Árið 2022 leiddi í ljós eðli breytinga sem eru að móta heiminn og um leið þá þungu strauma sem þær knýja. Það einkenndist líka af örlagaríkum viðbrögðum við þessum umbrotum sem ekki var alltaf auðvelt að sjá fyrir. Þótt heimsvæðing viðskipta hafi stöðvast í bili og snúist við í mikilvægum greinum og þótt pólitísk átök snúist æ meira um opnun eða lokun ríkja hefur heimurinn aldrei verið samtengdari í pólitísku og menningarlegu tilliti.
Vesturlönd eru ennþá til
Ein þversögn ársins var sú að um leið og alþjóðakerfið undir hugmyndalegri forustu Vesturlanda virtist á hverfanda hveli reyndust varnir þeirra sjálfra og samstaða innan þeirra sterkari og meiri en flestir höfðu gert ráð fyrir. Á valdatíma Trumps virtist sem Vesturlönd væru tæpast lengur til sem samstætt fyrirbæri, svo djúp var gjáin orðin á milli Bandaríkjanna og Evrópu. Gjáin hefur verið að dýpka og breikka í áratugi og mun sjálfsagt gera það áfram en almenn samstaða reyndist þó fyrir hendi um viðbrögð við atlögu að sjálfu alþjóðakerfinu. Vesturlönd snerust saman til víðtækra, hnattrænna og áhrifamikilla varna við innrás Rússa í Úkraínu.
Saman en sér á parti
Um leið varð sérstaða þeirra, og sumpart einangrun, í heiminum ljósari en áður. Heimurinn utan Vesturlanda og helstu bandalagsríkja þeirra í Asíu sat að mestu hjá nema í þýðingarlitlum atkvæðagreiðslum hjá Sameinuðu þjóðunum. Ein af mörgum ástæðum fyrir þessu er sú að framganga leiðandi ríkja Vestursins í Mið-Austurlöndum og víðar hefur á síðustu árum rúið þau trausti og siðferðilegum styrk. Miklu fleira kemur þarna til, alls kyns hagsmunir og gömul og ný saga, en krafa Vesturlanda um siðferðilega forustu sér til handa í alþjóðakerfinu er ekki lengur tekin mjög alvarlega utan þeirra sjálfra.
Vestrið snýst til varnar
Það var gefið að Úkraína myndi fá umtalsverðan stuðning frá vestrænum ríkjum en umfang viðbragðanna og samhæfing þeirra kom flestum á óvart. Hetjuleg barátta Úkraínumanna sjálfra breytti mikilvægum dráttum í heimsmynd margra Evrópumanna. Ákvörðun Þjóðverja um að gera þýska herinn að einum best búna og dýrasta her heimsins var mikil breyting fyrir Evrópu. Stækkun Nató til norðurs var það líka.
Öðruvísi ógn
Ógnir við alþjóðakerfið hafa síðustu áratugi oft sýnst óljósar að þýðingu og umdeilanlegar að eðli. Viðbrögð forusturíkja Vesturlanda hafa líka stundum verið eitruð blanda af hroka, sérhagsmunum og vanþekkingu. En nú var ógnin ekki fjarlæg, óljós eða stórlega umdeild. Hún snerist um framtíð frjálsrar Evrópu og um alþjóðakerfið sjálft.
Rétt er að muna að Pútín hafði gildar ástæður til að ætla að Vesturlönd væru orðin ófær um að snúast af afli til varnar. Stjórnmál þeirra hafa öldungis ekki einkennst af innri styrk það sem af er þessari öld, heldur af innri ógnum við eigin prinsipp.
Einfaldur grunnur flókins kerfis
Alþjóðakerfið sem tók að þroskast eftir skelfingar tveggja heimsstyrjalda byggir á fáeinum einföldum hugmyndum: Viðurkennd landamæri skulu virt og ríki skuli fullvalda innan þeirra. Mannkynið er hins vegar eitt og ábyrgðin á friði og grunnréttindum fólks er því almenn og örlög manna samtvinnuð. Samskipti og viðskipti yfir landamæri eiga að vera sem frjálsust.
Fullveldi ríkja og hugmyndin um eitt mannkyn og almenn réttindi allra manna stangast á. Þar er að finna rót spennu í samtímanum. Sögulega óx kerfið úr vestrænum veruleika, hugmyndum og hagsmunum en við höfum talið lengi að gildin séu almenn og að þau eigi alls staðar við, Þau eru líka staðfest með þúsundum alþjóðlegra stofnana, samninga og laga. Gagnrýnin í kringum fótboltamótið í Qatar er dæmi um þessa hugsun. Okkur kemur þetta við því mannkynið er eitt. Tilfinningar okkar fyrir réttindum kvenna í Íran, fyrir málfrelsi í Rússlandi, rétti fólks til lands og lífs í Palestínu og hjálp við flóttamenn í Evrópu eru önnur dæmi.
