Með því að opna umræðu um ofbeldi, áreitni og einelti þá höfum við tækifæri til þess að læra, skilja og breyta samfélaginu til hins betra. Nú hefur opnast gluggi í umræðunni sem við þurfum að nýta okkur.
Ofbeldi, áreitni og einelti snýst í grunninn um það að einhver er ekki að virða mörk annarra. Auðvitað getur ofbeldi og áreitni verið mjög mismunandi gróft og mismunandi ásetningur þar að baki. Allt frá lítilsvirðandi athugasemdum yfir í nauðganir eða umsáturseinelti. Og birtingarmyndirnar geta verið alls konar. Samstarfsmaðurinn sem grefur undan vinnufélaganum með baktali eða lítilsvirðandi athugasemdum. Kærastinn sem suðar og beitir þrýstingi þar til hann fær já. Yfirmaðurinn sem kemst upp með að koma illa fram við undirmenn sína í krafti valdastöðu sinnar. Fjölskyldumeðlimurinn sem hótar að svipta sig lífi ef hann fær ekki sitt í gegn. Fyrrverandi makinn sem er orðinn umsáturseineltishrellir. Nauðgarinn sem nýtir sér áfengisdauða þolandans. Manneskjan sem notar líkamlega yfirburði sína til að beita kynferðislegu eða líkamlegu ofbeldi.
Þau sem beita ofbeldi eða virða ekki mörk annarra er fólk af margvíslegu tagi. Sum hafa upphafnar hugmyndir um eigið ágæti, önnur búa við innri vanmátt og vanlíðan. Sum upplifa að þau séu sjálf beitt órétti og önnur geta ekki tekist á við neitun eða höfnun. Margt getur komið til. Má þar nefna persónuleikaraskanir (s.s. narsísísk-, borderline-, eða andfélagslega persónuleikaröskun), ofbeldi, vanræksla eða ofdekur í æsku, áfallasaga, misnotkun áfengis, lyfja eða fíkniefna og taugaþroskaraskanir (s.s. ADHD). Oftast þarf fleira en eitt af þessu að koma til. Sérstaklega þegar um gróft ofbeldi er um að ræða. Við þetta bætist svo viðhorf og gildi samfélagsins á hverjum tíma og viðhorf í nánasta umhverfi gerandans. Ofbeldi snýst líka um valdaójafnvægi. Gerandi ofbeldis kemst upp með það í krafti valds, hvort sem það er tengt stöðu, áhrifum, sannfæringarkrafti eða líkamlegum yfirburðum.
Það sem við getum gert sem samfélag er að opna umræðu um ofbeldi og mörk í samskiptum. Koma okkur saman um hvað er eðlilegt, heilbrigt og ásættanlegt í samskiptum fólks. Við þurfum að standa alltaf með þolendum ofbeldis. Ofbeldi og yfirgangur í samskiptum er aldrei í lagi. Við þurfum að styðja og styrkja fólk í því að setja mörk í samskiptum. En stærsta verkefni okkar er að kenna fólki að virða mörk annarra. Skilaboðin þurfa að vera skýr. Þegar fólk beitir ofbeldi þá eru viðurlög og afleiðingar. Og þegar fólk fer yfir mörk annarra þá þarf það að fá skilaboð um að það sé ekki ásættanlegt.
Að virða mörk í samskiptum er risastórt málefni sem við öll þurfum að ræða, skilja, læra og kenna. Ég vona að núverandi umræða um ofbeldi og áreitni verði til þess að við eigum auðveldara með að tala um ofbeldi og mörk og markarleysi í samskiptum. Fyrsta skrefið er að taka málið á dagskrá og hlusta á reynslu fólks. Síðan þurfum við að læra, skilja og átta okkur á því að ofbeldi er alls konar. Að lokum þurfum við að hafa viljann til að breyta og leggja okkar að mörkum til þess. Þetta málefni kemur okkur öllum við.
Höfundur er félagsráðgjafi.