Undanfarin þrjú ár hefur hópur sem kallar sig SALEK-hópinn unnið að því að „innleiða bætt vinnubrögð við gerð kjarasamninga“. Þótt nafn hópsins hljómi meira eins og nafn á stjörnubraut í geimfantasíu eru þeir aðilar sem eiga aðild að hópnum öllum kunnir. Skammstöfunin stendur fyrir Samstarfsnefnd um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga. Í hópnum sitja síðan allir helstu viðsemjendur á almennum og opinberum vinnumarkaði, bæði atvinnurekendur og fulltrúar launþega.
Í einföldu máli var tilgangur hópsins sá að láta launahækkanir sem samið var um í kjarasamningum vera sjálfbærar. Þ.e. að hinu svokallaða höfrungahlaupi, þar sem fyrsta hópi í kjarasamningaviðræðum er veitt tugprósenta launahækkun og allir viðmiðunarhópar fara fram á það sama í kjölfarið, yrði hætt. Þess í stað átti að vera innstæða fyrir hóflegum launahækkunum og áhersla í kjarasamningum yrði einnig lögð á að halda niðri verðbólgu, aftur af vöxtum og forðast gengisfellingar til að stilla af partýið. Þetta átti að auka kaupmátt. Auka virði krónanna í vasa launafólks í stað þess að fjölga þar sífellt verðminni krónum. Ná stöðugleika.
Það átti að hætta að pissa í skóinn.
Skammvin gleði
Í anda þessarrar aðferðafræði, sem allir sjá að er skynsamleg og samfélaginu til bóta, var samið milli aðildarfélaga ASÍ og Samtaka Atvinnulífsins til eins árs í árslok 2013 og við aðra hópa í febrúar 2014. Þar var almenn hækkun fyrir aðra en þá sem fá greitt samkvæmt töxtum 2,8 prósent. Tilgangurinn var sá að gefa samningsaðilum eitt ár til að undirbúa gerð langtímasamnings. Í tilkynningu vegna þessa sagði að markmiðið væri „að tryggja stöðugleika í íslensku efnahagslífi og kaupmáttaraukningu til framtíðar“. Til að byrja með gekk þetta vel, og kaupmáttur jókst um 5,3 prósent frá janúar 2014 og fram til loka sama mánaðar ári síðar.
Líkt og allir vita var sú gleði skammvin. Til þess að hún gæti lifað þurftu stjórnendur fyrirtækja meðal annars að sýna fordæmi og láta sín laun fylgja sömu hækkunum og aðrir í samfélaginu fengu. Það gerðu þeir ekki og þegar tekjublað Frjálsrar verslunar kom út sumarið 2014 varð bókstaflega allt vitlaust. Þar kom fram að laun margra stjórnenda hefðu hækkað langt umfram aðra í samfélaginu. Þeir höfðu ákveðið að „leiðrétta“ launin sín eftir að hafa tekið á sig lækkanir í kjölfar hrunsins. Þetta var sérstaklega sýnilegt í fjármálageiranum.
Kjarasamningagerð á árinu 2014 var heldur ekki í takti við það sem lagt var upp með. Með góðan vilja að vopni átti að fara að leiðrétta laun valinna hópa sem töldu sig hafa dregist aftur úr. Það átti að hleypa þeim fram fyrir röðina og „leiðrétta“ laun þeirra. Samið var við kennara og leikskólakennara um miklar hækkanir. Þar voru allt aðrar stærðargráður en forsendur kjarasamninganna í lok árs 2013 miðuðu við.
Og þar með voru forsendur stöðugleikasáttmálans brostnar.
Þaulhugsuð flétta lækna gekk fullkomlega upp
Það sem setti síðan allt af stað voru samningar við lækna, sem undirritaðir voru 7. janúar 2015. Læknar höfðu þá rekið mjög árangursríka kjarabaráttu, með verkföllum og sífelldum lekafréttum um neyðarástand í heilbrigðiskerfinu, sem stýrt var af þekktum og reynslumiklum almannatengli.
Á endanum gáfust stjórnvöld upp og skrifuðu undir, en tóku sérstaklega fram að þessar miklu hækkanir gæfu ekki fordæmi. Ekki frekar en miklar hækkanir kennara. Það kom meðal annars fram í grein eftir Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í Morgunblaðinu 20. febrúar síðastliðinn.
En ráðamenn geta ekki sagt starfstéttum hvað þær eigi og megi miða við. Og hvernig ráðamenn ætluðust til þess að hjúkrunarfræðingar, geislafræðingar, sjúkraliðar og allir hinir sem vinna með læknunum, og þénuðu fyrir miklu minna en þeir, myndu sætt sig við þetta er flestum hulin ráðgáta. Enda varð það raunin að þessir hópar litu allir til samninga lækna þegar þeir lögðu fram sína kröfugerð.
Hópar sætta sig ekki við að vera skildir eftir
Svo hófst höfrungahlaupið og eftir súpu verkfalla - sem höfðu margvísleg áhrif á samfélagið - er annað hvort búið að semja við flesta hópa um mjög háar launahækkanir eða gerðardómur hefur tryggt þeim þær, meðal annars með vísun í hækkanir annarra.