Þetta vegur hins vegar að fullveldi ríkja. Þau geta ekki, jafnvel innan eigin landamæra, aðhafst það sem þeim sýnist. Kerfið er til staðar í þúsund myndum þótt gildi þess séu ekki alltaf virt, stundum ekki af Vesturlöndum sjálfum. Og allt er þetta viðkvæmt. Að þessu er sótt úr öllum áttum og einnig innan frá í þeim ríkjum sem lengst hafa náð. Árið sem er að líða var samhangandi saga þessara átaka.
Fortíðin kom til Evrópu
Það var eins og skelfing fortíðar kæmi í heimsókn til Evrópu þegar rússneskur her réðist inn í Úkraínu með hamslausu ofbeldi og í einkar frumstæðum tilgangi. Stjórnmál Evrópu hafa í meira en mannsaldur byggst á þeirri trú að hvað sem segja megi um heiminn utan okkar álfu þá sé Evrópa vaxin upp úr grimmum og vægðarlausum veruleika árþúsundanna sem á undan fóru. Kynslóðir hafa vanist hugmyndinni. Evrópusambandið snýst beinlínis um þessa hugsun.
Stórir sigrar
Við höfum trúað því lengi að sífellt þéttara alþjóðakerfi á öllum sviðum mannlegrar viðleitni sé smám saman að friða heiminn og auka veg lýðræðis, jafnréttis og mannréttinda. Jafnrétti hefur líka stórkostlega aukist í heiminum, ekki síst jafnrétti kynja og minnihlutahópa. Jafnvel valdstjórnarríki þykjast líka núorðið virða lýðræði og mannréttindi frekar en að hafna þessu sem vondum vestrænum hugmyndum.
Opnari viðskipti í heiminum hafa líka á síðustu áratugum bætt hag fátækra landa. Skárri staða milljarða jarðarbúa er ein allra stærsta saga síðustu áratuga þótt hún fari stundum undarlega hljótt. Covid setti strik í þann reikning en það er pólitík sem ógnar áframhaldandi árangri. Og ógnin er raunveruleg. Hún snýst um lokun landa frá alþjóðlegum straumum og opnum viðskiptum, skort á sameiginlegri ábyrgð og um möguleika valdamanna til að kúga almenning í nafni heimatilbúins veruleika.
En af hverju ættum við að ráða?
Árið sem við mennirnir urðum 8 milljarðar minnti líka á að heimurinn mótast sífellt minna af Vesturlöndum. Nær 60% okkar búa nú í Asíu, fimmtungur í Afríku og lítið meira en 10% á öllum Vesturlöndum. Af hverju ættum við og okkar hugmyndir að ráða? Um það spyrja menn víða og eðlilega. Ungt og vel menntað fólk um allar jarðir hrífst hins vegar í vaxandi mæli af þeirri hugsun að mannkynið sé eitt og að lýðræði, jafnrétti og mannréttindi séu hið sjálfsagða og eðlilega ástand.
En það er auðvitað Kína sem mun vaxa mest að valdi og áhrifum. Í krafti mannfjölda, efnahagslegs uppgangs og pólitískra breytinga munu líka lönd eins og Indland, Tyrkland, Indónesía, Víetnam, Nígería, Brasilía, Mexíkó, Suður Afríka, Íran, Sáúdí Arabía, Marokkó og Suður Kórea, svo fáein lönd séu nefnd, fá verulega aukið vægi í pólitík, efnahag og menningu heimsins á næstu árum.
Tvennt skiptir mestu máli fyrir Vesturlönd í því samhengi. Annað er að hnattræn andúð á hroka og hræsni Vesturlanda minnki frekar en aukist. Og svo hitt að Vesturlönd nái að byggja upp samvinnu við nokkur lykilríki á öðrum heimssvæðum.
Tyrkland
Á árinu styrkti Tyrkland mjög stöðu sína sem stórveldi. Þetta var í krafti legu landsins, stærðar þess, efnahagslegs styrks, sem raunar var ógnað á árinu, og vegna vilja til afskipta á stóru svæði frá Balkanskaga til Afríku, Mið-Austurlanda og Mið-Asíu. Tyrkir hafa lagt undir sig landsvæði í Sýrlandi og eru í lykilhlutverk í stríðinu þar. Þeir eiga líka í hernaði í Líbýu og í Írak og hafa stutt Azerbajan í blóðugum átökum landsins við Armeníu. Tyrkland leikur líka stórt hlutverk við Svartahaf vegna stríðsins í Úkraínu og hefur eitt ríkja getað leitt saman Rússland og Úkraínu til takmarkaðra samninga. Tyrkir hafa vaxandi fyrirferð í nokkrum ríkjum Afríku og verða að teljast eitt tiltölulega fárra ríkja sem hafa veruleg áhrif langt út fyrir landamæri sín.
