Af reikningsskilum og gerendameðvirkni

Hildur Lilliendahl Viggósdóttir skrifar um réttar og rangar leiðir gerenda til að axla ábyrgð.

Auglýsing

Gerendameðvirkni á sér margvíslegar birtingarmyndir. Sú gerendameðvirkni sem kveikti yfirstandandi #metoo bylgju átti sér stað eftir að sjónvarpsmaður tók viðtal við sjálfan sig þar sem hann öskurgrét yfir ranglætinu sem fólst í kjaftasögunum um að hann beiti konur margvíslegu ofbeldi. Hann lagði þar sérstaka áherslu á að hann væri, eins og allir vita, góður strákur. Þegar hann var svo kærður fyrir téð ofbeldi hvarf hann úr sviðsljósinu.

En gerendameðvirkni birtist ekki bara með góðu strákunum sem sverja ofbeldið af sér. Hún birtist ekki síður þegar góðu strákarnir stíga fram og „axla ábyrgð“ á öllum mistökunum sínum. Gera „reikningsskil“. Þeir eru nefnilega svo góðir.

Þingmaður skrifar Facebook-status þar sem hann lýsir því að konur séu alltaf að falla kylliflatar fyrir honum og vegna hrifnæmi sinnar falli hann líka fyrir þeim en svo sé hann svo illa haldinn af skuldbindingarfælni og óuppgerðum tilfinningum að hann neyðist til að hætta með þeim og hverfa inn í skelina sína. Hann muni af þessum ástæðum ekki gefa kost á sér til áframhaldandi þingsetu. Hann ætlar nú samt að klára kjörtímabilið, enda fylgir því biðlaunaréttur.

Annar þingmaður skrifar Facebook-status þar sem hann lýsir misheppnaðri viðreynslu sinni við blaðakonu á skrifstofu um hánótt. Hann spyr hana að eigin sögn í tvígang hvort þau eigi að kyssast. Þegar hún afþakkar lætur hann „særandi orð“ falla um hana. Hann muni af þessum ástæðum taka sér tveggja mánaða leyfi frá þingstörfum. Hann kemur svo aftur og þegar honum gengur ekki vel í næsta prófkjöri heyrist hávært hvísl um að það megi nú ekkert lengur, menn séu bara grafnir lifandi fyrir öll mistök og eigi sér aldrei viðreisnar von.

Ljóðskáld og fyrrum borgarfulltrúar og fatahönnuðir og góðir strákar úr öllum lögum samfélagsins fara í viðtöl, skrifa hjartnæma Facebook-statusa og tísta eins og vindurinn um að þeir hafi „farið yfir mörk kvenna“ í gegnum tíðina, gjarnan í einhverju öðru lífi þegar þeir voru ungir og fullir. 

Samfélagið tollerar þessa menn. Þeim er hrósað fyrir djörfung og hetjuskap, sanna karlmennsku, hreint hjarta, einlægni, heiðarleika, hreinskilni, auðmýkt og þroska. Með þessu fylgjast svo þolendur þessara manna. Brotnar konur sem voru ekki hafðar með í ráðum, fengu ekki tækifæri til að undirbúa sig, fengu ekki að segja skoðun sína, fengu ekki að koma útgáfu sinni af atburðum á framfæri. Hafa aldrei fengið fyrirgefningarbeiðni og kannast bara alls ekki við alla þessa einlægni og auðmýkt.

Íþróttafélag rifti í síðasta mánuði samningi við fótboltamann sem varð uppvís að því að taka nektarmynd af liðsfélaga sínum í klefanum og dreifa henni. Fótboltamaðurinn gaf frá sér langa yfirlýsingu þar sem fram kemur að hann sé alls ekki sá eini sem hefur gert svona og hann sé svo góður að hann hafi margoft reynt að ná sambandi við þolanda sinn bæði með símtölum, skilaboðum og með því að mæta heim til hans. Honum fannst hann bara eiga rétt á að taka það pláss. Bæði í fjölmiðlum og í lífi þolanda síns.

Auglýsing
Á Twitter sagði kona frá því að hún hefði fengið skilaboð frá sínum geranda þar sem hann lýsti því í löngu máli hvað hann þjáðist mikið fyrir það sem hann hefði gert henni. Honum fyndist hann vera ógeð og skammaðist sín á hverjum degi og liði hrikalegar kvalir fyrir sínar eigin gerðir. Þetta varð að sjálfsögðu til þess að þolandinn fylltist hugsunum um að hún þurfi að bakka með „ásakanir“ sínar, hún megi ekki verða þess valdandi að maðurinn sökkvi í neyslu og sjálfsskaða. Hún heldur áfram að tapa.

Í lokuðum hópum á víðlendum internetsins deila þessir þolendur upplifun sinni hver með annarri. Ég er ein þeirra. Og eftir þessa #metoo bylgju sitja fjöldamargar konur í sárum vegna þess að gerandinn þeirra steig fram opinberlega, sagði afskræmda og sjálfshyllandi útgáfu af ofbeldinu sem hann beitti þær og var fagnað ótæpilega af almenningi í kjölfarið. Það sem að ofan er lýst heitir ekki að axla ábyrgð eða gera reikningsskil. Það heitir að hampa sjálfum sér á kostnað þolenda. Það heitir gaslýsing og áframhaldandi ofbeldi. Það heitir að fara yfir mörk. Það heitir að taka sér pláss sem þeir eiga ekki tilkall til, gefa sér að þeir hafi rétt á hverju sem er og þurfi ekki að taka tillit til annars fólks, ekki einu sinni fólks sem er í sárum eftir þeirra eigin framkomu.

