Nú eru nærri 3 vikur þar til skemmsti dagur ársins rennur upp. Rúmar 4 klukkustundir af dagsbirtu, það er allt og sumt. Nema það verði þungbúið veður, rigning eða snjókoma. Þá verður birtan enn minni.
Þess vegna er það mjög einkennilegt hve umferðarhraði í þéttbýli er enn mikill. Í núgildandi umferðarlögum er tilgreint að settur hámarkshraði á hverjum stað og tíma miðist ávallt við bestu aðstæður. Það er hins vegar hvergi skilgreint hversu mikið á að draga úr hraða þegar aðstæður eru ekki “bestar”. Og þetta atriði virðist vefjast fyrir mikið fyrir mörgum sem stýra þungum ökutækjum.
Í skammdeginu undanfarnar vikur hefur því borið mikið á slysum þar sem ekið er á óvarða vegfarendur, hvort sem er gangandi eða hjólandi. Auðvitað eru aðstæður alltaf mismunandi á milli tilvika og því alls ekki hægt að slá því föstu að orsökin fyrir slíkum slysum sé alltaf sú sama, þó þar kunni að vera einhverjir samnefnarar.
Það vekur því furðu margra, sérstaklega þeirra sem láta sig umferðaröryggi einhverju varða, hve lítið er gert af því að minna stærsta vegfarendahópinn á sinn hluta ábyrgðarinnar. Jafnvel þó það sé alveg rétt að allt of margir óvarðir vegfarendur hunsi þá möguleika sem þeir hafa til að auka sýnileika sinn í myrkrinu, er ekki hægt að horfa framhjá þeirri staðreynd að eini raunverulegi og áþreifanlegi samnefnarinn í flestum þeim slysum sem orðið hafa undanfarnar vikur, eru ökutækin. Hvort sem ökutækjunum er ekið of hratt, ekki farið nógu varlega við framúrakstur eða hvað sem er annað, er ábyrgð ökumannsins alltaf mjög mikil þegar kemur að slíkum slysum.
Margir þeirra sem vilja auka fjölbreytnina í samgöngumátum hafa velt því fyrir sér hvers vegna það gerist svo oft í umfjöllun um þau slys þar sem ekið er á óvarða vegfarendur að Lögregla, Samgöngustofa og aðrir aðilar sem að þessum málum koma, forðast það eins og heitan eldinn að minna ökumenn á sinn hluta ábyrgðarinnar. Flest hjólreiðafólk er meðvitað um gagnsemi endurskinsmerkja og skærlitaðra yfirhafna, enda er það óumdeilt að slíkur búnaður eykur umferðaröryggi. En ætti það ekki að vera jafn óumdeilt að þung ökutæki, sem ekið er of hratt miðað við aðstæður, valda mestum skaða og flestum örkumlum þeirra sem ekið er á? Er engin ástæða til að minna þá sem stýra slíkum tækjum á þeirra hluta ábyrgðarinnar.
Lögregla, Samgöngustofa og aðrir sem eiga að vinna að bættu umferðaröryggi mættu alveg fara einu sinni enn yfir sín innlegg í umræðuna undanfarnar vikur í tengslum við þau slys sem hafa gerst. Vonandi leiðir það til þess að skilaboðin um ábyrgð og leiðir til að fækka slysum nái í framtíðinni líka til ökumanna.
Höfundur er formaður Reiðhjólabænda.