Íslendingar kunna að lifa um efni fram. Við settum einhvers konar Evrópu- og Ólympíumet í því á árunum fyrir hrun þegar við prentuðum peninga af slíkum ofsa að magn þeirra í umferð fjórfaldaðist á fimm ára tímabili. Þessum viðbótarpeningum, sem urðu ekki til vegna þess að við bjuggum eitthvað til, heldur vegna þess að við gáfum út skuldabréf í íslenskum krónum með háum vöxtum sem gráðugir útlendingar gleyptu upp, eyddum við í allskonar dót. Við eyddum þeim í að byggja upp fasteignir (og bjuggum þar með til fasteignabólu), kaup á allskyns bílum (Norðurlandamet í Range Rover-eign - ekki miðað við höfðatölu - er enn í fersku minni), raftæki, vörur og svo framvegis.
Til að skýra hvernig Ísland var að haga sér má setja íslensku hagstjórnina í samhengi við heimilisbókhald. Grunnreglan þar er sú að þéna meira en þú eyðir og reyna eftir fremsta megni að leggja eitthvað til hliðar, til dæmis svo hægt sé að takast á við hið óvænta.
Við vorum ekki mikið að gera þetta. Á þriggja ára tímabili, frá lokum árs 2005 og út árið 2007, fluttu Íslendingar inn vörur fyrir 345 milljarða króna meira en þeir fengu fyrir þær vörur sem þeir seldu. Íslenska þjóðarbúið var því ekki nálægt því að vera sjálfbært.
Höft og handstýring
Þetta lánsfé er uppistaða þeirra himinháu peningastærða í eigu útlendinga sem nú sitja fastar hérlendis og vilja út. Þegar ljóst var að Íslendingar áttu ekki séns á að greiða til baka þúsundir milljarða króna sem fengnar höfðu verið að láni í erlendum gjaldmiðlum var gripið til gamalkunnra ráða: gengið fellt og höft sett á hagkerfið til að handstýra því.
Með því að fella gengið, lækka virði gjaldmiðilsins, var hægt að snúa við hinum neikvæða viðskiptajöfnuði á einu augabragði. Allt í einu var útflutningur okkar á fiski og orku, sem greitt er fyrir með erlendum gjaldeyri, miklu meira virði í íslenskum krónum. Vöruskiptajöfnuður varð jákvæður upp á fimmta hundrað milljarða króna á árunum 2009 og út árið 2013. Þessi viðsnúningur í heimilisbókhaldinu, er grunnurinn að þeirri efnahagslegu viðspyrnu sem Ísland hefur upplifað. Þar skiptir auðvitað mestu máli, fyrir utan gengisfellinguna, að sjávarútvegur hefur átt sín bestu ár frá upphafi á þessu skeiði, sérstaklega vegna þeirrar viðbótar sem makrílveiðar hafa verið. Samhliða mölluðu álverin á þrískiptum vöktum allan sólarhringinn fyrir ódýru orkuna sem þau hafa tryggt sér í nokkra áratugi og hirða þorra hagnaðarins sjálf af í gegnum þáttartekjur.
Til viðbótar má segja að þjóðarbúið hafi náð sér í arðbæra aukavinnu með ferðaþjónustunni. Hún reiknast ekki með í vöruskiptum, heldur þjónustuviðskiptum, en skilaði um 300 milljörðum króna í tekjur á árinu 2014 og er orðin stærsta stoðin undir íslenska hagkerfinu. Það er hins vegar áhyggjuefni að innflutningur á þjónustu eykst hraðar en útflutningur.
Óveðurský á lofti
Þessi mixtúra (gengisfelling, höft, makríll, orkusala, túristar) hefur gert það að verkum að við höfum upplifað vaxtaskeið á Íslandi. Utanaðkomandi þættir eins og fordæmalaust hrun olíuverðs og sú tilhneiging seðlabanka annarra landa að lána annað hvort með engum vöxtum eða neikvæðum til að gefa hagkerfum sínum start, hafa á sama tíma stuðlað að lágri verðbólgu, en hún hefur nú verið undir verðbólgumarkmiðum í sextán mánuði í röð. Sitjandi ríkisstjórn hefur líka náð að skila ríkissjóði með afgangi. Það er virðingarvert og nauðsynlegt, en það veldur líka áhyggjum að einskiptisliðir hafa skipt þar lykilmáli.
