Nú glittir í skref í átt að losun hafta með framlagningu vitrænna lausna um hvernig eigi að taka á aflandskrónuvandanum með hagsmuni Íslands kyrfilega í forgrunni. Höftin hafa verið í gildi á sjöunda ár og valda ótrúlegri skekkju í efnahagslífinu, kosta atvinnulífið um 80 milljarða króna á ári og auka ójöfnuð með því að bjóða sumum upp á tækifæri til að hagnast á þeim á meðan að aðrir líða fyrir.
Það hefur blasað við mjög lengi að það þurfi að losa um þann vanda sem fylgir krónueignum slitabúa föllnu bankanna (ca. 980 milljarðar króna), snjóhengjuna svokölluðu (ca. 235 milljarða króna) og setja einhvers konar hömlur á það útflæði innlendra aðila sem gæti farið út úr íslensku hagkerfi við losun hafta (mögulega um 500 milljarðar króna að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins).
Ísland á rúmlega 60 milljarða króna í óskuldsettan gjaldeyrisvaraforða. Það sér því hver maður að það er ógjörningur fyrir Ísland að ætla að skipta rúmum 1.700 milljörðum króna í gjaldeyri. Þá myndi krónan hríðfalla og íslenskur almenningur sæti enn einu sinni eftir með hörmulegar afleiðingarnar.
Þess vegna þarf að finna lausn sem tryggir að Ísland þurfi ekki að skuldsetja sig eða fella gengið til að losa um krónueignirnar og setji stöðugleika hérlendis í fyrsta sæti.
Málið loks í forgang
Það má hrósa sitjandi ríkisstjórn fyrir að setja losun hafta í þann forgang sem málið hefur haft hjá henni. Þetta er langstærsta mál íslensks samtíma og á skilið að vera sett á oddinn. Þar hefði málið líka átt að vera hjá síðustu ríkisstjórn en hún ákvað frekar að dreifa kröftum í mörg samfélagsbreytandi mál. Sundurlyndið sem einkenndi þá ríkisstjórn gerði það að verkum að fæst þeirra mála komust yfir línuna og þegar hún ætlaði loks að fara af fullum krafti í haftamálin var ríkisstjórnin bæði runnin út á tíma og orðin allt of veikburða.
Lengi vel virtist umræða um leiðir í þessum málum snúast um tvennt: annars vegar svokallaða nauðasamningsleið og hins vegar svokallaða gjaldþrotaleið. Nauðasamningsleiðin snérist í einföldu máli um að semja við slitabú föllnu bankanna og eigendur aflandskróna um að gefa eftir hluta eigna sinna og binda aðrar í langan tíma innan íslensks hagkerfis til að losun hafta myndi ekki hafa í för með sér gjaldeyrisójöfnuð og ógna stöðugleika.
Gjaldþrotaleiðin snérist um að knýja slitabúin í þrot gegn vilja kröfuhafa þeirra og láta þá skila öllum erlendum eignum slitabúanna til Seðlabankans og borga allar kröfur út í íslenskum krónum. Þannig átti að komast yfir mikið magn gjaldeyris, og græða „böns of monní“.
Gjaldþrotaleiðin snérist um að knýja slitabúin í þrot gegn vilja kröfuhafa þeirra og láta þá skila öllum erlendum eignum slitabúanna til Seðlabankans og borga allar kröfur út í íslenskum krónum. Þannig átti að komast yfir mikið magn gjaldeyris, og græða „böns of monní“.
Mjög deildar meiningar voru um lögmæti gjaldþrotaleiðarinnar. Og margir voru á þeirri skoðun að henni myndu fylgja áralöng málaferli sem myndu hafa í för með sér að sjálft aðalmarkmiðið, að losa höft, myndi þurfa að bíða á meðan.
Stefnubreyting með nýjum ráðgjöfum
Síðasta sumar varð stefnubreyting þegar Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, tilkynnti að samið hefði verið við ýmsa ráðgjafa vegna losunar fjármagnshafta. Myndaður var nýr framkvæmdahópur um haftalosun og lögð sú lína að höft yrðu einungis losuð ef þjóðhagsleg skilyrði um stöðugleika yrðu uppfyllt.
Frá þeim tíma hafa helstu talsmenn gjaldþrotaleiðarinnar, sem hefur alla tíð notið mikilla vinsælda í ákveðnum kreðsum í kringum Framsóknarflokkinn, týnst úr haftaafnámshópnum og allar opinberar yfirlýsingar breyst í að markmið tillagna um losun hafta sé ekki að græða pening, heldur verja stöðugleika. Þessi lína er vitanlega í fullum takti við þær áætlanir sem Seðlabanki Íslands hefur mótað og unnið eftir bakvið tjöldin frá árinu 2011.
Síðast var þetta ítrekað í greinargerð Bjarna til Alþingis um framgang losun hafta sem birt var fyrir mánuði síðan. Málið virtist í góðum og skipulögðum farvegi.
Orðum fylgir ábyrgð
Það skiptir miklu máli hvernig ráðamenn tala um haftamál út á við. Það er augljóst að erlendir kröfuhafar þurfa að gefa eftir töluvert af krónueignum sínum, ef ekki allar, til að geta slitið búum föllnu bankanna. Það hefur blasað við lengi og þær sviðsmyndir kröfuhafanna sem lekið hafa til fjölmiðla sýna að þeir meðtaka þennan skilning, þótt þeir muni auðvitað reyna allt sem þeir geta til að fá sem mest út úr slitunum. Þannig virkar kapitalisminn.
Seðlabankinn hefur lengi unnið með hugmyndir um að leggja á einhverskonar útgönguskatt (e. exit-tax) sem geri það að verkum að kröfuhafar gefi eftir hluta eigna sinna gegn því að fá restina til ráðstöfunar. Á síðustu mánuðum hefur þessi hugmynd augljóslega verið að þróast í verkfæri sem beita á við losun hafta síðar á þessu ári. Hluti af þeirri áætlun var að nefna skattinn stöðugleikaskatt, til að undirstrika að ekki sé um lottóvinningaleið að ræða. Með því aukast allar líkur á að aðferðin gangi upp lagalega gagnvart alþjóðasamfélaginu og njóti jafnvel stuðnings bákna eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það myndi styrka stöðu Íslands mjög.
Þess vegna varð allt vitlaust þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra ákvað að nota tækifærið í yfirlitsræðu á flokksþingi Framsóknarflokksins til að nefna stöðugleikaskatt í fyrsta sinn á opinberum vettvangi, og segja að hann myndi skila hundruðum milljarða króna.
Annað hvort ertu með okkur, eða á móti Íslandi
Sama hversu mikið menn reyna að láta líta út fyrir að allir gangi í takt í ríkisstjórninni út á við þá er morgunljóst að það varð allt vitlaust innan þess hóps í kringum Bjarna Benediktsson sem kemur að áætlunargerð um losun hafta þegar Sigmundur sagði þessa hluti í ræðu sinni. Ræðan olli skaða og ekkert samráð var haft við samstarfsflokkinn um innihald hennar. Tilgangur Sigmundar var augljóslega til pólitísks heimabrúks, að undirstrika að hann væri hinn sterki leiðtogi flokksins sem stæði einn gegn landráðum og óbilgirni vondra útlendinga.
Tilgangur Sigmundar var augljóslega til pólitísks heimabrúks, að undirstrika að hann væri hinn sterki leiðtogi flokksins sem stæði einn gegn landráðum og óbilgirni vondra útlendinga.
Það gagnast Sigmundi mjög vel að stilla stöðunni upp þannig að hann, og flokkur hans, séu talsmenn íslenskra hagsmuna en allir aðrir séu að ganga erinda andstæðinga þeirra, og séu jafnvel landráðamenn. Þess vegna fylgdi löng upptalning um leyniskýrslur og þjónkun alls kyns afla við kröfuhafa með í ræðu forsætisráðherrans. Hann var að stilla málunum upp í „við“ og „þið“. Annað hvort er fólk á línu hans eða það er með óvininum í liði og á móti Íslandi.
Þessi leið hefur gagnast Sigmundi ákaflega vel á stuttum pólitískum ferli forsætisráðherrans, sem er að mörgu leyti mjög slyngur stjórnmálamaður. Honum tókst að gera sig að einu von skuldsettra íslenskra heimila fyrir síðustu kosningar og að holdgervingi sigurs í Icesave-málinu með svipaðri aðferðarfræði.
