið hlutverk og vald í honum fólginn.
En hvað gerist þegar rannsakendur brjóta gegn réttindum brotaþola, ekki er vandað til verka og kerfið fyrirgerir rétti brotaþola til að fá notið réttlátrar málsmeðferðar? Hvað gerist þegar mál fyrnast í rannsókn ákærusviðs með þeim afleiðingum að brotaþoli tapar rétti sínum til réttlátrar málsmeðferðar og ekki er hægt að ákæra í máli?
Svarið er einfalt, ekkert! Það hefur engar afleiðingar í för með sér fyrir ákæruvald þegar það brýtur gegn réttindum brotaþola.
Afleiðingarnar fyrir brotaþolann eru hins vegar miklar, hann situr eftir brotnari en hann var áður en hann kærði ofbeldið og missir allt traust á refsivörslukerfi sem átti að vanda til verka og vernda ákveðin grundvallarmannréttindi. Brotaþoli situr eftir og þarf sjálfur að bera kostnað vegna sértækrar aðstoðar í kjölfar áfalla og þarf jafnvel að greiða háan reikning fyrir lögfræðiþjónustu úr eigin vasa.
Það er ekki góð tilfinning að geta ekki treyst refsivörslukerfinu. Öll þurfum við að bera afleiðingar af gerðum okkar og ætti refsivörslukerfið ekki að vera þar undanskilið.
Þegar refsivörslukerfið bregst brotaþola verða gerendur tveir, upphaflegur gerandi og ákærusvið. Þegar refsivörslukerfið hefur brugðist brotaþola með þeim afleiðingum að réttlát málsmeðferð þeirra verður ekki tryggð, getur þá talist eðlilegt að brotaþoli fái ekki gjafsókn í einkamáli gegn geranda óháð efnahag, til að fá hluta af réttlátri málsmeðferð bætta? Telst eðlilegt að ríkið beri ekki hlutlæga skaðabótaskyldu þegar þessi mikilvægu mannréttindi eru brotin? Telst eðlilegt að það hafi engar afleiðingar í för með sér fyrir ákærusvið þegar það brýtur með saknæmum hætti á rétti brotaþola?
Ítrekuð brot refsivörslukerfisins virka eins og blaut tuska í andlit brotaþolenda. Tilfinningin sem situr eftir hjá brotaþola er vanvirðandi og niðurlægjandi. Brotaþolar treysta ekki refsivörslukerfinu, það verður að laga. Réttindi þeirra verður að tryggja þegar kerfið bregst þeim, svo þeir verði ekki einungis málsnúmer hjá rannsakendum.
Það myndi að öllum líkindum leiða til vandaðri rannsókna, óháð fjármagns-og mannekluvanda sem getur aldrei talist gild afsökun þegar mannréttindi eru brotin. Slæleg vinnubrögð refsivörslukerfisins verða að hafa afleiðingar í för með sér fyrir kerfið. Það myndi svo aftur leiða til aukins traust brotaþola á kerfinu.
Það vantar sárlega meiri þekkingu á afleiðingum ofbeldisbrota bæði hjá rannsakendum og dómstólum. Það má spyrja þeirra spurningar hvort þörf sé á sérdómstól í ofbeldisbrotum, þar sem eðli brotanna eru mjög persónuleg umfram önnur brot. Þá mætti einnig leggja meiri áherslu á réttarsálfræði sem ætti að vera skyldufag í grunnnámi í lögfræði.
III Kerfislegar breytingar eru nauðsynlegar
Þolandi sem kærir brot sitt á fyrir höndum seinfarna leið í gegnum réttarvörslukerfið, því fylgir álag á þolanda sem tekur af honum sinn toll, bæði andlega og líkamlega. Þá getur kostnaður fyrir brotaþola sem kærir ofbeldisbrot numið nokkrum hundruð þúsundum.
Það getur vart talist eðlilegt, réttlátt né sanngjarnt að brotaþoli sem verður fyrir refsiverðu ofbeldi beri þann kostnað. Það er því mikilvægt að ríki greiði fyrir þá meðferð sem brotaþola er nauðsynlegt að sækja sér, heilsu sinnar vegna.
Það er nauðsynlegt að tryggja betur rétt brotaþola til réttlátrar málsmeðferðar, gagnvart kerfislægum brotum rannsakenda, en líkt og að framan greinir er pottur víða brotinn.