Nýjar tölur um vöruskiptajöfnuð fyrir árið 2014, sem birtar voru í síðustu viku, bera þess merki að við þurfum að fara að hafa enn meiri áhyggjur. Samkvæmt þeim hafa Íslendingar einungis flutt út vörur fyrir um fjórum milljörðum króna meira en árið áður. Og munum nú að vöruskiptajöfnuður var jákvæður upp á fimmta hundruð milljarða króna fyrstu árin eftir hrun.
Spár, meðal annars ný þjóðhagsspá Íslandsbanka, gera ráð fyrir því að vöxtur í útflutningi á vörum og þjónustu muni ekki halda í við vöxt innflutnings á næstu árum. Það þýðir, með öðrum orðum, að það styttist í að við eyðum meira í innfluttar vörur og þjónustu en við fáum fyrir þær vörur og þjónustu sem við flytjum út.
Eyðum okkur í gang
Einkaneysla, sem dreif áfram partýið fyrir hrun, er því samkvæmt öllum hagtölum að aukast. Lántökur heimila hjá innlánsstofnunum hafa til að mynda aukist úr 665 milljörðum króna í september 2011 í 870 milljarða króna í apríl síðastliðnum. Innlán heimila hafa hins vegar lækkað úr 789 milljörðum króna í apríl 2009 í 648 milljarða króna í sama mánuði 2015. Við erum að fá meira að láni og eyðum sparnaðinum okkar. Í hluti.
Á þessu bera einstaklingar og fyrirtæki auðvitað mikla ábyrgð. Þau kjósa að spara ekki peninganna sem þau fá til viðbótar á milli handanna heldur að eyða þeim jafnóðum. Lífsgæðakapphlaupið er tekið fram yfir skynsemina.
Við slíkar aðstæður ætti ríkisstjórn að reyna að bregðast við þenslu. Það hefur þó ekki gerst. Þvert á móti réðst hún til dæmis í fordæmalausar og tilviljanakenndar skuldaniðurfellingar sem kostuðu ríkissjóð tugi milljarða króna. Dómur Seðlabanka Íslands um þessa aðgerð, sem var birtur í Fjármálastöðugleikaskýrslu hans í fyrra, var eftirfarandi: „Skuldaniðurfærslan eykur hreinan auð heimilanna sem hefur áhrif til aukins útgjaldavilja og þar með talið einkaneyslu. Aukið veðrými mun í einhverjum tilfellum leiða til aukinnar lántöku heimila á móti niðurfellingunni“.
Með öðrum orðum hefur Seðlabankinn miklar áhyggjur af því að Íslendingar muni nota sér hækkandi húsnæðisverð til að fá lánaða peninga og kaupa sér hluti. Það eykur innflutning. Þetta vandamál er ekki að hverfa. Nýjasta spá greiningardeildar á þróun íbúðaverðs spáir að það muni hækka um 23 prósent að nafnvirði á næstu þremur árum. Það þýðir að til dæmis að 30 milljóna króna íbúð mun þá kosta 36,9 milljónir. Þessa viðbótarhækkun hafa margir tilhneigingu til að taka út, að minnsta kosti að hluta, og eyða í neyslu.
Með öðrum orðum hefur Seðlabankinn miklar áhyggjur af því að Íslendingar muni nota sér hækkandi húsnæðisverð til að fá lánaða peninga og kaupa sér hluti. Það eykur innflutning. Þetta vandamál er ekki að hverfa. Nýjasta spá greiningardeildar á þróun íbúðaverðs spáir að það muni hækka um 23 prósent að nafnvirði á næstu þremur árum. Það þýðir að til dæmis að 30 milljóna króna íbúð mun þá kosta 36,9 milljónir. Þessa viðbótarhækkun hafa margir tilhneigingu til að taka út, að minnsta kosti að hluta, og eyða í neyslu.
