Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrum fjölmiðlamaður, skrifar iðulega viðhafnargreinar á besta stað í umræðuplássi Morgunblaðsins, næst stærsta dagblaðs landsins. Hann skrifar eina slíka í dag þar sem hann fullyrðir að nánast allir íslenskir fjölmiðlar, með örfáum undantekningum, séu á móti sitjandi ríkisstjórn. Orðrétt segir Óli Björn: „flestir áhrifamestu álitsgjafar, snjöllustu og afkastamestu pennar landsins eru leynt og ljóst andstæðingar ríkisstjórnarflokkanna“.
Varaþingmaðurinn fullyrðir raunar að hvorki réttar upplýsingar né ólík sjónarmið fái að heyrast í fjölmiðlum á Íslandi, og beinir byssu sinni helst að RÚV í þeim efnum. Með öðrum orðum telur Óli Björn að flestir fjölmiðlar segi meðvitað ósatt í fréttaflutningi sínum, væntanlega í einhverjum annarlegum pólitískum tilgangi.
Ætti að leggja niður RÚV fyrir að ljúga
Vegna þessa, segir Óli Björn, „ætti það að vera sérstakt áhugamál stjórnarliða að ryðja braut fleiri einkaaðila á sviði fjölmiðlunar; prent- og netmiðlunar en ekki síst ljósvaka. Fyrsta skrefið gæti verið að að hrinda í framkvæmd samþykkt landsfundar Sjálfstæðisflokksins á síðasta ári þar sem segir meðal annars:
„Rekstur ríkisins á fjölmiðlum má ekki hamla frjálsri samkeppni og raska rekstrargrundvelli annarra fjölmiðla. Landsfundur leggur til að þörf samfélagsins fyrir ríkisfjölmiðil verði endurskilgreind og Ríkisútvarpið ohf. verði lagt niður í núverandi mynd ef ástæða þykir til. Skilgreina þarf hvaða menningarfræðslu og dagskrárgerð á að styrkja opinberlega og tryggja fjármagn til þeirra verkefna.““
Hann vill sem sagt leggja niður RÚV og telur að stjórnarliðar ættu að vera sammála honum vegna þess að RÚV er alltaf að ljúga upp á þá.
Þörfin fyrir að hólfa niður
Þessi „við“ og „þeir“ sýn, þar sem allir með aðra nálgun á lífið eru einhverskonar óvinir, er mjög algeng í ákveðnum kreðsum sem þurfa á niðurhólfun að halda. Það sem vakti athygli mína við niðurhólfun Óla Björns, fyrir utan þá ásökun að íslenskir fjölmiðlar væru fyrst og síðast að ljúga, var sú skilgreining að fjölmiðlarnir væru fullir af vinstri-sinnuðu fólki sem þoli ekki hægri-sinnuðu valdhafana.
Fjölmiðlarnir hljóta þá að vera að breiða út vinstri-sinnaðan boðskap með fréttaflutningi sínum sem fer svo illa með hægri-stjórnina.
Ef næstum allir fjölmiðlar eru vinstri-sinnaðir og sitjandi ríkisstjórn er hægri-sinnuð þá hljóta helstu stefnumál hennar að endurspegla þennan veruleika. Fjölmiðlarnir hljóta þá að vera að breiða út vinstri-sinnaðan boðskap með fréttaflutningi sínum sem fer svo illa með hægri-stjórnina.
Þegar horft er á stærstu fréttamál þessa kjörtímabils er hins vegar erfitt að finna þessari nálgun varaþingmannsins stað.
Þegar hægri verður vinstri
Sitjandi ríkisstjórn hefur lagst gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu og vill draga umsókn landsins að bákninu til baka. Hún ætlar að láta reyna á rétt sinn alþjóðlega til að strauja erlenda kröfuhafa slitabúa fallina banka sem gæti haft í för með sér stórkostlegan ágóða. Hún hefur staðið vörð um hindranir á innflutningi á landbúnaði og meira að segja varið Mjólkursamsöluna þegar fyrirtækinu er gefið að hafa brotið á neytendum til að styrkja einokunarstöðu sína á kostnað samkeppni. Í flestum fræðibókum um pólitíska kvarða myndi þessi afstaða seint flokkast sem frjálslynd hægrimennska. Eiginlega þvert á móti.
