Það var von margra að Rögnunefndin svokallaða myndi höggva á þann ótrúlega hnút sem er í umræðum um flugmál á Íslandi. Hnút sem meðal annars hefur leitt af sér að þingmenn eins flokks hafa reynt að taka skipulagsvald af höfuðborg landsins til að koma í veg fyrir breytingar á innanlandsflugvelli og griðarlega vinsæla herferð sem erfitt var að túlka á annan hátt en að ef Reykjavíkurflugvöllur myndi fara úr Vatnsmýrinni mundi fullt af fólk deyja.
Það var hins vegar borin von að ein skýrsla myndi leysa þennan rembihnút.
Tilfinningarök ráðandi hjá báðum hópum
Í mjög einföldu máli hafa deilur um framtíð Reykjavíkurflugvallar snúist um hagsmuni. Annars vegar hagsmuni þeirra sem nota flugvöllinn, eða vilja að minnsta kosti vita af honum þar sem hann er, og hins vegar þeirra sem vilja að byggingarlandið undir honum, það verðmætasta á höfuðborgarsvæðinu, verði nýtt undir byggð. Báðir hópar hafa, í háværum og dramatískum rifrildum um málið, gert sig seka um að beita fyrir sig tilfinningarökum fremur en staðreyndum í málflutningi sínum.
Rögnunefndin tekur ekki afstöðu með öðrum hvorum þessum hóp. Raunar er niðurstaða hennar sú að nauðsynlegt sé að tryggja innanlandsflugið í Vatnsmýrinni þar til að búið er að þróa og framkvæma aðra lausn á flugmálum Íslendinga. Með því leggur hún til að innanlandsflugvöllurinn verði í Vantsmýrinni í nánustu framtíð. En ekki um alla framtíð.
Þetta sjá allir sem lesa skýrsluna fljótt. Því miður hafa ekki margir sem eru að tjá sig um skýrsluna raunverulega lesið hana.
Miklu stærra mál en innanlandsflug
Ef þeir gerðu það þá sjá þeir að Rögnunefndin er að velta upp risastóru máli sem er miklu stærra en bara lega innanlandsflugvallar. Fjöldi ferðamanna sem til Íslands koma, og skapa nú meiri tekjur fyrir íslenska þjóðarbúið en bæði sjávarútvegur og álútflutningur, hefur margfaldast á mjög skömmum tíma. Frá árinu 2008 hefur farþegum í millilandaflugi hérlendis fjölgað um tæp 100 prósent, farið úr tveimur milljónum í 3,9 milljónir. Í skýrslu Rögnunefndar segir að áætlanir Isavia, sem rekur flugvelli landsins, geri ráð fyrir því að farþegarnir verði sjö milljónir eftir fimm ár, árið 2020. Tuttugu árum síðar, árið 2040, gera áætlanir ráð fyrir því að þeir verði tólf til fimmtán milljónir talsins, eða allt að tæplega fjórum sinnum fleiri en í dag.
Vegna þessa er nauðsynlegt að Keflavíkurflugvöllur tvöfaldi innviði sína á næstu 25 árum til að takast á við þessa fjölgun. Isavia áætlar að kostnaðurinn við uppbyggingu flugvallarins muni kosta á annað hundrað milljarða króna á þessu tímabili. Á meðal þess sem þarf að gera er að rífa niður og/eða endurnýja stóran hluta þeirra bygginga sem nú eru til staðar á Keflavíkurflugvelli og bæta við þriðju flugbrautinni. Millilandaflugið skapar hins vegar miklar tekjur sem standa vel undir þeim framkvæmdum sem þarf að ráðast í.
Nú er nauðsynlegt að rifja upp að Keflavíkurflugvöllur hefur þegar verið stækkaður töluvert á undanförnum misserum, en er samt sprunginn. Og það er líka nauðsynlegt að tiltaka að þær framkvæmdir eru fjármagnaðar af Isavia, ekki ríkissjóði. Til þess fær fyrirtækið lán frá bönkum á borð við Norræna fjárfestingabankann, sem lána til innviðafjárfestinga. Og Isavia, sem er í eigu ríkisins, er rekið með milljarða hagnaði eftir afborganir af lánum, vegna þess að rekstur millilandaflugvallar er arðbær.
Ljóst er að sú fimm þúsund fermetra stækkun á flugstöðinni í Keflavík sem lýkur árið 2016 mun duga skammt til að takast á við allan þennan fjölda ferðamanna sem mun bætast við á næstu árum. Það þarf samstundis að fara að skipuleggja næstu skref.
Hagkvæmt fyrir alla þjóðina að samþætta
En af hverju er verið að blanda innanlandsfluginu inn í millilandaflugið? Er ekki hægt að nota Reykjavíkurflugvöll áfram í núverandi mynd og láta hann vera miðstöð innanlandsflug í framtíðinni? Stutta svarið er nei, vegna þess að hann dugir ekki. Og það er dýrara að ráðast í þær framkvæmdir sem þarf en að byggja nýjan flugvöll annars staðar.
