Fyrir ekki svo mörgum árum fórum við fram úr okkur. Á mesta þenslutímabili í sögu þjóðarinnar ákváðum við að lækka skatta og ráðast í fordæmalausar virkjunarframkvæmdir við Kárahnjúka. Afleiðingin var ofþensla. Íslenska vélin var keyrð af meiri ofsa en hún gat staðið undir með þeim afleiðingum að hún ofhitnaði og bræddi nánast úr sér. Á sama tíma eyddu Íslendingar miklu meira en þeir sköpuðu, aðallega í formi prentaðra peninga sem engin verðmætasköpun stóð á bakvið.
Þetta var á árunum fyrir allherjarhrunið sem er einstakt á heimsvísu.
Þetta hljómar eins og tónlist, en hún er vond
Síðustu ár hafa verið tiltektar- og aðlögunarár. Kaupmáttur hefur rýrnað og íbúar landsins hafa getað leyft sér minna en á partí-árunum. Þ.e. flest fólk, því sumir hafa náttúrulega hagnast ævintýralega á sama ástandi. Og það hefur leitt af sér ríka tilfinningu ójöfnuðar og misskiptingar.
Í þeim tíðaranda fórum við inn í hörðustu kjaradeilur í áratugi. Niðurstöður þeirra, eftir stórkallalegar verkfallsboðanir sem hefðu lamað atvinnulífið og sett velferðarkerfið á hliðina, eru tugprósenta launahækkanir sem stór hluti atvinnulífsins hefur ekki efni á, og risavaxnar skatta- og tollalækkanir sem auka ráðstöfunartekur um 65 prósent fullvinnandi launamanna um meira en 50 þúsund krónur á ári.
Auðvitað hljómar þetta allt eins og tónlist í eyrum launamannsins. Fleiri krónur í veskið til að eyða í lífsbaráttuna eða lífsgæðakapphlaupið.
Auðvitað hljómar þetta allt eins og tónlist í eyrum launamannsins. Fleiri krónur í veskið til að eyða í lífsbaráttuna eða lífsgæðakapphlaupið.
Vandamálið við þessar risavöxnu aðgerðir er hins vegar það að kaupmáttaraukningin er ekki sjálfbær. Þ.e. hún verður ekki til vegna þess að við búum til meiri verðmæti sem þjóð. Afleiðing slíkrar kaupmáttaraukningar, sem gera verður ráð fyrir að þjóðin muni eyða í neyslu í stað þess að spara, eru óumflýjanlega stóraukin verðbólga, hærri stýrivextir og lakari viðskiptajöfnuður við útlönd. Þannig bítur aðgerðin fast í skottið á sér.
Eytt um efni fram
Þegar litið er á þær aðgerðir sem ríkisstjórnin kynnti í dag, og þær skoðaðar í samhengi við boðaðar launahækkanir kjarasamninga, og framleiðslu þjóðarbúsins, þá fallast manni eiginlega hendur. Þjóðarbúið hefur ekki efni á henni og stór hluti aðgerðanna vinnur beinleiðis gegn því að viðskiptajöfnuður okkar verði jákvæður.
Tugprósenta launahækkanir munu óhjákvæmilega hafa tvenns konar áhrif hjá mörgum fyrirtækjum: annað hvort verða þær leiddar út í verðlag eða þær leiða til uppsagna. Auðvitað eru sumir geirar sem hafa vel efni á því að borga launafólki sínu meira en eigendum sínum minna, t.d. í smásölu á matvöru og eldsneyti eða í sjávarútvegi. En t.d. í mörgum þjónustufyrirtækjum eru svona hækkanir mjög erfiðar viðureignar.
Skattalækkanirnar sem eru boðaðar leiða til þess að fólk kaupir sér hluti, t.d. bíla eða raftæki, sem eru innflutt. Niðurfelling á tollum á skó og fatnað leiðir til þess að meira verður flutt inn af skóm og fötum. Bæði atriðin veikja viðskiptajöfnuð.
Sú hugmynd að byggja 2.300 félagslegar íbúðir til að reyna að leysa húsnæðiskrísuna hljómar vel á pappír. En þegar hún er sett í samhengi við þá sturlun sem er þegar að eiga sér stað í byggingariðnaði á Íslandi byggingu tuga hótela, þúsundir íbúða sem eru í uppbyggingu í Reykjavík og hundruð lúxusíbúða sem einungis hátekjufólk og erfingjar auðs geta keypt sér, þá er hugmyndin afleit.
Sú hugmynd að byggja 2.300 félagslegar íbúðir til að reyna að leysa húsnæðiskrísuna hljómar vel á pappír. En þegar hún er sett í samhengi við þá sturlun sem er þegar að eiga sér stað í byggingariðnaði á Íslandi byggingu tuga hótela, þúsundir íbúða sem eru í uppbyggingu í Reykjavík og hundruð lúxusíbúða sem einungis hátekjufólk og erfingjar auðs geta keypt sér, þá er hugmyndin afleit.
