Stundum skilur maður ekkert. Haustið 2008 fór íslenskt efnahagskerfi á hliðina. Ástæðan var, fyrst og síðast, sú að íslenskir bankar höfðu fyllst af ódýru lánsfjármagni, vaxið ótæpilega og lánað afar ógætilega til aðila sem áttu ekkert með það að gera að fá hundruð milljarða króna að láni til að fróa ranghugmyndum sínum um yfirburðarmennsku.
Vegna þessa þurfti íslenska ríkið að setja fordæmalaus neyðarlög, gengið féll um tugi prósenta, atvinnuleysi stórjókst, eignaverð hrundi, gjaldeyrishöft voru sett, velferðarkerfi skorið niður og þeir peningar sem voru til fóru, ásamt innstæðum almennings, í að endurreisa bankakerfið með því að búa til nýja banka. Það þarf enda fjársýslandi banka, sem framleiða ekkert, til að halda raunveruleikanum gangandi, hvað svo sem sú staðreynd segir um það kerfi sem við höfum fest okkur í.
Kostnaðurinn vegna þessara aðgerða lenti á almenningi. Krónurnar í vasa hans urðu færri og þær urðu miklu minna virði. Þjónustan sem samneyslan borgaði fyrir varð lélegri og eignirnar sem almenningur átti rýrnuðu. Nú þegar vorar í efnahagslífinu, eftir að margháttaðar aðgerðir síðustu þriggja ríkisstjórna eru farnar að skila árangri, þá á almenningur kröfu á tvennt: að almannahagur verði í forgangi þegar auknum gæðum verður útdeilt og að við forðumst með öllum mögulegum ráðum að gera sömu mistökin aftur.
Með öðrum orðum: ekki fóðra skepnuna sem bar ábyrgð á hinum sjö mögru árum. Sé það gert er óumflýjanlegt að sagan endurtekur sig.
Með öðrum orðum: ekki fóðra skepnuna sem bar ábyrgð á hinum sjö mögru árum. Sé það gert er óumflýjanlegt að sagan endurtekur sig.
Margt vel gert, margt tóm steypa
Þótt margt hafi verið gert vel í endurreisn íslensks efnahagslífs, bæði af hendi stjórnvalda og fjármálafyrirtækjanna sem þau endurreistu, þá hefur margt líka verið tóm steypa.
Bankarnir hafa til að mynda hangið allt of lengi á allt of mörgum fyrirtækjum sem þeir fengu í fangið við stofnun. Þeir hafa passað upp á að öll stóru verkefni í eignaumsýslu, hvort sem það er vegna fjárfestinga sjóða, umsjón með útboðum eða annars því tengdu, lendi hjá þeim sjálfum og stuðli að uppistöðu þeirra tekna sem grunnrekstur þeirra skilar. Samt er grunnreksturinn dapur. Stór ástæða þess er sú að þrátt fyrir að stærð bankanna sé einungis brot af því sem hún var þá hefur starfsmönnum þeirra einungis fækkað um 22-23 prósent frá lokum árs 2007, samkvæmt nýlegri frétt Stöðvar 2.
Eitt það fyrsta sem bankarnir hófu að endurreisa voru kjör starfsmanna sinna. Það er merkilegt að sá geiri sem var endurreistur fyrir innstæður okkar almennings og fékk rúmlega 90 prósenta markaðshlutdeild sína í vöggugjöf, starfar á markaði sem er svo tryggður með gjaldeyrishöftum og ríkisábyrgð á innistæðum að hann líkist meira vernduðum vinnustað en samkeppnismarkaði, skuli vera sá sem hefur upplifað mest launaskrið allra eftir hrun (44,2 prósent milli 2010-2014).