Innanlandsfarþegum hefur fækkað töluvert undanfarin ár. Ástæðurnar eru mýmargar en líklega telur mest að það er ákaflega dýrt að fljúga innanlands. Í fyrra fóru til að mynda 328 þúsund manns um Reykjavíkurflugvöll, um 35 þúsund færri en árið 2012.
Af hverju þarf að fjárfesta í innanlandsflugvelli ef flugfarþegum er að fækka? Jú, vegna þess að fjárfestingum í honum hefur ítrekað verið frestað á undanförnum árum og fyrirsjáanlegt að draga þurfi úr þjónustu ef ekki verði bætt úr. Þá er Reykjavíkurflugvöllur líka, svo fátt eitt sé nefnt, varaflugvöllur fyrir millilandaflug, miðstöð kennslu og æfingaflugs, nýttur af Landshelgisgæslunni, fyrir sjúkraflug og viðskiptaflug einkaaðila í viðskiptaerindum. Öllu þessu þarf eðlilega að sinna í framtíðinni.
Ólíkt millilandafluginu, sem er arðbært, þá þarf hins vegar að borga með innanlandsfluginu, og því miklir hagsmunir fólgnir í því að ná kostnaðinum við það niður.
Keflavík eða Hvassahraun
Helstu niðurstöður Rögnunefndarinnar eru því að hagkvæmasta lausnin fyrir alla sé að byggja flugvöll sem sinnir bæði innanlands- og millilandaflugi í Hvassahrauni. Raunar sé ábatinn 29 til 50 milljarðar króna ef miðað er við fyrirliggandi kerfi. Það er ábati fyrir landsbyggðina, höfuðborgarbúa og ríkið. Í skýrslu nefndarinnar segir einfaldlega: „samlegð innanlands- og millilandaflugs [er] til bóta fyrir alla þjóðina.“
Þessi fjárfesting og uppbygging mun kosta peninga, en hún mun líka skila þeim peningum margfalt til baka í formi þeirra gjaldeyristekna sem ferðaþjónustan skapar okkur.
Vandinn við skýrsluna er að hún tekur ekki á þeim möguleika að þessi samþætta uppbygging eigi sér stað í Keflavík. Það verður væntanlega næsta skref, að bera saman kosti og galla nýs flugvallar í Hvassahrauni við það að hafa alla uppbyggingu innanlands- og millilandaflugs í Keflavík.
Ákvörðun um þessa uppbyggingu getur ekki beðið. Við getum ekki rifist um útfærslu hennar í áratug í viðbót. Hana þarf að taka faglega á allra næstu árum með það að leiðarljósi að hámarka ábata íslensku þjóðarinnar.
Hjartað er í Vatnsmýrinni
Fyrstu viðbrögð stjórnmálamanna gefa ekki miklar væntingar um að svo verði. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sagði í stöðuuppfærslu á Facebook: „22 milljarðar króna í nýjan flugvöll. Kemur ekki til greina að ríkið beri þann kostnað, augljóst að Dagur ætlar borgarbúum að borga brúsann.“ Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sagði: „Eigum við 22-25 milljarða aflögu (varlega áætlað) til að byggja nýjan flugvöll í korters fjarlægð frá Keflavíkurflugvelli? Nei, nú held ég að menn ættu að snúa sér aftur að verkefninu. Það snerist um það hvort innanlandsflugið ætti að vera áfram í Vatnsmýrinni. Þetta er ekki lausnin á því.“
Kristján L. Möller, fyrrum samgönguráðherra Samfylkingarinnar, viðurkenndi í Vikulokunum í gær að hann hefði ekki lesið skýrsluna en úttalaði sig samt um hana. Niðurstaða hans væri að þetta væri bara enn ein skýrslan.
Höskuldur Þórhallsson, formaður samgöngunefndar Alþingis, sagði það vera tímaeyðslu að velta fyrir sér flugvelli í Hvassahrauni. Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Framsóknar og flugvallarvina í Reykjavík, vill Reykjavíkurflugvöll áfram í Vatnsmýrinni í óbeyttri mynd, þrátt fyrir að allir sem að rekstri hans koma segja það ómögulegt án fokdýrrar fjárfestingar.
Enginn þeirra ræðir málið í samhengi við þá gríðarlegu fjárfestingu sem nauðsynleg er í millilandaflugi, svo við getum haldið áfram að hagnast brjálæðislega á ferðamönnum, og þá samlegð sem Rögnunefndin segir að sé hægt að ná með samþættingu innanlands- og millilandaflugs. Enginn.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, sem sat í Rögnunefndinni, kallaði eftir því að stjórnmálin myndu stíga upp úr skotgröfunum í flugvallarmálinu og reyna að ræða sig niður á niðurstöðu. Miðað við fyrstu viðbrögð ráðamanna þá verður honum ekki að ósk sinni.
Í flugvallarmálum virðast staðreyndir, rök, heildarhagsmunir og meira að segja peningar nefnilega ekki skipta neinu máli. Þar ræðst afstaða af tilfinningu. Svo sterkri tilfinningu að margir stjórnmálamenn sjá ekki einu sinni tilganginn í því að lesa skýrslur um uppbyggingu innviða í stærsta atvinnuvegi þjóðarinnar.
Þeir eru búnir að ákveða hvar hjartað er og engar skýrslur munu breyta því.