****************************TW*****************************

Ef þú, góði strákur, hefur nauðgað konu, þröngvað þér inn á yfirráðasvæði hennar, troðið tungunni upp í hana, króað hana af, gert hana hrædda, látið hana finna að sjálfsvígshugsanir þínar séu á hennar ábyrgð, suðað um að fá að fara inn í hana þangað til hún örmagnast, tekið hana næstum áfengisdauða með þér heim og klætt hana úr buxunum af því að þú verðir að fá að sýna henni hvað þú ert góður í að fullnægja konum með tungunni, almennt beitt konu eða konur einhverskonar þvingunum, gaslýsingum og ofbeldi, og ert að íhuga að „stíga fram“ og segja hjartnæma sögu af því hvað þú ert góður strákur og ætlar að axla á þessu ábyrgð með því að auðmýkja þig í fjölmiðlum eða hætta tímabundið eða seinna í vinnunni, þá bið ég þig að hugsa þig tvisvar um.

Þetta eru ekki reikningsskilin sem við þurfum. Þetta eru alls ekki reikningsskil. Talaðu við sálfræðinginn þinn og strákana, leitaðu til Heimilisfriðar, farðu á Bandamannanámskeið Stígamóta, segðu af þér þingstörfum strax, dragðu þig í hlé og gakktu inn á næstu lögreglustöð og játaðu verknaðinn. Fyrir alla muni, ekki troða þér enn og aftur inn í huga þolenda þinna og neyða þá til að fylgjast með því þegar almenningur tollerar þig.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
N1 er vinsælasti viðkomustaður þeirra sem hafa notað nýju ferðagjöf stjórnvalda.
Bensínstöðvar, baðlón og skyndibitastaðir vinsælust hjá notendum nýrrar ferðagjafar
Yfir 10 þúsund manns hafa nýtt nýja ferðagjöf stjórnvalda og um 50 milljónir króna verið greiddar út. Kunnugleg nöfn raða sér í efstu sæti þeirra fyrirtækja sem tekið hafa við mestu en baðlónið Sky Lagoon kemur nýtt inn á lista og tyllir sér í annað sæti.
Kjarninn 17. júní 2021
Guðjón Sigurðsson
Alþjóðlegur MND dagur 20. júní 2021
Kjarninn 17. júní 2021
Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri.
Fyrrverandi seðlabankastjóri fékk fálkaorðuna
Forseti Íslands sæmdi fjórtán manns fálkaorðunni á Bessastöðum í dag.
Kjarninn 17. júní 2021
Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins.
Vilja endurvekja sjálfstæðisbaráttuna
„Eins og fyrri kynslóðum tókst að umbreyta íslensku samfélagi með sjálfstæðisbaráttu almennings þá mun okkur takast það einnig. Þeim tókst það og okkur mun líka takast það.“ Sósíalistaflokkurinn sendi frá sér tilkynningu í tilefni af 17. júní.
Kjarninn 17. júní 2021
Ólafur Ólafsson
Mannréttindadómstóll Evrópu vísar kæru Ólafs Ólafssonar frá
MDE hafnaði í morgun með afgerandi hætti að Rannsóknarnefnd Alþingis hefði brotið gegn rétti Ólafs Ólafssonar til réttlátar málsmeðferðar.
Kjarninn 17. júní 2021
Dánartíðni var hærri í öllum öðrum EES-löndum, ef miðað er við sögulegt meðaltal.
Umframdánartíðnin minnst á Íslandi
Minnsti munur var á mánaðarlegri dánartíðni og sögulegu meðaltali hennar hér á landi af löndum EES.
Kjarninn 17. júní 2021
Sjúkratryggingar Íslands greiða stærstan hluta af þjónustu sem veitt er á Heilsustofnuninni í Hveragerði.
Lítið gerst í úttekt á Heilsustofnun í Hveragerði og óvíst hvort henni verði haldið áfram
Fyrir rúmum tveimur árum var gerður nýr þjónustusamningur við Heilsustofnunina í Hveragerði. Skömmu síðar var upplýst um rekstrarkostnað sem vakti upp spurningar. Ráðist var í úttekt á starfseminni í kjölfarið. Hún hefur engu skilað.
Kjarninn 17. júní 2021
Eimskip viðurkennir brot sín og greiðir einn og hálfan milljarð í sekt.
Eimskip viðurkennir alvarleg samkeppnislagabrot og fær 1,5 milljarða sekt
Eimskip hefur viðurkennt að hafa viðhaft ólögmætt samráð við Samskip árum saman og greiðir 1,5 milljarð króna í sekt vegna máls sem hefur verið til rannsóknar frá 2013. Samskip eru enn til rannsóknar hjá Samkeppniseftirlitinu.
Kjarninn 16. júní 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar