Ég er búinn að vera að velta því lengi fyrir mér hvort og þá hvernig ég eigi að skrifa þessa svargrein. Fyrir því eru aðallega tvær ástæður. Fyrri ástæðan er að stór hluti af þessari grein yrði bara ítarlegri endurtekning á fyrra svari mínu þar sem grein Gunnars Jóhannessonar „Prestur svarar pírata!“er bara áframhald á upprunarökvillunni. Ég stenst hins vegar yfirleitt ekki mátið þegar fólk beitir rökvillum máli sínu til stuðnings þannig að svarið við þeirri ástæðu er óhjákvæmilega að ég þarf að skrifa þessa grein.
Seinni ástæðan er flóknari. Á ég að vera að vesenast í þessu yfirleitt? Hvers vegna á ég að vera að skipta mér af því þó annað fólk trúi því að einhver Guð sé til? Svarið við því er að mér er í raun slétt sama. Það sem mér er hins vegar ekki sama um er að við þurfum öll að borga fyrir það og þar kemur lygi og blekking trúarbragða við sögu. Mér er semsagt alveg sama þótt einstaka fólk trúi á einhvern Guð, en um leið og það fer að heimta peninga af öðru fólki út af ímynduðu verunum sínum þá verð ég að skipta mér af og ekki bara úr af því að ég starfa við að rýna og ákveða hvernig á að nýta skattfé. Einnig af því að mér líkar ekkert mjög vel við það þegar verið er að ljúga að fólki.
En byrjum á byrjuninni. Ég sagði í stuttri ræðu á þingi að Guð væri ekki til. Þar á ég við Guð hinna skipulögðu trúarbragða sem notfæra sér þá trú til þess að fá peninga og völd. Skipulögð trúarbrögð eru nefnilega ekkert nema pólitík, ætluð til þess að hafa stjórn á samfélagi manna með því að notfæra sér hinn mannlega eiginleika að trúa á hitt og þetta. Hvað sem því líður þá sagði presturinn Gunnar að ég gæti ekki sagt að það væri staðreynd að Guð væri ekki til.
Staðreynd er eitthvað sem er víst. Örugg sannindi. Staðreyndir virka þannig að þegar þær eru settar fram þá eru þær óhrekjanlegar. Það er hægt að hafa ýmsar skoðanir á staðreyndum en það breytir þeim ekki. Ef ég segi til dæmis að það sé hlýtt úti þá þýðir það ekkert endilega það sama fyrir mig eða þig. Það er samt staðreynd hversu hátt hitastigið mælist.
Gunnar segir að ég geti ekki sagt að það sé staðreynd að Guð sé ekki til, en samtalið byrjar í rauninni fyrr:
Gunnar: Guð er til.
Ég: Guð hvað?
Gunnar: Guð er yfirnáttúrleg vera sem gerir alls konar æðislega hluti.
Ég: Nú? Hvernig veistu?
Gunnar: Þú þarft að sanna að ég hafi rangt fyrir mér!
Ég: Nei, ég þarf þess ekkert. Þetta er þín fullyrðing og þú verður að rökstyðja hana á einhvern hátt.
Gunnar: Nei þú.
… og svo framvegis. Þarna væri Gunnar að snúa sönnunarbyrðinni við. Hann krefst þess ég eigi að afsanna fullyrðingar sem hann telur verið staðreyndir án þess að nokkur hluti fullyrðingarinnar um tilvist Guðs sé sannreynanleg eða mælanleg. Engin mæling á þessu viðfangsefni hefur skilað neinni jákvæðri niðurstöðu. Öll mælitæki sýna núll. Þetta er upprunarökvillan. Uppruni staðhæfingarinnar um að Guð sé til er hjá Gunnari (sem staðgengill þeirra sem segja að Guð sé til). Þegar Gunnar staðhæfir og krefur mig um að sanna eða afsanna hans eigin fullyrðingar þá er það upprunarökvilla.