Ljóst er að bankarnir eru farnir að bregðast við þessu. Á fyrri hluta þessa árs er binding á þriggja ára föstum lánum sem þeir veittu snemma árs 2012, og markaði fyrstu alvöru endurkomu þeirra á íbúðalánamarkaðinn, að renna út og margir því að fara að endurfjármagna lán sín. Til að koma í veg fyrir að fólk taki of margar milljónir króna að láni hefur Landsbankinn til dæmis breytt lánareglum sínum á þann veg að nú er heildarlánsfjárhæð í endurfjármögnun miðuð við fasteignamat ef það er lægra en markaðsvirði, sem það er alltaf á höfuðborgarsvæðinu.
Tugprósenta launahækkanir
Í þessu ástandi er verið að semja um tugprósenta launahækkanir. Ríkið og sveitarfélög leiddu þá vegferð með því að hleypa nokkrum stéttum framfyrir röðina á síðasta ári og samþykkja að borga þeim slíkar hækkanir, meðal annars með þeim rökum að laun til að mynda lækna þyrftu að vera alþjóðlega samkeppnishæf.
Það er því vel hægt að skilja kröfur launaþegahreyfingarinnar, sem hefur borið þyngstu byrðarnar síðastliðin ár. Afleiðingarnar eru til að mynda þær að um helmingur íbúa landsins telur sig ekki hafa aðgang að húsnæði á góðu verði. Fjölmargir eru með grunntekjur undir framfærsluviðmiðum hins opinbera. Menntun er augljóslega ekki metin með sama hætti til launa og hún er í viðmiðunarlöndum. Helmingur þjóðarinnar á 750 þúsund krónur eða minna í eign og 30 prósent hennar á minna en ekkert. Þessi hluti þjóðarinnar upplifir að allt það góða sem eigi sér stað í efnahagslífi Íslands lendi annars staðar en hjá honum. Og hann hefur nokkuð til síns máls.
Helmingur þjóðarinnar á 750 þúsund krónur eða minna í eign og 30 prósent hennar á minna en ekkert. Þessi hluti þjóðarinnar upplifir að allt það góða sem eigi sér stað í efnahagslífi Íslands lendi annars staðar en hjá honum. Og hann hefur nokkuð til síns máls.
Ríkasta eitt prósent skattgreiðenda hérlendis á tæplega 23 prósent auðs landsmanna, mesta launaskriðið er í fjármálageiranum sem setti landið á hausinn, örfáar fjölskyldur hagnast um nokkra milljarða króna á ári vegna nýtingar á þjóðareign, fullt af eignafólki fékk milljónamillifærslur úr ríkissjóði undir því yfirskyni að verið væri að leiðrétta forsendubrest og verið er að innleiða háar bónusgreiðslur á nýjan leik. Svo fáein dæmi séu tekin.
Niðurstaðan = verðbólga
Tugprósenta launahækkanir skila hins vegar engu öðru en aukinni verðbólgu, hærri vöxtum og þverrandi kaupmætti. Við höfum einfaldlega ekki efni á þeim vegna þess að íslenskt samfélag framleiðir ekki nógu mikið til að standa undir slíkum hækkunum. Við verðum aftur farin að lifa um efni fram.
Allar spár eru þegar farnar að gera ráð fyrir þessari þróun. Einu tvær ákvarðanirnar sem sitjandi stjórnvöld hafa tekið á þessu kjörtímabili sem hafa áhrif á verðbólguþróun, skuldaniðurfellingin og tugprósenta hækkun launa opinberra starfsmanna, hafa haft hækkandi áhrif á hana. Stöðugleikinn og vöxturinn sem Ísland hefur upplifað undanfarin ár hefur þar af leiðandi átt sér stað þrátt fyrir ákvarðanir stjórnmálamanna, ekki vegna þeirra.
Hvað hefur ríkisstjórnin gert til að stuðla að hagvexti? Veiddi hún makrílinn? Laðaði hún að ferðamennina eða bjó til álið? Hefur hún lagt sitt af mörkum til að halda verðbólgunni viðvarandi í skefjum með ábyrgri stýringu fjármuna úr ríkissjóði og hóflegum launahækkunum?
Ég læt ykkur, sem þurfið að lifa við afleiðingarnar, um að svara því.