Töfrateppi sem tekur þúsundir ára að vefa einungis nokkra sentimetra …
og býr til framtíðina fyrir komandi kynslóðir
Hljómar eins og ævintýri ... en er samt til!
Við gerum meira að segja kröfur um að þetta töfrateppi fæði okkur öll.
Matarpöntunin er: Fæði fyrir um 10 milljarða manna árið 2050, takk
Hjá nágrönnum okkar í Evrópu eru bæði slæmar og góðar fréttir varðandi þetta töfrateppi jarðvegs:
Slæmu fréttirnar eru slæmt ástand jarðvegs og vistkerfa
… Vítin eru til að varast þau …
Jarðvegur í Evrópu á undir högg að sækja. Þar er um 60 til 70% jarðvegs talinn óheilbrigður, sem þýðir að hann hefur ekki áframhaldandi getu til að viðhalda þjónustu vistkerfa. Um 70% landbúnaðarlands Evrópu er undir miklu álagi, fær of mikið af næringarefnum sem hefur neikvæð áhrif á vatnsgæði og líffræðilega fjölbreytni. Og í suður-, mið- og austur Evrópu ógnar eyðimerkurmyndun um 25% jarðvegs. Á hverju ári tapast milljarður tonna jarðvegs vegna rofs.
Af hverju .. vegna ósjálfbærrar landnotkunar, ofnýtingar og mengunar jarðvegs.
Af hverju ættu Evrópa að bregðast við?
Hingað til hefur engin samstaða verið um lagaramma jarðvegsverndar innan Evrópu. Ekki er til nein rammatilskipun sem tekur beint á málefnum tengd jarðvegi. Þó er til lagalegur grundvöllur fyrir verndun jarðvegs í grein 191 í sáttmála um starfshætti Evrópusambandsins (Treaty on the Functioning of the EU). Þar eru skýr ákvæði um að stefna sambandsins miði að því að varðveita, vernda og bæta gæði umhverfisins, vernda heilsu manna, nýta náttúruauðlindir skynsamlega, stuðla að aðgerðum á alþjóðlegum vettvangi til að takast á við svæðisbundin eða alþjóðleg umhverfisvandamál, og einkum baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Allt þetta eru atriði sem hafa þann samnefnara sem felst í að byggja upp og varðveita gott ástand jarðvegs.
Heilbrigður jarðvegur er uppistaðan í vef áskorana nútímans. Hann er lykillausn til að takast á við áskoranir að ná hlutleysi í loftslagsmálum, mynda þol gagnvart loftslagsbreytingum, þróa hringrásar-lágkolefna-lífhagkerfi, snúa við tapi á líffræðilegum fjölbreytileika, stöðva eyðimerkurmyndun og snúa við hnignun landgæða, veita hollan mat og vernda heilsu manna. Hvað er betra á köldum covid-vetri en að sjá ljósið fram undan?
Það er hagkvæmt að snúa þróuninni við
Fjárhagshliðin skiptir máli. Akurlendi og graslendi í Evrópu gefa af sér tekjur sem eru um 11.253 milljarða króna virði á hverju ári. Minna en 1/3 kemur til vegna ræktunar afurða eða uppskeru (3.071 milljarðar ISK), en 2/3 koma vegna þjónustu vistkerfa. Hnignun jarðvegsgæða veldur hins vegar tapi upp á 7.386 milljarða kr. árlega. Jarðvegsrof kostar Evrópulöndin því árlega um 184.650 milljarða króna eingöngu vegna taps á framleiðni í landbúnaði og tæpa 23 milljarða króna vegna taps á landsframleiðslu. Stórar tölur sem erfitt er að festa hendi á.
Verðmiðinn, eða kostnaður vegna aðgerðaleysis við rýrnun jarðvegsgæða, er um sexfaldur miðað við kostnaðinn sem felst í aðgerðum til jarðvegsverndar í Evrópu, til að vega upp tap jarðvegsgæða. Þar fyrir utan er síðan ávinningur sem ekki telst í peningum. Fjárfestingar til að stöðva og snúa við hnignun jarðvegs geta skilað stórum efnahagslegum ávinningi. Það er því hagkvæmt að fjárfesta í forvörnum og endurheimt jarðvegsgæða.
Góðu fréttirnar eru að nágrannar í Evrópu ætla að snúa þessari þróun við hjá sér. Þetta er söguleg viðhorfsbreyting.
Evrópulöndin hafa sett fram og samþykktu þann 17. nóvember síðastliðinn sína fyrstu áætlun um jarðvegsvernd á vettvangi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
„EU Soil Strategy for 2030 Reaping the benefits of healthy soils for people, food, nature and climate“
Framtíðarsýn Evrópu 2050 um gott ástand jarðvegs felst í því að breytingar verði gerðar á landnotkun og vernd og umsjón jarðvegs svo að:
- árið 2050 verði öll vistkerfi Evrópu í heilbrigðu ástandi og þannig betur búin að takast á við áföll.
- árið 2050 verði vernd, sjálfbær notkun lands og endurheimt jarðvegsgæða orðin sjálfsögð gæði og hversdagslegt hefðbundið ástand.
Ítarlegri markmið til 2030 eru sett fram varðandi endurheimt vistkerfa, hlutleysi landhnignunar, mengun jarðvegs, bætt vatnsgæði, kolefnisbindingu ásamt aðlögun og mótvægi gegn loftslagsbreytingum.
Að koma jarðvegsvernd upp á sama stig og nú þegar er til staðar fyrir loft, vatn og haf er stór áskorun. Til að ná árangri, er áætlunin sett fram til að þróa nýjar leiðir fyrir nauðsynlegar breytingar innan ríkja, innan vettvangs Evrópu og á heimsvísu.
Nýja jarðvegsáætlunin er stórt skref fram á við, og lykilatriði í öðrum áætlunum ESB m.a. stefnu um líffræðilegan fjölbreytileika fyrir árið 2030 og stuðlar að markmiðum Græna samkomulagsins í landbúnaðarstefnu þeirra.
Ég hvet ykkur til að lesa nánar um verndun Töfrateppisins- Framtíðarsýn Evrópu til 2030 og bakgrunnskjalið sem fylgir áætluninni. Efniviður ætlaður til undirbúnings löggjöf um jarðvegsvernd, EU Soil Health Law, sem verður lögð fram fyrir 2023.
Við eigum nefnilega okkar eigið teppi, sem enn á eftir að staga í og hlúa að. Það er sameign okkar allra og þar með sameiginleg ábyrgð okkar að fara vel með. Okkur vantar nýja liti til að þræða inn í okkar vef og undirbúa framtíðina, sem að sjálfsögðu verður að vera sjálfbær.
Höfundur er jarðfræðingur.