Ég þarf ekki að sýna mælingar fyrir því sem Gunnar telur vera staðreynd, það er verkefni Gunnars og kollega hans. Gunnar og félagar hafa aldrei getað sýnt snefil af gögnum fyrir sínum fullyrðingum um eðli Guðs og afleiðingin af því er að ekkert af þeim eru staðreynd. Enginn, aldrei, hefur getað sýnt fram á það með einföldum eða flóknum hætti, sem hver sem er getur endurtekið. En þýðir það að ég geti sjálfur fullyrt að Guð sé ekki til?
Gunnar afsannar staðreyndina um Guð reyndar sjálfur í sinni grein: „Ef hægt er að tala um „einfalda staðreynd“ í þessu samhengi yfir höfuð er það sú staðreynd að tilvist Guðs verður hvorki sönnuð né afsönnuð.“
Með þessu er Gunnar að segja að það sé ekki hægt að sanna tilvist Guðs. Það þýðir samkvæmt skilgreiningunni um staðreynd að tilvist Guðs getur aldrei orðið að staðreynd. Þar er hins vegar til önnur staðreynd sem er sönn fyrir Gunnar. Það er staðreynd að hann trúir því að Guð sé til. Það er einnig staðreynd að ég trúi því ekki að Guð sé til. Báðar þessar staðreyndir geta verið sannar á sama tíma. Þetta er hins vegar ekki staðreynd um tilvist Guðs heldur staðreynd um Gunnar og mig. Hér er mikilvægt að hafa þennan merkingarmun á hreinu.
Þessar staðreyndir um mig og Gunnar eru ekki almennar staðreyndir að til séu yfirnáttúrulegar verur sem hlusta á bænir og dæma sálir til helvítis eða himna. Það væri satt best að segja líklegra að guðir væru geimverur sem skipta sér af lífinu á jörðinni á einhvern hátt, eins og einhverjar Star trek verur, en að Guð sé vera sem sé búin að vera til í milljarða ára og heyri bænir sem við getum ekki mælt. Það er ekki hægt að sanna það eins og er, en kannski síðar.
Hér gæti Gunnar sagt: „ah ha!“ Það gæti vel verið að tilvist Guðs verði sönnuð einhvern tíma seinna þegar við höfum þróað einhvers konar tækni sem getur mælt Guð. Þannig séu líkur á því að það sé til Guð og það er staðreynd!
Ég: Já. Auðvitað. Það er hins vegar allt annað en að það sé staðreynd að Guð sé til. Það gengur líka gegn fyrri fullyrðingu þína um að tilvist Guðs verði ekki sönnuð. Að auki myndi það bara sanna að Guð sé raunveruleg geimvera eins og við en ekki yfirnáttúrleg vera.
Gunnar: Þú getur samt ekki sagt að það sé staðreynd að Guð sé ekki til!
Ég: Jú, auðveldlega. Það eru nefnilega engin haldbær rök fyrir því að halda því fram að Guð sé til. Það eru engar vísbendingar um neitt sem krefjast þess að Guð sé mögulegt svar. Það er hins vegar augljóst hvernig mannveran hefur notfært sér trú fólks til þess að búa til pólitískt valdakerfi sem krefst þess að ákveðnum aðilum sé sýnd virðing og farið eftir því sem þau segja, ellegar hljóti þau refsingu einhverrar yfirnáttúrulegrar veru.
Þetta með að tilvist Guðs verði aldrei sönnuð þarfnast nánari skoðunar. Gunnar fjallar aðeins um vísindin í síðustu grein sinni: !Það er ástæða fyrir því að enginn vísindamaður gerir tilkall til nóbelsverðlaunanna í eðlisfræði fyrir að hafa sannað eða afsannað tilvist Guðs. Vettvangur vísindalegra rannsókna og vísindalegrar þekkingaröflunar einskorðast við hinn náttúrulega heim – alheiminn. Guð er hins vegar yfirnáttúrulegur (eins og BL minnir sjálfur á í grein sinni síðar meir) og handan þess sem vísindin geta náð til.“
Hér er veran Guð sett utan nokkurs sem við getum snert, mælt eða skynjað á nokkurn hátt. Vandinn við þetta er að trúarbrögðin sem Gunnar aðhyllist fullyrða að Guð sé sífellt að hafa áhrif á okkar heim. Þess vegna biðjum við og högum okkur vel og allt það. Það þýðir að það er hægt að mæla þau áhrif og það hafa vísindamenn ítrekað reynt að mæla … áhrif Guðs á okkar heim.
