Auglýsing

Nú hefur verið stað­fest að Mjólk­ur­sam­salan (MS), sem er rík­is­varið ein­ok­un­ar­fyr­ir­tæki á íslenskum neyt­enda­mark­aði, hafi notað yfir­burð­ar­stöðu sína til að reyna að keyra sam­keppn­is­að­ila sinn, Mjólku, í þrot. Þetta var gert með því að selja Mjólku hrá­mjólk á 17 pró­sent hærra verði en fyr­ir­tæki sem tengd voru MS þurftu að greiða, en hrjá­mjólk er grund­vall­ar­hrá­efni til vinnslu mjólk­ur­af­urða.

Ólafur M. Magn­ús­son, fyrr­ver­andi eig­andi Mjólku, neydd­ist til að selja fyr­ir­tækið til Kaup­fé­lags Skag­firð­inga vegna þessa, en Kaup­fé­lagið á líka tíu pró­sent í MS. Til að bíta höf­uðið af skömminni end­ur­greiddi MS Mjólku hina aukna álagn­ingu eftir að fyr­ir­tækið var komið í „réttar ­hend­ur“ herr­anna í Skaga­firði.

Fyrir þetta sam­keppn­isníð­ings­verk, að mis­nota mark­aðs­ráð­andi stöðu sína, þarf MS að borga rík­inu 370 millj­ónir króna í sekt. Sú tala þynn­ist síðan örugg­lega út í áfrýj­un­ar­ferli og loka­nið­ur­stöð­unni verður á end­anum ýtt út í verð­lagið þannig að neyt­endur verða látnir borga fyrir varð­stöð­una um ein­ok­un, sem bitnar fyrst og síð­ast á þeim sjálf­um. Eng­inn mun verða lát­inn fjúka. Eng­inn mun bera ábyrgð á þessum blygð­un­ar­lausu afbrotum gegn sam­keppni, neyt­endum og almennu vel­sæmi.

Auglýsing

Kerfið er í boði okkarÞetta er í annað sinn á skömmum tíma sem MS verður upp­víst að því að mis­nota mark­aðs­ráð­andi stöðu sína. Í lok árs í fyrra var ekki til nægi­legt magn af smjöri í land­inu til að anna jóla­eft­ir­spurn­inni. Fyrst ósk­uðu Sam­tök afurða­stöðva í mjólkur­iðn­aði, sem sjá MS fyrir hrá­efni, eftir auknum toll­frjálsum kvóta til að mæta þeim skorti. Sú umsókn var dregin til baka tveimur dögum síðar og MS ákvað frekar að greiða tolla og gjöld fyrir írska smjörið sem fyr­ir­tækið flutti inn. Ástæðan var sú að ef MS sækir um auk­inn toll­frjálsan kvóta, vegna þess að ­ein­ok­un­ar­fyr­ir­tækið getur ekki annað eft­ir­spurn, þá mega aðrir inn­flutn­ings­að­il­ar, til dæmis stórar mat­vöru­keðj­ur, líka gera það. MS ákvað því frekar að borga 50 millj­ónir króna í tolla og gjöld, sem fyr­ir­tækið þurfti ekki að borga, bara svo eng­inn annar gæti flutt inn mjólk­ur­af­urð­ir.

Nán­ast öll mjólk sem er fram­leidd á Íslandi fer til MS. Íslenska ríkið mun borga 6,5 millj­arða króna á þessu ári og 6,6 millj­arða króna á því næsta í styrki til að við­halda þessu kerfi. Greiðslur af þessu kali­beri hafa tíðkast árum sam­an. Það er í alvör­unni þannig að þetta fyr­ir­tæki, og þetta fyr­ir­komu­lag, fær að að þríf­ast, ekki bara í skjóli stjórn­ar­herranna, heldur nið­ur­greiða þeir það bein­leiðis með skatt­pen­ing­unum okk­ar.

Sam­keppn­is­brot hluti af íslenskri til­veruÞað er þyngra en tárum tekur hvað ólög­mætt sam­ráð, mis­notkun á mark­aðs­ráð­andi stöðu og í kjöl­farið ábyrgð­ar­leysi allra sem að mál­unum koma er land­lægt í íslensku sam­fé­lagi. Á mínum full­orð­ins­árum hef ég upp­lifað sam­ráð á bygg­inga­vöru­mark­aði (sem hækkar bygg­ing­ar­kostnað og þar af leið­andi íbúð­ar­verð), korta­sam­ráð (sem hækkar álögur sem neyt­endur greiða fyrir að fá að eyða pen­ingum með kredit­kort­u­m), olíu­sam­ráð (sem drap sam­keppni í bens­ín­sölu um ókomna tíð) og græn­met­is­sam­ráð (sem hækk­aði verð til neyt­enda).

Ég hef líka upp­lifað mis­notkun á mark­aðs­ráð­andi stöðu í fjar­skipta­geir­anum (Skipt­i/Sím­inn hafa greitt nokkur hund­ruð millj­ónir í sekt fyrir alls konar brot gegn sam­keppn­is­að­ilum sín­um), í smá­sölu (Högum var gert að greiða 315 millj­ónir fyrir að selja mjólk á eina krónu til að láta keppi­nauta hrökkl­ast af mark­að­i), í gos­drykkja­sölu (Víf­il­felli var gert að greiða 260 millj­ónir í sekt með því að skikka við­skipta­vini sína til að versla bara við sig) og á lyfja­mark­aði (Lyf og Heilsa reyndi að ýta keppi­nauti af mark­aði á Akra­nesi og þurfti að borga 100 millj­ónir fyr­ir). Þessi upp­taln­ing er eftir minni og alls ekki tæm­andi.

