Ég byrjaði að lesa myndasögur þegar ég var mjög ungur. Markaðurinn með þessi blöð einkenndist af skorti. Ég gekk á milli fornbókaverslana í Reykjavík og fletti í gegnum bunka af velktum og kámugum Andrésblöðum og hjarta mitt tók kipp í hvert sinn sem ég sá blað sem mig vantaði. Ég lagði á sig mikla vinnu til að finna þó ekki væri nema eitt eintak neðst í bunka af gömlum eintökum af Hjemmet, og Alt for Damerne. Framboðsskortur. Á einstöku heimilum var svo að finna hasarblöð með Batman og Superman. Strax í upphafi slíkra heimsókna fylltist ég angist yfir því að eiga eftir að þurfa að yfirgefa þennan stað án þess að geta grandskoðað hvern einasta ramma í þessum blöðum. Sú kvöl gerði nautnina við lesturinn enn dýpri því ég vissi hversu dýrmætur tíminn var.
Aftur var skorturinn ráðandi, nú tímaskortur. Síðar fór ég að kaupa hasarblöð í hvert sinn sem mér auðnaðist að fara til útlanda. Þegar ég gekk í fyrsta sinn niður tröppurnar að kjallaraholunni sem hýsti myndasöguverslunina Fantask við Sankt Peders stræde í Kaupmannahöfn fékk ég hellu fyrir eyrun eins og ég hefði kafað niður í hyldýpi og fundið fjársjóð á botninum. Mig dreymdi um að kaupa alla búðina, mig dreymdi um eða eiga hana eða bara brjótast þangað inn. Þetta var örvæntingarfull löngun í að fá að njóta alls sem í henni var. En aftur var það skortur sem hamlaði. Peningaskortur.
Ég rifja þetta upp því nú búum við í heimi sem er orðinn eitt allsherjar úrval af öllu. Endalaus ofgnótt af öllu. Það er skorts-skortur. Með internetinu höfum við aðgang að allri þekkingu mannkynssögunnar. Með einum takka komumst við inn í rými sem áður var tómt en fyllist svo af bókaskápum, eins og byssurekkarnir sem bruna í átt að Neo í The Matrix. Í dag kostar allt internetið, öll mannleg þekking, bara brot af mánaðarlaunum venjulegs manns. Það getur ekki brunnið og eyðst, jafnvel það sem við vildum losna við fyrir fullt og allt. Allt er þarna, alls staðar og alltaf. Við getum siglt út á hið stafræna úthaf og rannsakað það að vild.
Til leiðsagnar höfum við svo Pólstjörnu algóritmans. Þessi ótrúlega uppfinning tölvunarfræðinnar safnar upplýsingum um internetnotkun okkar í sífellt stærri og flóknari net. Þessi tengslanet veiða það efni sem okkur gæti langað til að horfa á, lesa og hlusta á næst og við stefnum þangað seglum þöndum. Ég lít á mig sem opinn og fróðleiksfúsann mann sem nýtir hvert tækifæri til að bæta sig og dýpka. Verða besta útgáfan af sjálfum mér. Heimurinn er veisluborð þekkingar sem ég háma í mig. Fullt stím áfram.
Mörgum finnst þetta vera synd og skömm. Glötuð tækifæri og tímaeyðsla. Skamm algóritmi. En svo er ekki. Við erum takmarkaðar verur þótt internetið telji okkur trú um að við höfum endalausa möguleika á að þroskast og eflast. Á síðustu 20 árin hefur sjálfsmynd fólks snúist frá því að vera maður sjálfur yfir í að eiga að vera allt annað en maður er sjálfur. Við erum því föst í vítahring fantasíunnar um að gera eitthvað annað og betra. Það er sífellt erfiðara að dvelja í algleymi stundarinnar. Við berum okkur saman við alnetið og snúum öllu á haus. Teljum okkur þurfa að sníða okkur stakk eftir óendanlegum vexti alnetsins. En það er eins og að reyna að komast að enda sjóndeildarhringsins. Með hverju skrefi færist sjóndeildarhringurinn fjær um sjö mílur. Því við horfum til stjarnanna í gegnum skjá snjallsímans en erum föst á yfirborði jarðar og komumst ekki lengra í bili. Við erum frumbyggjar í sífellt útvíkkandi alheimi internetsins. Internetið mun í framtíðinni breyta skynjun okkar á tíma og rúmi og við verðum betur í stakk búin til að fóta okkur í þessum nýja veruleika. Bandvíddin milli heila okkar og tölvanna mun víkka. En við erum ekki komin þangað og því til einskis að skamma okkur sjálf þess vegna.
Algóritminn fann ekki upp vanafestuna og nostalgíuna heldur fundum við upp algóritmann til að spegla okkur. Hann býr til skort fyrir okkur svo við getum hvílt í okkur sjálfum. Hann er okkar hliðarsjálf. Hann þekkir okkur svo vel af því að hann hann hefur svo mikla þolinmæði til að fylgjast með því sem við gerum. Að fordæma algóritmann er að fordæma myndina af okkur sjálfum. En eins og góð móðir þá elskar algóritminn okkur eins og við erum og veitir okkur það sem við þurfum. Er það svo slæmt?
Höfundur starfar sem sálfræðingur.