Smávægileg áhrif hafa mælst í rannsóknum sem byggja á einhvers konar velferð eða vanda af geðrænum toga, en sálfræði- og félagsfræðiaðferðir skila þar betri árangri en trúarlegar þegar á heildina er litið og því ekki hægt að eigna þau áhrif einhverri yfirnáttúrlegri veru. Skoðum sem dæmi rannsókn sem var gefin út árið 2006 og fylgdist með sjúklingum sem voru að fara í hjartahjáveituaðgerð (e. Prayer (STEP) in cardiac bypass patients). Niðurstöðurnar voru að meðal þeirra sjúklinga sem vissu að það væri kannski verið að biðja fyrir þeim að 52% sjúklinga sem beðið var fyrir lentu í einhvers konar erfiðleikum á móti 51% þeirra sem ekki var beðið fyrir. Af þeim sem vissu að beðið var fyrir þeim lentu 59% í einhverjum erfiðleikum. Meiri háttar vandamál og 30 daga lífslíkur voru svipaðar í öllum hópum. Þessar niðurstöður sýna engan mun og eru nær því að sýna að neikvæð áhrif ef fólk veit að það er verið að biðja fyrir þeim.
Þetta er vissulega bara ein rannsókn en allar aðrar vel gerðar rannsóknir segja sömu sögu. Þó það eigi ekki að vera hægt að mæla Guð þá eru væntingar um að Guð hafi áhrif á líf okkar - sem má segja að sé satt í vissum hugrænum skilningi og að Guð sé til í því samhengi. En ýmsar verur hafa auðvitað gegnt því hlutverki í gegnum tíðina. Nú orðið notum við skilvirkari aðferðir til þess að ná betri árangri án þess að blanda ímynduðum verum í málið.
Þar af leiðandi, þegar ég staðhæfi að Guð sé ekki til þá er ég auðvitað að meina nákvæmlega sá Guð sem hin ýmsu trúarbrögð þykjast þekkja sem raunverulega veru. Guð með stóru G. Guð kristinnar trúar og í raun allir aðrir guðir sem öll önnur trúarbrögð reyna að sannfæra okkur um að stjórni lífi okkar á einhvern hátt og þá sérstaklega lífi eftir dauðann. Allir þessir guðir eru mannleg vörpun á stóru spurningunum í lífinu. Hvernig varð þetta allt til? Hvað gerist svo? Hver er tilgangurinn? Guðir eru einfalda svindlsvarið við þeim spurningum.
Við þekkjum jólasveininn, tannálfinn, páskakanínuna, álfa og jólaköttinn. Við vitum vel að það eru foreldrar barnanna sem setja í skóinn og við vitum einnig að trúin á jólasveininn er nákvæmlega sama trúin og við höfum til annarra yfirnáttúrlegra vera. Samt, einhverra hluta vegna, eiga sumar þeirra til en aðrar ekki. Við vitum það alveg að margar af þessum verum eru skáldskapur manna. Við vitum það líka að þær eiga mjög margt sameiginlegt, og því ætti að vera auðvelt að setja þær allar undir sama hattinn „skáldskapur“ en einhverra hluta vegna gerum við undanþágur fyrir sumar af þessum verum.
Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að heimurinn er stærri og flóknari en við höfum getað ímyndað okkur, og á þann hátt getur alveg verið einhvers konar líf, einhvers staðar í alheiminum sem við einfaldlega skiljum ekki. Ef svo er, þá geta trúarbrögð hérna á jörðinni ekki skilið þau heldur og sá merkimiði sem þessi trúarbrögð setja á slíka mögulega veru er óvéfengjanlega rangur. Þar af leiðandi er Guð hinnar kristnu kirkju ekki til nema sem skálduð vera. Ekki heldur Guð islamstrúar, ásatrúar, egypsku guðirnir, grísku guðirnir, japönsku guðirnir og svo mætti lengi telja … alveg að jólasveininum og páskakanínunni. Það er staðreynd, hversu mikið sem hin ýmsu trúarbrögð keppast við að eigna sér þá mögulegu veru.