Það er líka merkilegt að þessi geiri sé búinn að innleiða kaupaukakerfi (Íslandsbanki og Arion banki gjaldfærðu um 900 milljónir króna vegna þess í fyrra fyrir samtals um 200 starfsmenn) og hafi meira að segja þrýst á það með umsögnun til Alþingis að svigrúm þeirra til bónusgreiðslna verði margfaldað svo að samkeppnishæfni þeirra verði ekki hamlað. Þar eiga þeir við hæfni þeirra til að eiga í samkeppni við litlu íslensku fjármálafyrirtækin sem eru sameiginlega með undir tíu prósent markaðshlutdeild. Og fá engin stór verkefni vegna þess að stóru bankarnir skammta sjálfum sér þau.
Ríkið ákveður að gefa ríkisstarfsmönnum milljarða
Það einkennilegasta af öllu sem gerst hefur í bankamálum á Íslandi var þegar síðasta ríkisstjórn, fyrsta hreina vinstristjórnin sem kenndi sig við norræna velferð, ákvað árið 2009 að gefa starfsmönnum Landsbankans tveggja prósenta hlut í honum ef þeim tækist að rukka ákveðin lánasöfn, sem hétu Pegasus og Pony, í botn. Það tókst og starfsmennirnir fengu hlutinn, sem að öðrum kosti hefði runnið til íslenska ríkisins. Þ.e. almennings.
Eina skýringin sem gefin hefur verið á þessari fordæmalausu gjöf á ríkiseignum, sem á sér engar hliðstæður í öðrum hlutafélögum í eigum hins opinbera, var sú að þetta hafi verið gert að frumkvæði kröfuhafa. Kröfuhafar Landsbankans voru þar með farnir að móta eigendastefnu ríkisins á fjármálafyrirtæki. Og ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna sagði bara OK.
Kröfuhafar Landsbankans voru þar með farnir að móta eigendastefnu ríkisins á fjármálafyrirtæki. Og ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna sagði bara OK.
Vert er að taka fram að hluta eignar starfsmannanna verður haldið eftir til að gera upp skatta, gjöld og annan kostnað. Að teknu tilliti til þess er eignarhlutur starfsmanna um 0,8 prósent og virði hlutarins um tveir milljarðar króna. Starfsmennirnir fengu hins vegar samanlagt 144 milljónir greiddar í arð vegna ársins 2013 og tæplega 200 milljónir króna vegna ársins 2014. Miðað við þann hagnað sem hinn ríkisendurreisti rekstur Landsbankans er að skila munu arðgreiðslurnar halda áfram um ókomna framtíð. Og á einhverjum tímapunkti munu starfsmennirnir geta selt eignarhluti sína með miklum hagnaði. Hluti sem ríkið ákvað að gefa þeim, um 1.400 núverandi og fyrrverandi starfsmönnum Landsbankans, í stað þess að allir landsmenn myndu eiga þá.
Íslandsbankafólk vill líka
Nú er þessi galna aðgerð notuð sem rökstuðningur fyrir því að annað bankafólk eigi líka að fá meira. Morgunblaðið greindi frá því í vikunni að bankastjóri, framkvæmdastjóri og stjórnendur Íslandsbanka, sem íslenska ríkið á fimm prósent hlut í, hafi farið fram á kaupauka í tengslum við nauðasamninga Glitnis og mögulega sölu Íslandsbanka. Þeir vilja fá allt að eins prósenta hlut í bankanum samkvæmt fréttinni. Miðað við eigið fé Íslandsbanka er virði hlutarins um 1,8 milljarðar króna. Stóri munurinn hér og hjá Landsbankanum er sá að hjá Íslandsbanka er vilji til þess að allur hluturinn renni til þröngs hóps stjórnenda og stjórnarmanna í banka sem var endurreistur með handafli með innstæðum Íslendinga, ekki allra starfsmanna.
Í eftirfylgnisfrétt í Morgunblaðinu í dag segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, að því sé „ekki að neita að eftir að starfsmenn Landsbankans fengu hlut í bankanum árið 2009 hef ég reglulega verið spurð um það á starfsmannafundum hvort slíkt hið sama standi til hjá Íslandsbanka“.