Erfið lykilríki
Tyrkir eiga hins vegar stór óuppgerð pólitísk vandamál heima fyrir. Það sama má segja um mörg þeirra ríkja sem mest vaxa að áhrifum þessi árin. Vesturlönd standa hér frammi fyrir erfiðu vali. Ef byggja á samvinnu á vestrænum hugmyndum um lýðræði og mannréttindi verður hópurinn þröngur. Stækkun hópsins með stuðningi við einræðisöfl sem halda lokinu á pottinum heima fyrir hefur reynst vægast sagt illa og skilur eftir sig skelfilega arfleifð og eyðileggingu á orðspori Vesturlanda.
Í heimi valdsins
Árið gaf okkur stóra lexíu um eðli valds í alþjóðamálum. Þótt Kína beitti ekki valdi sínu á árinu leiddu atburðir þess vel í ljós að Kína er orðið stórveldi við hlið Bandaríkjanna. Gerræði og hrakfarir Pútíns urðu til þess að draumur hans sjálfs um Rússland sem annað helsta stórveldi heimsins er að engu orðinn. Kína er nú án keppinautar um annað sætið í heimi valdsins.
Kína vildi ekki þetta stríð en mun líklega hagnast á því þótt Kínverjar harmi mjög þann aukna styrk sem stríð Pútíns hefur gefið Vesturlöndum. Kína kaus að veita Pútín ákveðið skjól en ekki beina aðstoð, og skilningsríkt aðhald frekar en hvatningu. Ef kínverska stjórnin hefði ákveðið að styðja Rússland fullum fetum hefði blasað við önnur mynd, bæði í stríðinu sjálfu, og á alþjóðavettvangi. Þetta sér fólk. Af því spretta völd og áhrif.
Rússland í skjóli Kína
Kínverjar eiga nú nánast alls kostar við Rússland. Þeir fá ekki aðeins olíu með stórum afslætti, hráefni að vild og eftirspurn eftir kínverskri tæknivöru, heldur stendur Rússland nú berskjaldað án pólitískrar verndar sem Kínverjar ráða hvort þeir veita. Það sem gerir þessa stöðu enn alvarlegri fyrir Rússa, og enn hagstæðari fyrir Kína, er að vald Rússa yfir Mið-Asíu hefur minnkað og ráðamenn ríkja þar snúa sér í auknum mæli til Kína. Þannig verður þetta þar til umskipti verða í valdakerfi Rússlands. Martröð Kínverja er að til valda í Moskvu komi fólk sem vill snúa við stefnu Rússlands og opna til vesturs.
Sterkari staða Kína
Kína hefur oft verið undarlega frumkvæðislítið í alþjóðamálum og stundum furðu klaufskt þegar það hefur látið til sín taka. Þetta var örlagaár í Kína og stjórnvöld mjög upptekin við innanlandspólitík og stórar áskoranir í efnahagslífinu. Engu að síður náðu Kínverjar að nýta nokkur stór tækifæri sem opnuðust. Eitt var að gera Kína að nýju áhrifaríki við Persaflóa. Flókin samskipti Kína við ríki Suðaustur Asíu gengu líka almennt á þann veg að Vesturlönd virðast þar fjarlægari með hverju árinu. Efnahagsleg samkeppni þessara landa við Kína fer þó vaxandi.
Vandi einræðisins
Enn ein þversögn ársins fólst í því að stórveldi sterkra manna sem sýnt hafa aukin mátt sinn í heiminum eins og Kína, Rússland, Íran og Tyrkland opinberuðu öll innri veikleika sem eru nógu alvarlegir til þess að geta orðið sterku mönnunum að falli. Skipanir eru sendar niður kerfið en gagnrýnin viðbrögð og sannar upplýsingar berast ekki á móti.
Í tilviki Rússlands hefur komið betur í ljós að innrásin í Úkraínu var hugarfóstur Pútíns og að hluti valdakerfisins hafði efasemdir um hernaðinn. Svo virðist sem tilraunum embættismanna til að benda á stórar efnahagslegar hættur, vanbúnað hersins og alþjóðlegar pólitískar afleiðingar dagana fyrir innrásina hafi verið í besta falli fálega tekið af þeim sem stóðu næst Pútín og að þær hafi lítið náð til hans.
Í Kína komu vandræði af svipuðum toga vel í ljós á árinu. Flestir sjá nú að stefna stjórnarinnar varðandi Cóvid var röng frá bæði efnahagslegu og heilsufarslegu sjónarhorni að ekki sé minnst á það mannlega. Ósveigjanleiki einræðisins réði hins vegar ferðinni. Sömu gallar einræðisins eru að koma í ljós á sífellt fleiri sviðum efnahagsmála þar sem Kínverjar hafa meðal annars tapað af tækifærum í tækniþróun og í uppbyggingu lífvænlegra stórfyrirtækja vegna hugmyndafræðilegrar sannfæringar Xi Jinping sem hefur lokað valdakerfi Kína frá gagnrýni neðan frá.
Höfundur er alþjóðastjórnmálafræðingur.