Eðlileg viðbrögð Gunnars hérna væri að segjast meina að Guð væri einmitt þannig. Að trúarbrögðin kunni bara að lýsa hluta af því sem Guð er í heild sinni en að sá hluti dugi þeim. Ef fleiri stærri eða minni eiginleikar Guðs uppgötvast þá muni þeir falla undir fyrri skilgreiningu þeirra um hvað og hver Guð er án nokkurra vandamála. Vandinn er að allir eiginleikar Guðs eru þar af hentisemi fyrir trúarbrögðin en ekki afleiðing þeirra áhrifa sem þessi vera á að hafa haft á mannlegt samfélag.
Það er nefnilega söguleg staðreynd að mannveran hefur ítrekað reynt að útskýra hið óþekkta með alls konar yfirnáttúrlegum verum og ítrekað höfum við skipt um skoðun. Við höfum málað guði í stjörnurnar og stokka og steina. Fyrir Íslendinga voru það einu sinni guðir Valhallar. Svo var það kaþólska túlkunin á Guði og nú er það hin evangelíska lúþerska túlkun. Af hverju ætti núverandi ágiskun á Guð að vera hin rétta? Af hverju ætti næsta ágiskun að vera eitthvað réttari? Það eru alls konar tilgátur um eiginleika þessara yfirnáttúrulegu vera, og fólk er sífellt að búa til nýjar tilgátur. Eða eins og Doug Forcett sagði, í minni þýðingu:
„Það var árið 1972. Ég og Randy vinur minn vorum að borða ofskynjunarsveppi. Randy spurði mig, „hvað heldur þú að gerist þegar þú deyrð?“ Og ég sá með fullkomnum skýrleika hvernig líf eftir dauðann virkar. Samstundis vissi ég að ég þyrfti að lifa fullkomnu lífi. Jah, ekki alveg samstundis. Daginn eftir gat ég bara horft á kung fu myndir og klappað teppi sem ég hélt að væri kötturinn minn. En skömmu seinna hannaði ég líf sem myndi hámarka þann stigafjölda sem ég þyrfti til þess að komast á Góða staðinn. Síðan þá hef ég lifað því lífi. Ég veit, þetta hljómar galið.”
Spurningunni, „er núverandi tilgáta rétt?“ er auðsvarað. Nei. Alveg á nákvæmlega sama hátt og fyrri tilgátur um yfirnáttúrlegar verur voru líka rangar og allar síðari tilgátur verða það einnig. Alveg þangað til við getum mælt áhrifin sem þessar verur hafa á okkar heim. Það myndi hins vegar þýða að þessar verur væru náttúrulegar en ekki yfirnáttúrulegar. Það er staðreynd.
Til þess að skilja þetta betur skulum við gefa okkur að það sé til einhver yfirnáttúrleg vera sem getur haft áhrif á okkar heim án þess að við getum mælt þau áhrif (einhverra hluta ekki einu sinni líkamleg áhrif eins og þegar blindir öðlast sýn og þess háttar). Segjum sem svo að þessi vera sér þarna einhvers staðar úti í hinum risastóra alheimi eða hliðarheimi eða hvar svo sem það gæti verið. Sú vera mun ómögulega vera hinn kristni Guð sem trúarbrögð kristninnar á plánetunni jörð segja að hún sé. Kannski er sú vera eitthvað miklu meira, eða miklu minna.