Að nota Icesave sem pólitískt verkfæri
Raunar mætti kenna aðferðarfræðina við Icesave. Það eru 811 dagar síðan að EFTA-dómstólinn komst að þeirri niðurstöðu að Ísland hefði unnið sigur í Icesave-málinu. Niðurstöðu sem allir fagna og allir eru í fullum rétti að fagna. Síðan þessi niðurstaða fékkst, og málinu lauk formlega, hefur orðið Icesave birst í 1.228 fréttum eða greinum í íslenskum fjölmiðlum. Það þýðir að minnst hefur verið á Icesave 1,5 sinnum á dag á hverjum einasta degi frá því að dómur féll. Í síðustu viku kom Icesave tvívegis fram í fréttum eða greinum, fyrst í viðtali við Sigmund og síðar í grein eftir Guðna Ágústsson, fyrrum formann Framsóknarflokksins.
Icesave-málið hefur öðlast nýtt líf sem pólitískt verkfæri þeirra sem eigna sér sigurinn í málinu. Þeir beita því annars vegar til að slá sig til frelsisriddara og hins vegar til að berja á andstæðingum sínum sem þeir segja hafa annarlega hagsmuni að leiðarljósi. Til að draga línuna á milli „okkar“ og „ykkur“.
Sigmundur minntist tvívegis á Icesave í ræðunni á flokksþingi. Í seinni tilvitnuninni sagði hann að það hafi á einum tímapunkti munað litlu að fyrri stjórnvöld „spiluðu frá sér stöðunni gagnvart kröfuhöfum bankanna vegna sama hugarfars og réði för í Icesave-málinu.“ Hann var að Icesave-væða haftamálið.
Fylgið okkur í blindni
Þótt Sigmundur hafi þurft að koma fram í fjölmiðlum skömmu síðar og undirstrika að stöðugleikaskattur sé ekki ætlaður til að fjármagna framkvæmdir eða auka útgjöld, og sé þar af leiðandi ekki eignaupptaka heldur eignaskattur til að verja stöðugleika, er alveg kýrskýrt hver ætlun hans var með ræðunni frægu. Hann ætlaði að eigna sér haftalosunina pólitískt og búa til víglínu í málinu.
Hann ætlaði að eigna sér haftalosunina pólitískt og búa til víglínu í málinu.
Þessi lína kristallaðist ágætlega í orðum Karl Garðarssonar, þingmanns Framsóknarflokksins, í vikunni þegar hann velti því fyrir sér hvaða erinda stjórnarandstöðuþingmenn gengju í haftalosunarmálum vegna þess að þeir gagnrýndu framgöngu forsætisráðherra. Í ræðu á Alþingi velti Karl fyrir sér hvaða erinda stjórnarandstöðuþingmenn væru að ganga í málinu og sagði að þjóðin ætti kröfu á að vita hver "afstaða einstakra stjórnarandstöðuþingmanna er til afnáms hafta. Þetta er vitneskja sem verður að liggja fyrir til að menn geti tekið upplýsta ákvörðun fyrir næstu kosningar.“
Það er vert að taka fram að stjórnarandstaðan hefur ekki verið upplýst um útfærslu stöðugleikaskatts og getur því ekki tekið afstöðu til hans að öðru leyti en út frá því sem skrifað hefur verið um hann í fjölmiðlum. Samt er hún nánast máluð sem landráðafylking ef hún hópast ekki að baki forsætisráðherra. Strax.
Lykillinn er samstaða
Losun hafta og frágangur slitabúa föllnu bankanna er mikilvægasta verkefni samtímans. Ísland getur ekki haldið óhindrað áfram fyrr en þetta krabbamein fortíðar er skorið í burtu. Nú liggur fyrir sú leið sem á að fara og næsta eðilega skref ætti að vera að mynda eins breiða samstöðu um hana og mögulegt er. Það er gert með því að upplýsa stjórnarþingmenn, stjórnarandstöðuna, hagsmunasamtök í atvinnulífinu og auðvitað almenning sjálfan um stöðuna og markmiðin svo allir geti tekið rökstudda og upplýsta ákvörðun byggða á staðreyndum um málið.
Það þjónar hagsmunum okkar sem þjóðar að standa saman um losun hafta. Og þeir hagsmunir eiga að vera settir ofar en þeir pólitísku hagsmunir sem sumir hafa af því að eigna sér málið og þau tækifæri sem þeir sjá i því til að berja á allskyns raunverulegum og ímynduðum óvinum.