Tryggja þarf brotaþola lagalegan rétt á aðild í máli. Einnig þarf að tryggja brotaþola skýra kæruheimild á rannsóknarstigi, telji brotaþoli/réttargæslulögmaður að verið sé að brjóta lögvarðan rétt í málsmeðferð. Sú kæruheimild helst í hendur við að tryggja rétt brotaþola um aðgengi að málsgögnum og gera honum kleift að fylgjast með máli sínu.
Hafi brotaþoli/réttargæslulögmaður ekki tök á að fylgast með framgangi máls, getur hann ekki vitað hvort verið er að brjóta á rétti hans til réttlátrar málsmeðferðar fyrr en það er orðið of seint. Þetta á t.d. við ef ekki hefur verið talað við vitni í máli, mikilvæg gögn ekki sótt eða sakarefni ekki kynnt sakborningi innan tímafrests, með þeim afleiðingum að ekki er hægt að ákæra í máli.
Þá er það markmið sakamálalaga að upplýsa mál og því afar mikilvægt að brotaþoli fái tækifæri til að sanna eða afsanna það sem fram kemur í skýrslu geranda á sama hátt og gerandi getur gert varðandi framburð brotaþola. Þetta getur skipt öllu til að komast að hinu sanna í máli.
Brot á rannsóknarstigi eru alltof mörg í þessum brotaflokki og því auðvelt að réttlæta nauðsyn þess að bæta rétt brotaþola. Þannig væri hægt að fyrirbyggja fyrningu brota með því að skerpa á verklagsreglum og yfirfara alla fyrningarfresti í máli um leið og skýrslutöku af brotaþola er lokið.
Einnig mætti breyta framkvæmd um kynningu á sakarefni til geranda með þeim hætti að birta honum sakarefni með svipuðum hætti og birting stefnu fer fram.
Framkvæmdin í dag er oft sú að reynt er að hringja í hinn kærða sem getur komist upp með að svara ekki í síma í marga mánuði. Þá heldur símtal ekki fyrir dómi þegar sakarefni er kynnt með þeim hætti. Dæmi eru einnig um að ekki náist í hinn kærða fyrr en fyrningarfrestur er liðinn, með þeim afleiðingum að ekki verður hægt að ákæra í máli.
Til að koma í veg fyrir að staða sem þessi komi upp mætti bæta við lagaákvæði um að sakarefni sé birt sakborningi um leið og mál er kært. Þá er nýr fyrningarfrestur skýr, bæði fyrir rannsakendum og brotaþola og fyrningarfrestur rofinn í máli.
Það stenst ekki skoðun að líkami brotaþola sé brotavettvangur og heilinn sé vitni í ofbeldismálum. Það er galið að skilja að hug og líkama og skilgreina brotaþola sem vitni.
Í ofbeldisbrotum er brotavettvangur líkami og hugur á sama tíma, því ætti brotaþoli að vera aðili máls enda hefur hann augljósra hagsmuna að gæta. Skilgreining læknavísinda er jú sú, að þegar hugur og líkami eru aðskilin að þá sé viðkomandi látinn.
Réttindi brotaþola í dag eru ekki mikið meiri en réttindi þriðja aðila, vitnis sem er aðilum jafnvel ótengdur. Hvernig fær þetta staðist?
Það er svo langt frá því að sömu hagsmunir séu í húfi fyrir brotaþola sem vitni og þriðja aðila sem vitni.
Brotaþoli sem kærir fær opinberan sækjanda og gerandi fær opinberan verjanda. Það ætti ekki að teljast tveir á móti einum, eins og margir fræðimenn halda fram. Einnig hefur komið upp sú staða að ákærusvið brjóti á rétti brotaþola og þá er staðan sú fyrir brotaþola að hann er einn gegn ákærusviði og geranda. Tveir gegn einum, það er þungur kross að bera.
Höfundur greinar er brotaþoli með lögfræðimenntun. Sem brotaþoli hefur höfundur gengið í gegnum hið meingallaða refsivörslukerfi. Kerfi sem braut með margvíslegum hætti á höfundi með þeim afleiðingum að réttur hans til réttlátrar málsmeðferðar var fyrir borð borinn, án nokkurra afleiðinga fyrir kerfið. Brotin koma ekki öll fram í grein þessari, upptalning þeirra allra mun bíða betri tíma.