Í Animal Farm skrifaði Orwell um að sumir væru jafnari en aðrir samkvæmt þeirri stjórnmálastefnu sem þar er lýst. Sama virðist eiga við hér.
Ríkisstjórnin hefur líka valið að beita skattlagningarvaldi til að ná í tugi milljarða króna, dreifa til hluta landsmanna og kalla það sanngirnisaðgerð vegna forsendubrests. Í stað þess að nota skattfé til að lækka skatta, borga niður skuldir eða gera eitthvað annað hægrilegt þá ákvað hægristjórn Óla Björns að greiða hluta þjóðarinnar skaðabætur vegna þess að hér varð verðbólga. Í Animal Farm skrifaði Orwell um að sumir væru jafnari en aðrir samkvæmt þeirri stjórnmálastefnu sem þar er lýst. Sama virðist eiga við hér. Varla var stjórnarfarið í Animal Farm dæmi um hægrimennsku.
Siðastliðið ár hafa yfirlýstir hægrimenn síðan keppst við að verja ráðherra og pólitíska ráðgjafa hennar sem báru ábyrgð á því að persónulegum upplýsingum var safnað saman um nafngreindan einstakling og þær notaðar til að sverta mannorð hans opinberlega. Þetta var þekkt taktík í Austur-Evrópu á meðan að járntjaldið svokallaða hékk uppi. Varla er hægt að halda því fram að í þessu felist sú varðstaða um frelsi einstaklingsins gagnvart ríkisbákninu sem hægri-fræðin boða?
Og svo má velta fyrir sér hvar á hinum pólitíska kvarða sú hugmynd Óla Björns að leggja niður opinbera fyrirtækið RÚV, vegna þess að honum þykir fréttaflutningur þess halla á það lið sem hann heldur með, lendir. Það er þá svokölluð Pútinísk hægrimennska.
Út frá þessum dæmum ætti hægrimaðurinn Óli Björn að vera nokkuð ánægður með aðhald fjölmiðlanna að stjórnvöldum, sem virðast mun lengra til vinstri í sinni pólitík en hattarnir sem þau hafa valið sér gefa til kynna.
Fjölmiðlar segja fréttir
En þetta er auðvitað allt saman tóm steypa. Fjölmiðlar eru ekki pólitísk öfl. Þeir segja fréttir og eðlilega er andlag þeirra frétta oftast sitjandi stjórnvöld, sérstaklega á umbrotartímum þar sem stórar ákvarðarnir eru teknar sem munu hafa gífurleg áhrif á líf þegna landsins í nánustu framtíð.
Fjölmiðlar eiga að upplýsa um þessi mál og veita stjórnvöldum aðhald þegar þau virðast fara út af sporinu. Það hafa þeir gert mjög vel undanfarin misseri.
Fjölmiðlar eiga að upplýsa um þessi mál og veita stjórnvöldum aðhald þegar þau virðast fara út af sporinu. Það hafa þeir gert mjög vel undanfarin misseri. Og það gerðu þeir líka á síðasta kjörtímabili þegar svokölluð vinstristjórn, sem fór reyndar í prógramm hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, færði kröfuhöfum tvo banka og ákvað að fella niður auðlegðarskatt, sat við stýrið.
Ég er sammála Óla Birni að því leytinu til að hið opinberra mætti ryðja brautina fyrir fleiri einkaaðila á sviði fjölmiðlunar. Ég er hins vegar ósammála því að það ætti að gera vegna þess að stjórnarliðum finnst allir fjölmiðar vera á móti sér. Það ætti fyrst og síðast að gera til að búa til heilbrigt rekstrarumhverfi fyrir fjölþætta fjölmiðaflóru.