Þegar er byrjað að flytja inn erlent vinnuafl í kippum, líkt og var gert á uppgangsárunum fyrir hrun. Ástæðan er einfaldlega sú að íslenska iðnaðarmenn skortir og íslenskir byggingaverkamenn eru að deyja út sem tegund. Þorri þess byggingarefnis sem þarf í allar þessar framkvæmdir er innfluttur, og þensla í byggingaiðnaði hefur þar af leiðandi neikvæð áhrif á viðskiptajöfnuð, þótt sumar byggingarnar, eins og hótel, skili auðvitað auknum verðmætum í útflutri þjónustustarfsemi.
Ofan á allt þetta er, hálft í hvoru, búið að lofa að byggja risavaxið hátæknisjúkrahús og, ef Jón Gunnarsson fær að ráða, nokkrar virkjanir í viðbót. Þetta hljómar allt dálítið eins og staðan á árinu 2005, sem leiddi síðar til atburðanna haustið 2008, mínus bankabíóið.
Ekki nógu mikil framleiðni
Það skal koma skýrt fram að sá sem þetta skrifar er ekki andstæður lágum sköttum, afnámi vörugjalda og tolla eða stuðningi ríkisins við lágtekjuhópa í samfélaginu. Hann er mjög fylgjandi því að laun og kaupmáttur sem flestra hækki sem fyrst. Allar aðgerðir verða hins vegar að ráðast af umhverfi og aðstæðum hverju sinni. Hvorki umhverfi né aðstæður eru fyrir hendi í dag.
Vandamál Íslands er í raun mjög einfalt. Framleiðnin er ekki nægilega mikil. Við vinnum mikið en það kemur ekki nægilega mikið út úr því, í alþjóðlegum samanburði. Við erum mjög góð í framleiðslu sjávarafurða en þar strandar sáttin á því að nokkrar útgerðarfjölskyldur hirða þorra arðseminar af þjóðarauðlindinni og kaupa til sín áhrif og völd á öðrum sviðum fyrir afraksturinn.
Við eigum fullt af sjálfbærri orku en hún er að mestu bundin í orkusölusamningum til áratuga með endurnýjunarákvæðum við álbræðslur sem borga kannski fjórðung af því sem hægt væri að fá fyrir orkuna með sölu í gegnum sæstreng.
Landið er troðfullt af ferðamönnum en okkur skortir bæði langtímaplan um hvernig við eigum að nýta okkur þá auðlind og skammtímaplan yfir því hvernig við eigum að byggja upp arðbæra þjónustu vegna þeirra. Við erum að fjárfesta í „hardware-inu“, flugvélum og hótelum, en okkur skortir að fjárfesta í „software-inu“, því sem túristarnir eiga að gera hérna utan þess að góna á náttúru. Þeir koma nefnilega ekki hingað til að sitja í málmhólkum eða til að sofa í steypuklumpum.
Gera hlutina aftur og vonast eftir nýrri niðurstöðu
Árið 2012 gerði ráðgjafarfyrirtækið McKinsey skýrslu um Ísland og vaxtamöguleika þess. Í kjölfarið var búinn til samráðsvettvangur stjórnmála, aðila vinnumarkaðarins, atvinnulífs og háskóla sem átti að vinna tillögur, og koma sér saman um leiðir, til að ná langtímamarkmiðum um aukinn vöxt.
Í skýrslunni kom meðal annars var að Ísland hafi lengi vel verið á meðal 20 ríkustu landa heims undanfarna áratugi. Við höfum hins vegar fallið af þeim lista samhliða því að lönd sem gert hafa langtímaáætlanir í efnahagsmálum hafa klifið hann hratt. Raunvöxtur hér hefur nefnilega verið minni en í nágrannalöndum okkar síðastliðna áratugi þrátt fyrir allar auðlindirnar sem við eigum. Ástæðan er meðal annars talin sú að við einblinum á vöxt í einum geira í einu.; í sjávarútvegi á níunda áratugnum, í orkufrekum iðnaði á þeim tíunda, fjármálageiranum eftir aldamótin og ferðaþjónustu nú. Framleiðni vinnuafls hér á landi var auk þess 20 prósent minni en í helstu nágrannalöndunum. McKinsey-liðar töldu hins vegar að mikil tækifæri væru til þess að auka framleiðni og verðmætasköpun í hagkerfinu með heilstæðum vaxtaráætlunum um aukna hagsæld til langs tíma. Til þess að ná slíkum markmiðum þyrfti að skapa víðtæka samstöðu um vaxtar- og framþróun næstu ára.
Þessum áætlunum hefur nú verið hent og samráðsvettvangurinn aflagður. Þess í stað á að gera hlutina aftur eins og þeir hafa alltaf verið gerðir og vona að þeir skili annarra niðurstöðu núna en síðast. En niðurstaðan verður alltaf verðbólga og vesen. Í versta falli önnur stórkostleg efnahagsleg dýfa. Á fagmáli er örugglega til eitthvað annað og dýpra heiti en heimska yfir slíka hegðun, en mér dettur ekkert annað í hug í augnablikinu.