Nú standa nánast einungis eftir starfsmenn sýslumannsembætta, tollstjóra, háskólans, landspítalans, fangaverðir, sjúkraliðar, lögreglumenn og fleiri ríkisstarfsmenn. Uppúr samningsviðræðum þessarra aðila og ríkisins slitnaði í gær og í tilkynningu frá stéttarfélögum þeirra sagði að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra hefði lagt þá línu að ekki ætti að semja við þá. „Þessi skilaboð frá fjármálaráðherra verða ekki skilin á annan hátt en að ríkisvaldið telur að þessar stéttir eigi ekki að njóta sambærilegra launabreytinga og aðrar stéttir hjá hinu opinbera.“ Því stefnir í enn eitt risaverkfallið í næstu viku. Þ.e. nema hjá lögreglumönnum. Þeir mega ekki fara í verkfall.
Það er því allt í steik og sú staða var endanlega staðfest í fyrradag þegar viðræðum SALEK-hópsins hjá ríkissáttasemjara var hætt. Þar með er ljóst að ekki mun nást sátt um að innleiða bætt vinnubrögð við gerð kjarasamninga á Íslandi.
Samið um efnahagslegt stórlys
Þetta er staðan þrátt fyrir að hagfræðingar á vegum allra heildarsamtaka á vinnumarkaði, fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Sambandi sveitarfélaga hafi sameiginlega komist að þeirri niðurstöðu að ef ekki verði brugðist við muni verðbólga vaxa hratt yfir verðbólgumarkmið Seðlabankans, vextir hækka og gengi krónunnar falla vegna lakari samkeppnisstöðu og versnandi viðskiptajafnaðar. Í minnisblaði hagfræðinganna segir: „Bætist launaskrið ofan á þessa mynd er ljóst að verðbólguhorfur versna enn frekar, gengi krónunnar verður veikara en ella og vextir SÍ hærri. Gera má ráð fyrir að kaupmáttur launa vaxi mikið til skemmri tíma, en vöxtur hans stöðvist og veikist síðan til lengri tíma með vaxandi verðbólgu.“
Við þetta má bæta að þessar miklu launahækkanir eru að valda sveitafélögum landsins miklum fjárhagslegum erfiðleikum. Þau standa ekki undir þeim að óbreyttu og munu þurfa að ná í auknar tekjur, t.d. í gegnum sölu lóða, til að borga launahækkanir sínar. Það mun leiða til hærra fasteignaverðs, sem leiðir til aukinna afborganna af húsnæði, sem leiðir til þess að færri krónur eru í vasa launamannsins. Og svo koll af kolli.
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulifsins, segir að að óbreyttu stefni í efnahagslegt stórlys.
Gerum sömu hlutina en vonumst eftir nýrri niðurstöðu
Það er ekki skrýtið að fólk klóri sér í hausnum yfir þessari stöðu. Allir sem koma að gerð kjarasamninga eru sammála um að sú leið sem verið er að fara sé galin, en samt er verið að fara hana. Og ríkisstjórnin sem ætlaði samkvæmt stefnuyfirlýsingu að „tryggja stöðugleika, lægri vexti og litla verðbólgu“ er að taka ákvarðanir sem leiða til þveröfugs ástands.
Þrátt fyrir að við höfum verið varin frá veruleikanum með höftum í sjö ár, þrátt fyrir að búið sé að endurskipuleggja allt atvinnulífið á kostnað útlendra lánadrottna, þrátt fyrir að túristar og makríl hafi aukið útflutningsverðmæti okkar margfalt og þrátt fyrir að það glitti í gullpott við enda hrunregnbogans með samningum við kröfuhafa sem lækka skuldir ríkissjóðs umtalsvert þá stefnum við í klassíska íslenska kollsteypu.
Í stað þess að nýta þann stöðugleika sem höftin hafa gefið okkur og draga úr þenslu á uppgangstímum eins og hægt er þá er verið að ráðast í stórfellda stóriðjuuppbyggingu. Í stað þess að reyna að bremsa einkaneyslu þá gaf ríkisstjórnin hluta þjóðarinnar 80 milljarða króna og lækkaði skatta. Í stað þess að halda sig við það plan að skapa vitrænan grundvöll fyrir sjálfbærum launahækkunum var samþykkt að hækka laun um tugi prósenta.
Niðurstaðan verður óumflýjanlega óðaverðbólga, háir vextir og gengisfall. Og þeir sem munu þurfa að axla afleiðingarnar eru íslenskir launamenn, sem fá borgað í íslenskum krónum.
En af hverju var þetta allt saman gert? Af hverju voru ekki aðrar ákvarðanir teknar til að koma í veg fyrir þessa þróun þegar sagan sýnir okkur að nákvæmlega þessi vegferð skilar okkar í efnahagslegan glundroða? Af hverju er tekin meðvituð ákvörðun um að pissa í skóinn sinn til að fá skammtímahita? Og hvað kallar maður stjórnendur sem gera sömu mistökin aftur og aftur en vonast eftir annarri niðurstöðu?
Þegar stórt er spurt er því miður lítið um svör.
En þetta á örugglega bara að reddast.