Þess utan þekki ég auð­vitað vel á eigin skinni hvernig mark­aðs­ráð­andi aðilar á fjöl­miðla­mark­aði kom­ast upp með að gera samn­inga við stærstu aug­lýsendur lands­ins um einka­kaup, tryggð­ar­af­slætti, skað­lega und­ir­verð­lagn­ingu og sam­tvinnun á ólíkri þjón­ustu eða vöru með þeim afleið­ingum að brauð­mol­unum sem hin­ir, sem hafa ekki getað látið lána sér fullt af millj­örðum króna til að byggja upp mark­aðs­hlut­deild sem síðan er skilin eftir á annarri kenni­tölu, fækkar og verða bragð­minni. Ég þekki það líka að hvorki sam­keppn­is­yf­ir­völd né stjórn­völd hafa séð nokkra ástæðu til að grípa í taumanna á þeim mark­aði þótt þessir gern­ingar og þessi staða sé við­ur­kennd og blasi við öll­um.

Kerfi sem er til fyrir sig sjálftÞá eru ótalin þau fjöl­mörgu skipti sem yfir­skuld­sett ­mark­aðs­ráð­andi fyr­ir­tæki verða gjald­þrota en fá ekki að fara á haus­inn heldur er haldið gang­andi lif­andi dauðum þar til mark­að­ur­inn hefur aftur aðlagað sig að stærð þeirra. Það ger­ist ann­að­hvort með upp­gripi í efna­hags­líf­inu eða með því að alla litlu sam­keppn­is­að­il­ana þrýtur úthald og þeir fara á haus­inn.

Sam­keppn­is­eft­ir­litið má alveg eiga að það rann­sakar og upp­lýsir um mörg þess­ara brota og leggur á fyr­ir­tækin sem fremja þau sekt­ir. En því miður hefur það í flestum ­til­fellum engar var­an­legar afleið­ing­ar. Við sitjum enn uppi með sam­fé­lag fullt af sam­keppn­is­leysi og sam­keppn­is­hindr­un­um. Neyt­end­ur, sem erum við öll, eru alltaf settir í síð­asta sæt­ið.

Um þetta virð­ist ríkja sam­trygg­ing á meðal hluta ráð­andi afla í stjórn­málum og við­skipt­um, því mið­ur. Þessir aðilar eru á spen­anum hjá hvor öðr­um. Ýmsir stjórn­mála­menn eiga allt sitt undir ein­ok­un­ar­körlum og ein­ok­un­ar­k­ar­l­arnir eiga til­veru sína að þakka vernd­ar­væng stjórn­mála­mann­anna.

Kerfið er til fyrir sig sjálft og á kostnað allra hinna. Og það er ekki að fara að breyt­ast af sjálfs­dáð­um.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Hugleikur Dagsson.
Lífið á tímum kórónuveirunnar: Blóðug María daglega og rétti tíminn til að þykjast vera álfur
Listamaðurinn fjölhæfi, Hugleikur Dagsson, ráðleggur fólki að gera eitthvað skapandi og hlusta á kvikmyndatónlist á meðan. Þá verði allt epískara. Hugleikur gefur lesendum Kjarnans nokkur góð ráð til að njóta tilverunnar þessa dagana.
Kjarninn 28. mars 2020
Sema Erla Serdar
Erum við nokkuð að gleyma einhverjum?
Kjarninn 28. mars 2020
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn
Vonbrigði með brot á samkomubanni síðasta sólarhring
Staðfest smit eru nú orðin 963 hér á landi en 79 nýir einstaklingar greindust með smit í gær. Enn er ekki um veldisvöxt að ræða sem er mjög jákvætt. Aftur á móti varð yfirlögregluþjónn fyrir vonbrigðum með brot á samkomubanni en það er talið bera árangur.
Kjarninn 28. mars 2020
Logi Einarsson
Styðjum fleiri en þá stóru
Kjarninn 28. mars 2020
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna: Nú gefst tækifæri til að leiðrétta „mistökin“
Formaður Eflingar leggur til að allir þeir milljarðar sem greiddir hafa verið í arð til eigenda fyrirtækja á síðustu árum verði gerðir upptækir af ríkinu og notaðir til að fjármagna íslenskt samfélag.
Kjarninn 28. mars 2020
Telja hagsmuni eldri borgara landsins hunsaða
Stjórn Landssambands eldri borgara skorar á sveitarfélög og ríki að gera betur við eldri borgara landsins í COVID-19 faraldri.
Kjarninn 28. mars 2020
Eiríkur Ragnarsson
Það er karlmannlegt að haga sér eins og kona
Kjarninn 28. mars 2020
Þórður Snær Júlíusson
Skammist ykkar
Kjarninn 28. mars 2020
Meira úr sama flokkiLeiðari
None