Nýlegur dómur Hæstaréttar Bandaríkjanna sem gerir ríkjum landsins kleift að banna alfarið þungunarrof hefur varla farið fram hjá neinum. Í kjölfarið hefur farið af stað ákveðin herferð sem hvetur notendur svokallaðra tíðahringsappa til að eyða þeim, þar sem mögulegt sé að nota gögn sem skráð eru í appinu sem sönnunargögn gegn notendum sem eru ákærðir fyrir að hafa farið í ólöglegt þungunarrof. Tugir milljóna nota í dag slík öpp, t.d. Flo og Clue, til að fylgjast með tíðahring sínum.
En getur það staðist að bandarísk yfirvöld geti notað gögn sem við í sakleysi okkar og skjóli friðhelgi einkalífsins setjum inn í tíðahringsappið okkar? Ættirðu kannski bara að eyða tíðahringsappinu þínu?
Stutta svarið er: Já, kannski ættirðu bara að eyða því.
Langa svarið er: Það er engin hætta á því að einhver sem býr í Evrópu og sækir sér aðstoð vegna óvelkominnar þungunar í Evrópu þurfi að eyða tíðahringsappinu sínu vegna hættu á lögsókn í Bandaríkjunum.
Af hverju sagði ég þá að þú ættir kannski að eyða appinu þínu? Jú, vegna þess að öpp sem við m.a. setjum upp í símunum okkar safna í langflestum tilvikum ótrúlegu magni upplýsinga, oft gögnum sem okkur órar ekki fyrir að verið sé að safna. Þótt okkur langi til að trúa því að gögnin séu örugg í skjóli appsins þá ferðast þau mikið lengra en okkur grunar. Það var t.d. mjög auðvelt fyrir blaðamann nokkurn að kaupa sér gögn, fyrir einungis 160 dollara, um heimsóknir á 600 stofur sem framkvæma þungunarrof í Bandaríkjunum. Gögnin voru að hluta til rekjanleg til umræddra einstaklinga, en þau sýndu m.a. fram á hvaðan viðkomandi kom, hversu lengi heimsóknin stóð yfir og hvert viðkomandi fór að heimsókn lokinni.
Tíðahringsöpp safna m.a. persónuupplýsingum sem notandi setur inn í appið sem og ýmsum tæknilegum gögnum, t.d. nafni, fæðingardegi, hvenær blæðingar hefjast og hætta, upplýsingum um meðgöngu, líkamshita, hvenær við stundum kynlíf, hvernig tíðablóðið lítur út, hvað við borðum og hvenær, upplýsingum um tækið sem er notað og IP-tölu, svo eitthvað sé nefnt. Og hvað verður svo um þessar upplýsingar sem þú veitir appinu, meðvitað eða ómeðvitað? Geturðu treyst því að upplýsingarnar sem þú gefur appinu verði eingöngu geymdar í appinu og ekki miðlað áfram til þriðju aðila (sem þú veist ekkert hverjir eru)? Ja, fyrir leikmann getur oft verið erfitt að segja til um þetta (og nánast ómögulegt reyndar).
Við í Evrópu búum við einhverja ströngustu löggjöf sem þekkist þegar kemur að vernd persónuupplýsinga. Samkvæmt henni ber þeim sem búa til öpp (eins og tíðahringsöpp) og vinna persónuupplýsingar okkar að segja okkur hvernig gögnin eru notuð. Þetta er yfirleitt gert í gegnum nokkuð sem fæst okkar nenna að lesa og kallast gjarnan „privacy policy“ eða „persónuverndarstefna“. Þar kemur oftast fram með nokkuð almennum hætti hvað fyrirtæki gera við gögnin þín. Vandamálið er bara að oft getur verið erfitt að skilja lögfræðimálið sem persónuverndarstefnan er skrifuð á og stundum er einfaldlega erfitt að skilja hvað við er átt.
Tíðahringsappið Flo segist t.d. í sinni stefnu ekki selja neinar persónuupplýsingar til þriðja aðila. Gallinn er bara sá að oft eru þessar persónuupplýsingar alls ekki seldar, heldur gefnar. Og það getur Flo haldið áfram að gera miðað við þessa stefnu. Sem er reyndar nákvæmlega það sem Flo varð uppvíst að því að gera: Fyrirtækið lét Facebook fá (en seldi ekki) upplýsingar um hvenær notendur voru á blæðingum og hvort viðkomandi ætluðu sér að verða barnshafandi innan skamms. Þetta gildir auðvitað ekki bara um tíðahringsöpp, heldur öll öpp sem við notum, þ.e. oft og tíðum safna þau ótrúlegu magni gagna og við vitum lítið sem ekkert um hvar þessi mjög svo viðkvæmu heilsufarsgögn enda. Heilsuúr eins og Fitbit og Apple Watch hafa t.d. látið gögn af hendi til löggæsluaðila sem farið hafa fram á það.
Í ofanálag hafa bandarísk stjórnvöld, eins og öll umræðan kringum Roe vs. Wade sýnir, rétt á því að seilast mjög langt inn í persónuupplýsingar sem eru geymdar í Bandaríkjunum. Þannig að ef tíðahringsappið þitt geymir gögn í Bandaríkjunum (sem er mjög algengt, enda hafa bandarísk stórfyrirtæki eins og Amazon og Google markaðsráðandi stöðu þegar kemur að geymslu gagna á netþjónum (e. servers) geta bandarísk stjórnvöld almennt gengið langt í að krefjast alls konar upplýsinga sem er að finna í slíkum gögnum. Þetta gildir jafnvel þótt appið sé búið til í Evrópu og segist ekki láta neinar upplýsingar af hendi til landa utan Evrópusambandsins.
Og þó að það sé engin hætta á því að upplýsingar úr appi, sem einstaklingur sem býr í Evrópu og hefur farið í þungunarrof í Evrópu notar, verði notaðar sem sönnunargögn í máli í Bandaríkjunum (enda ekkert slíkt mál fyrir hendi í þessum aðstæðum) þá er svo sannarlega ástæða til að velta því fyrir sér hvað verður um allt það mikla magn gagna sem sett eru inn í slík öpp. Þannig að svarið við spurningunni „ættirðu að eyða tíðahringsappinu þínu?“ er „já, kannski“. En það er ekki út af nýlegum dómi Hæstaréttar Bandaríkjanna í máli Roe vs. Wade.
Höfundur er lögfræðingur og starfar sem yfirmaður persónuverndarmála hjá fjölmiðlafyrirtækinu Allente í Svíþjóð.