Það væri jafn rangt að kalla slíka veru Guð, út af þeim hluta sem fólk á jörðinni sem getur ekki mælt, og að kalla ranann á fíl slöngu eða tré. Eins og í sögunni um blindu mennina sem þreifuðu á fíl. Nema í þessu tilfelli þyrftu blindu mennirnir að giska á eiginleika verunnar án þess að geta snert hana. Ég get því sagt með fullri vissu að Guð, með stóru G, eins og hins fjölmörgu trúarbrögð heimsins segja að tilvera slíkar veru sé, sé ekki til.
Það er einföld staðreynd að sagan um Guð og aðrar yfirnáttúrlegar verur eins og jólasveininn eru skáldskapur manna og að reyna að halda því fram að þessar verur séu raunverulegar eru lygi. Þegar þú lýgur að mér er það einföld staðreynd að innihald lygarinnar er ekki til.
Höfum það nefnilega algerlega á hreinu. Fólk sem heldur því fram að það sé til Guð er að ljúga að þér. Það hefur ekki hugmynd um það, staðreyndarlega séð. Það trúir því og það er staðreynd gagnvart þeim sjálfum. Það þýðir hins vegar ekki að það geti fullyrt neitt um slík fyrirbæri, hvað þá haldið fram staðreyndum um þau.
Hér grípa margir í persónulega og trúarlega upplifun sem sönnun fyrir trú sinni. Þannig nái fólk einhvern vegin að tengjast verunni sem er ekki hægt að mæla. Slíkt er auðvelt að útskýra með atriðum eins og samskynjun, ofskynun, skynvillu og alls konar sjónhverfingum eða álíka. Það er því alltaf staðreynd að það sem logið er um er ekki til, annars væri það ekki lygi.
Ég veit að lygi nær þessari merkingu ekki hárnákvæmlega. Sá sem veit ekki betur telur sig auðvitað ekki vera að ljúga. Viðkomandi fer með rangt mál um staðreyndir. Hér er þá gott að hafa í huga að Gunnar bendir sjálfur á það að ekki sé hægt að færa sönnur á tilvist Guðs. Af því leiðir að ég verð að fjalla örlítið um heimsfræðirökin sem Gunnar fer yfir í grein sinni. Rökin eru svona hjá Gunnari:
(1) Allt sem verður til á sér orsök!
(2) Alheimurinn varð til!
(3) Alheimurinn á sér orsök!
Ég hef ekkert við þetta að athuga. Vandinn liggur hins vegar í útskýringu Gunnars á orsökinni fyrir því að alheimurinn varð til – sem hann byggir á óendanleikanum, að eitthvað geti ekki orðið til úr engu, þar af leiðandi hljóti orsök alheimsins að vera Guð. Að „orsökin á bak við alheiminn búi yfir ásetningi og vilja og hafi í frelsi sínu valið að orsaka tilvist alheimsins án nokkurra fyrirliggjandi skilyrða eða takmarkana. Með öðrum orðum er ekki um að ræða óskilgreinda, ópersónulega og blinda orsök heldur persónulegan skapara alheimsins.“
Þetta er mjög mannlegt sjónarhorn á miklahvell, að „þessi vera, sem skapaði alheiminn úr engu (að minnsta kosti án fyrirliggjandi efniviðs), sé máttugri en við getum ímyndað okkur, ef ekki almáttug.“
Það er því ákveðin kaldhæðni í því að skoða þróun sköpunarsögunnar í gegnum aldirnar. Án þess að rekja þá þróun í löngu máli þá er stutta útgáfan sú að sköpun við miklahvell varð ekki hluti af sköpunarsögu trúarbragða fyrr en eftir að vísindin höfðu lagt fram þá tilgátu. Fyrir þann tíma var sköpunarsagan á allt öðrum stað í tíma og rúmi. Þegar það fannst ný kenning um uppruna alheimsins var sköpunarsagan einfaldlega færð án þess að nokkrum dytti í hug að fyrst tímasetningin væri röng, þá væri sköpunarsagan sjálf kannski bara röng líka.
