Nú hefur verið staðfest að Mjólkursamsalan (MS), sem er ríkisvarið einokunarfyrirtæki á íslenskum neytendamarkaði, hafi notað yfirburðarstöðu sína til að reyna að keyra samkeppnisaðila sinn, Mjólku, í þrot. Þetta var gert með því að selja Mjólku hrámjólk á 17 prósent hærra verði en fyrirtæki sem tengd voru MS þurftu að greiða, en hrjámjólk er grundvallarhráefni til vinnslu mjólkurafurða.
Ólafur M. Magnússon, fyrrverandi eigandi Mjólku, neyddist til að selja fyrirtækið til Kaupfélags Skagfirðinga vegna þessa, en Kaupfélagið á líka tíu prósent í MS. Til að bíta höfuðið af skömminni endurgreiddi MS Mjólku hina aukna álagningu eftir að fyrirtækið var komið í „réttar hendur“ herranna í Skagafirði.
Fyrir þetta samkeppnisníðingsverk, að misnota markaðsráðandi stöðu sína, þarf MS að borga ríkinu 370 milljónir króna í sekt. Sú tala þynnist síðan örugglega út í áfrýjunarferli og lokaniðurstöðunni verður á endanum ýtt út í verðlagið þannig að neytendur verða látnir borga fyrir varðstöðuna um einokun, sem bitnar fyrst og síðast á þeim sjálfum. Enginn mun verða látinn fjúka. Enginn mun bera ábyrgð á þessum blygðunarlausu afbrotum gegn samkeppni, neytendum og almennu velsæmi.
Kerfið er í boði okkar
Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem MS verður uppvíst að því að misnota markaðsráðandi stöðu sína. Í lok árs í fyrra var ekki til nægilegt magn af smjöri í landinu til að anna jólaeftirspurninni. Fyrst óskuðu Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði, sem sjá MS fyrir hráefni, eftir auknum tollfrjálsum kvóta til að mæta þeim skorti. Sú umsókn var dregin til baka tveimur dögum síðar og MS ákvað frekar að greiða tolla og gjöld fyrir írska smjörið sem fyrirtækið flutti inn. Ástæðan var sú að ef MS sækir um aukinn tollfrjálsan kvóta, vegna þess að einokunarfyrirtækið getur ekki annað eftirspurn, þá mega aðrir innflutningsaðilar, til dæmis stórar matvörukeðjur, líka gera það. MS ákvað því frekar að borga 50 milljónir króna í tolla og gjöld, sem fyrirtækið þurfti ekki að borga, bara svo enginn annar gæti flutt inn mjólkurafurðir.
Nánast öll mjólk sem er framleidd á Íslandi fer til MS. Íslenska ríkið mun borga 6,5 milljarða króna á þessu ári og 6,6 milljarða króna á því næsta í styrki til að viðhalda þessu kerfi. Greiðslur af þessu kaliberi hafa tíðkast árum saman. Það er í alvörunni þannig að þetta fyrirtæki, og þetta fyrirkomulag, fær að að þrífast, ekki bara í skjóli stjórnarherranna, heldur niðurgreiða þeir það beinleiðis með skattpeningunum okkar.
Samkeppnisbrot hluti af íslenskri tilveru
Það er þyngra en tárum tekur hvað ólögmætt samráð, misnotkun á markaðsráðandi stöðu og í kjölfarið ábyrgðarleysi allra sem að málunum koma er landlægt í íslensku samfélagi. Á mínum fullorðinsárum hef ég upplifað samráð á byggingavörumarkaði (sem hækkar byggingarkostnað og þar af leiðandi íbúðarverð), kortasamráð (sem hækkar álögur sem neytendur greiða fyrir að fá að eyða peningum með kreditkortum), olíusamráð (sem drap samkeppni í bensínsölu um ókomna tíð) og grænmetissamráð (sem hækkaði verð til neytenda).
Ég hef líka upplifað misnotkun á markaðsráðandi stöðu í fjarskiptageiranum (Skipti/Síminn hafa greitt nokkur hundruð milljónir í sekt fyrir alls konar brot gegn samkeppnisaðilum sínum), í smásölu (Högum var gert að greiða 315 milljónir fyrir að selja mjólk á eina krónu til að láta keppinauta hrökklast af markaði), í gosdrykkjasölu (Vífilfelli var gert að greiða 260 milljónir í sekt með því að skikka viðskiptavini sína til að versla bara við sig) og á lyfjamarkaði (Lyf og Heilsa reyndi að ýta keppinauti af markaði á Akranesi og þurfti að borga 100 milljónir fyrir). Þessi upptalning er eftir minni og alls ekki tæmandi.
Þess utan þekki ég auðvitað vel á eigin skinni hvernig markaðsráðandi aðilar á fjölmiðlamarkaði komast upp með að gera samninga við stærstu auglýsendur landsins um einkakaup, tryggðarafslætti, skaðlega undirverðlagningu og samtvinnun á ólíkri þjónustu eða vöru með þeim afleiðingum að brauðmolunum sem hinir, sem hafa ekki getað látið lána sér fullt af milljörðum króna til að byggja upp markaðshlutdeild sem síðan er skilin eftir á annarri kennitölu, fækkar og verða bragðminni. Ég þekki það líka að hvorki samkeppnisyfirvöld né stjórnvöld hafa séð nokkra ástæðu til að grípa í taumanna á þeim markaði þótt þessir gerningar og þessi staða sé viðurkennd og blasi við öllum.
Kerfi sem er til fyrir sig sjálft
Þá eru ótalin þau fjölmörgu skipti sem yfirskuldsett markaðsráðandi fyrirtæki verða gjaldþrota en fá ekki að fara á hausinn heldur er haldið gangandi lifandi dauðum þar til markaðurinn hefur aftur aðlagað sig að stærð þeirra. Það gerist annaðhvort með uppgripi í efnahagslífinu eða með því að alla litlu samkeppnisaðilana þrýtur úthald og þeir fara á hausinn.
Samkeppniseftirlitið má alveg eiga að það rannsakar og upplýsir um mörg þessara brota og leggur á fyrirtækin sem fremja þau sektir. En því miður hefur það í flestum tilfellum engar varanlegar afleiðingar. Við sitjum enn uppi með samfélag fullt af samkeppnisleysi og samkeppnishindrunum. Neytendur, sem erum við öll, eru alltaf settir í síðasta sætið.
Um þetta virðist ríkja samtrygging á meðal hluta ráðandi afla í stjórnmálum og viðskiptum, því miður. Þessir aðilar eru á spenanum hjá hvor öðrum. Ýmsir stjórnmálamenn eiga allt sitt undir einokunarkörlum og einokunarkarlarnir eiga tilveru sína að þakka verndarvæng stjórnmálamannanna.
Kerfið er til fyrir sig sjálft og á kostnað allra hinna. Og það er ekki að fara að breytast af sjálfsdáðum.