Það á því að nota hina gölnu og illa ígrunduðu aðgerð stjórnvalda frá árinu 2009 sem röksemdarfærslu fyrir því að hrúga meiri fjármunum og áhrifum undir stjórnendur annarra fjármálafyrirtæka. Tveir mínusar eiga að gera einhverskonar plús. Fyrir einhvern.
Fóður fyrir skepnuunga
Það er vert að endurtaka það að íslenskt bankakerfi var endurreist með handafli með peningum ríkissjóðs og innstæðum almennings. Skaðinn sem það olli íslensku samfélagi með áhættusækni og vanhæfni sinni fyrir hrun er fordæmalaus í heimssögunni. Enn er í gildi 100 prósent ábyrgð íslenska ríkisins á innstæðum.
Bankakerfið hefur starfað í á sjöunda ár varið fyrir allri utanaðkomandi samkeppni með mjög þröngum höftum. Það hefur einnig verið varið fyrir allri innlendri samkeppni sökum þess að stóru bönkunum var falið að endurskipuleggja atvinnulífið, sem var meira og minna farið á höfuðið eftir hrunið. Þannig gátu þeir ráðið því hvar stærstu verkefni þeirrar endurskipulagningar lentu. Og fyrir algjöra tilviljun lentu þau nánast öll hjá þeim sjálfum.
Þrátt fyrir þessar óhrekjanlegu staðreyndir er sífellt verið að reyna að finna leiðir til að innleiða aftur hvata til aukinnar áhættusækni og fífldirfsku í fjármálageiranum með því að árangurstengja laun starfsmanna.
Þrátt fyrir þessar óhrekjanlegu staðreyndir er sífellt verið að reyna að finna leiðir til að innleiða aftur hvata til aukinnar áhættusækni og fífldirfsku í fjármálageiranum með því að árangurstengja laun starfsmanna. Slík árangurstenging á kannski við í fyrirtækjum, óháð geira, sem hafa byggst upp yfir lengri tíma og sannað sig, en er fjarstæðukennd hjá nýjum fyrirtækjum sem eru byggð upp á rústum eins stærsta gjaldþrots sögunnar og hafa starfað allan sinn líftíma í vernduðu umhverfi.
Allir þeir sem hafa lesið skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, fylgst með þeim málum sem embætti sérstaks saksóknara hefur rannsakað og ákært í, og bara fylgst með fréttum undanfarin ár, sjá að þessi tenging milli „árangurs“ banka og þeirra sem hjá honum störfuðu orsakaði margt af því allra versta sem ráðist var í á lokaspretti „gamla“ íslenska bankakerfisins þegar ljóst var þeim þrönga hópi að það var á leiðinni á hliðina.
Íslensku bankarnir hafa unnið mörg verk vel á undanförnum árum. Endurreisn íslensks atvinnulífs hefur tekist vegna þeirra. En það var verkefni sem þeir áttu að leysa. Tilvera bankanna byggði raunverulega á því og algjör óþarfi að umbuna sérstaklega fyrir það með milljarðagjöfum til einstaklinga.
Samt vilja bankastjórnendur nú finna fleiri leiðir til að moka meiri peningum til sín og sinna. Þeir vilja tengja sig fastari böndum við afkomu bankans og segja það sanngjarnan mælikvarða á vinnu þeirra fyrir umsýslu með peninga annarra. Þessir bankastjórnendur vita alveg að þeir eru að ofbjóða almenningi, með þessari hegðun, en þeim er bara alveg sama. Þeir vilja bara fóðra nýju sísvöngu skepnuna sem óx út úr dauða þeirra sem sprakk af drambi, græðgi og hroka haustið 2008.
Það að gera sama hlutinn aftur og vonast eftir annarri niðurstöðu er hins vegar ekki bara ófaglegt og illa ígrundað, það er beinlínis hættulegt.