Þau sem eru kunnug í rökfræði kannast við slíkar æfingar sem tilfærslurökvillu (e. moving the goalposts). Auðvitað eru fullt af öðrum skýringum um hver orsök miklahvells er og allar eru líklegri en að þar hafi yfirnáttúrleg vera verið að verki. Í tilfelli miklahvells getur það meira að segja verið satt að eitthvað hafi orðið til úr engu, að minnsta kosti út frá sjónarhorni þess sem á eftir kom. Skammtafræðin hefur til dæmis sýnt okkur að það þarf ekkert að vera orsakasamband. Það þýðir að heimsfræðirökin eiga ekkert við í þeim aðstæðum.
Þetta er vandi allra trúarbragða í raun. Þau hafa flest ákveðna sköpunarsögu sem þau reyna eftir fremsta megni að koma fyrir í heimi sem er í sífelldri þróun. Markmið trúarbragða er að boða ákveðna lífssýn. Sú lífssýn er pólitísk í eðli sínu og snýst þegar allt kemur til alls að viðhalda völdum og fjármagni í nokkurs konar Píramídasvindli sem nærist á þeim mannlega eiginleika sem trú er (hér er munur á trú og trúarbrögðum). Þar gildir einu hvort boðberar trúarbragðanna viti af svindlinu eða ekki, það er jafn mikið svindl. Það er í raun efni í aðra langa grein að fjalla um þann hluta trúarbragðanna, þannig að ég læt það vera í bili í umræðunni um hvort Guð sé til eða ekki.
Þessi vandi trúarbragðanna, að finna sköpunarsögu sinni stað, leiðir að helstu rökvillu trúarbragðanna; staðfestingarskekkjunni (e. confirmation bias). Hún virkar á þann hátt að allt sem virðist mögulega geta passað við tilgátu þína er túlkað sem rök fyrir því sem þú vonast að sé rétt. Þetta sést berlega í heimsfræðirökum Gunnars. Af því að það er ennþá ekki vitað hvernig miklihvellur orsakaðist þá er tækifærið gripið og sköpunarsögu Gunnars er haganlega komið fyrir á þeim stað. Hvað gerist þegar vísindin komast skrefinu lengra er fyrirsjáanlegt, sköpunarsagan verður einfaldlega færð eins og hún hefur verið færð svo oft áður. Þegar hið upplýsta ljós skín á það sem áður var í myrkri flýja lygarnar sem þar bjuggu í alla aðra skugga sem þau finna í stað þess að gefast upp.
Í lok greinarinnar segir Gunnar: „En þótt enginn láti sannfærast um neitt gegn vilja sínum væri áhugavert (og á margan hátt óskandi) ef guðleysingjar og efahyggjufólk setti sér jafn háleitan mælikvarða þegar kemur að viðhorfum sínum um Guð og þau krefja trúað fólk um þegar kemur að þeirra. Ef þeir gerðu það er alls óvíst að þeir upplifðu sig á jafn föstu landi og áður.“
Hér mætir upprunarökvillan aftur. Mælikvarði guðleysingja er ekkert háleitur. Hann er mjög einfaldur. Hann spyr einfaldlega hvort þú sért með mælingu fyrir fullyrðingum þínum? Ef ekki, bless!
Ég ætti kannski að klára þennan pistil á stuttri lýsingu á minni trú sem presturinn var ekki nálægt því að giska hvernig virkar. Ég trúi á heim skammtafræðinnar þar sem athygli hefur áhrif á umhverfi okkar. Hvað það þýðir í stærra samhengi hlutanna er stór spurning. Hvað það þýðir fyrir okkur öll er að eðlisfræðingar ættu frekar að stunda predikanir um stóru spurningar heimsins en prestar sem er löngu úreld starfsstétt. Önnur fræði ná betri árangri og svara spurningum okkar um tilgang lífsins mikið betur en starfsstétt sem byggir á lygi um ómælanlegar yfirnáttúrlegar verur. Ef fólk vill endilega borga prestum fyrir einhverja þjónustu, þá er því algerlega frjálst að gera það sjálft. Hættum hins vegar að láta ríkið sjá um innheimtuna eða látum hana allavega renna til þeirra vísinda sem gera eitthvað raunverulegt.
Höfundur er þingmaður.