Landsfundur Sjálfstæðisflokksins fer fram 23-25. október næstkomandi. Áhugafólk um stjórnmál mun fylgjast með honum af miklum áhuga, enda staða flokksins í skoðanakönnunum um þessar mundir afar slök. Fylgið mælist einungis 21,6 prósent, sem er með því lægsta sem það hefur mælst í sögunni.
Mest spenna er fyrir kjöri varaformanns sem fram fer síðdegis sunnudaginn 25. október, skömmu áður en fundinum verður slitið.
Ljóst er að sitjandi varaformaður, Hanna Birna Kristjánsdóttir, mun eiga á brattann að sækja. Hún hefur gefið það út að hún sækist eftir endurkjöri „að óbreyttu“ en hefur ekki viljað skýra nánar hvað það þýðir. Nokkuð líklegt þykir að Hanna Birna muni fá slaka kosningu verði hún ein í framboði enda staða hennar innan flokksins, og utan hans, beðið mikla hnekki í kjölfar lekamálsins. Undanfarið hafa verið sagðar fréttir af því að hart sé lagt að Hönnu Birnu að hætta við framboðið innan flokksins.
Pólitískir andstæðingar virðast hins vegar margir vonast til að Hanna Birna verði áfram í forystusveit Sjálfstæðisflokksins vegna þess að þeir telji að það vinni með þeim, og á móti Sjálfstæðisflokknum.
Í bakherbergjunum er mikið skrafað um hver geti boðið sig fram gegn Hönnu Birnu. Athygli hefur vakið að alþingismaðurinn Guðlaugur Þór Þórðarson, ætlar sér að fara víða næstu daga og funda með flokksmönnum. Á tveggja vikna tímabili, frá 23. september til 7. október tekur hann þátt í alls átta fundum um allskyns málefni í sjö mismunandi bæjarfélögum. Telja ýmsir að Guðlaugur Þór sé að kanna jarðveginn fyrir varaformannsframboði á þessum fundum.
Ýmislegt vinnur þó gegn Guðlaugi Þór á þeirri metnaðarfullu vegferð. Í fyrsta lagi er áhrifamikill hópur innan flokksins, sem hverfist í kringum Davíð Oddsson , enn ekki búinn að gleyma því þegar Guðlaugur Þór vann prófkjörsslag við Björn Bjarnason árið 2006. Fyrir það prófkjör fékk hann alls 24,8 milljónir króna í styrki og fyrirtæki tengd Baugs-klíkunni styrktu hann mest. Baugur, Fons og FL Group létu Guðlaugi Þór í té tvær milljónir hvert.
Þá situr aðkoma Guðlaugs Þórs að styrkjamálinu svokallaða, sem kom upp tveimur vikum fyrir alþingiskosningarnar 2009, einnig mjög í ýmsum flokksmönnum. Það mál snérist um að Guðlaugur Þór hafði í lok árs 2006 milligöngu um 30 milljón króna styrk frá FL Group og 25 milljón króna styrk frá Landsbankanum til Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn tilkynnti í kjölfarið að hann ætlaði sér að endurgreiða styrkina. Hann hefur hins vegar ekki viljað gefa upp hversu mikið flokkurinn sé búinn að endurgreiða af þeim.
Að síðustu er Guðlaugur Þór karl, og nokkuð einsýnt þykir að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi sterka konu í forystusveit sinni eigi hann að hrista af sér þá ímynd að flokkurinn sé fyrst og fremst flokkur fyrir íhaldsama ríka, gamla karla.
Því þykir mörgum Sjálfstæðismönnum innanríkisráðherrann Ólöf Nordal vera betri kostur í varaformannsembættið. Ólöf nýtur virðingar innan flokksins og á auk þess marga aðdáendur utan hans. Skemmst er að minnast þess að Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði i viðtali við Viðskiptablaðið að honum þætti Ólöf „frábær ráðherra“.
Síðustu daga hafa ýmsir skorað á Ólöfu að bjóða sig fram. Sjálfstæðismenn á Seltjarnarnesi riðu á vaðið í gær, tíu núverandi og fyrrverandi forystumenn innan Sjálfstæðisflokksins víðs vegar af landinu fylgdu í kjölfarið og loks var skorað á hana á hádegisfundi Samtaka eldri sjálfstæðismanna, sem fram fór í dag í höfuðstöðvum Sjálfstæðisflokksins í Valhöll.
Sjálf hefur Ólöf neitað að tjá sig um áskoranirnar á hana. Spámenn bakherbergisins eru þó á þeirri skoðun að einsýnt sé að Ólöf muni á endanum taka slaginn. Aðrir kostir í stöðunni séu einfaldlega ekki í boði fyrir flokkinn í þeirri sögulegu lægð sem hann er í um þessar mundir.