Ef mér væri falið að velja orð ársins 2021 myndi ég mögulega velja orðið „bólusetning“, eða „bóluefni“. Við höfum eiginlega ekki rætt neitt annað allt árið. Fyrst snerist umræðan um hvenær bóluefnin myndu berast, svo færðist hún meira í átt til vangaveltna um ólíkar tegundir og mismunandi virkni – og aukaverkanir þeirra. Í haust hafa örvunarskammtar verið mest áberandi í umræðunni og hver virkni bóluefnanna sé í raun og veru. Spurningar um það hversu hratt virkni þeirra dvínar hafa verið á allra vörum og nú nýlega hafa bæst við áhyggjur yfir því hvort þau dugi yfir höfuð gegn nýjustu afbrigðunum.
Sunna Ósk Logadóttir birtir hér í Kjarnanum ákaflega áhugaverða grein um það hvernig „leikvöllur veirunnar til þess að stökkbreytast“ sé hvergi stærri heldur en í sunnanverðri Afríku. Vísbendingar séu þar að auki um að líkamar HIV smitaðra séu nokkurs konar útungunarvél fyrir ný afbrigði veirunnar, en hvergi í heiminum geisar sá sjúkdómur harðar. Eins og Sunna Ósk bendir á tengist þetta meðal annars því að óréttlát dreifing bóluefna er grafalvarlegur vandi sem enn er til staðar þrátt fyrir fögur fyrirheit.
Það sem er verst við þetta ástand er hversu fyrirsjáanlegt það var. Strax í janúar hafði Alþjóða heilbrigðismálastofnunin uppi varnaðarorð um að bólusetningar sem vörn við Covid-19 myndu ekki virka nema við gerðum okkur grein fyrir að þetta væri hnattrænn vandi sem bregðast yrði við sem slíkum. Ég man að ég fór í viðtal á Rás 2 snemma í janúar þar sem ég benti á að nú yrðu leiðtogar að girða sig í brók og forðast óréttláta dreifingu bóluefna. Réttlætishlið þessa máls krefst ekki ítarlegs rökstuðnings en í þessu máli færi sá rökstuðningur saman við hrein nytsemisrök. Ný afbrigði veirunnar væru helsti vandinn sem við stæðum frammi fyrir.
Seinna á árinu fór ég í annað viðtal á RÚV þar sem ég benti á að hin óréttláta dreifing bóluefna sem þá hafði raungerst væri ekki eina vandamálið. Ekki síðra vandamál væri hvernig Vesturlönd ætluðu að vinna til baka það traust sem þyrfti að vera til staðar í Afríku svo fólk þar myndi þiggja bólusetningu þegar og ef hún stæði þeim til boða. Endalaus orðræða um það að nú yrði væntanlega einhver „afgangur“ af bóluefnum, jafnvel eitthvað sem við vildum ekki nota og sem mætti senda suður á bóginn, hafði aukið á tortryggni víða um heim. Stuttu seinna komu svo fram vangaveltur að kannski yrðu Vesturlönd ekki aflögufær eftir allt saman því nú yrði ráðist í örvunarbólusetningu. Um þetta allt skrifaði Sunna Ósk ágæta fréttaskýringu sem birtist í Kjarnanum 5. september.
Nú vitum við ekki á þessari stundu hvað ómíkron-afbrigðið ber í skauti sér. Einhverjir bera þá von í brjósti að hér sé um hagfellt afbrigði að ræða sem komi til með að valda vægari sjúkdómseinkennum. Enginn veit ennþá hvort sú verður raunin. Í framtíðinni bíður okkar vonandi vægari birtingarmynd C0VID-19 en um stund felst mikil áhætta í því að fá sífellt fram ný afbrigði.
Viðbrögðin við fréttunum frá Suður-Afríku voru fyrirsjáanleg en um leið virðumst við ekki hafa lært neitt. Ferðabanni var skellt á þau lönd í Afríku sem höfðu burði til að greina afbrigðið. Og svo var bannið útvíkkað handahófskennt á nágrannalönd þeirra hvort sem ómíkron hafði greinst þar eða ekki. Skilaboðin virðast eiga vera þau að lönd skuli ekki tilkynna heimsbyggðinni um þau afbrigði sem greinast. Önnur skilaboð voru reyndar ekki síður augljós: Við getum alltaf lokað á ykkur. Stjórnmálamenn sem vita vel að slíkar lokanir virka ekki út frá sóttvarnarsjónarmiðum vita að þær munu engu að síður njóta stuðnings heima fyrir.
Allt árið hafa stjórnmálamenn á Vesturlöndum notið þess að láta umræðu um réttláta dreifingu bóluefna snúast upp í uppræðu hvort einstaklingar eigi að hafa samviskubit yfir því að þiggja bóluefnin. Á meðan beinist kastljósið ekki að þeirra ábyrgð á stöðunni. Auðvitað er það ekki almennings að sjá til þess að bóluefnum sé dreift um heiminn á réttlátan hátt. Íslendingar þurftu til dæmis ekki að hafa áhyggjur af því þótt mögulega yrði gerð rannsókn á vegum Pfizer, eins og stóð til um tíma. Fyrirtækið mat að lokum að rannsóknargildið væri ekki nægilegt og hætti við. Ef rannsóknin hefði verið nægilega mikilvæg og farið fram hefðu Íslendingar haft réttmæta ástæðu til að taka þátt. Sú umræða sem þá spratt fram skyggði á kjarna málsins um hvort bóluefnum væri dreift á réttmætan máta á heimsvísu fremur en að draga hann fram.
Ábyrgðin er þeirra sem leiða pólitíska stefnumótun. Sóttvarnaryfirvöld geta leyft sér að horfa fyrst á þá frumskyldu sína að vernda líf og heilsu borgaranna til skemmri tíma. Að vissu marki er það einnig hlutverk heilbrigðisráðherra. En ríkisstjórnir og þá einkum forsætisráðherrar verða að hugsa stærra. Ef engin ríkisstjórn á Vesturlöndum hugsar hlutina í stærra samhengi og er athugul á allar hliðar málsins er ólíklegt að alþjóðastofnanir hafi umboð til að bregðast á skynsamlegan hátt við faraldrinum. Þegar forsætisráðherrar segjast ætla að axla ábyrgð með því að einblína fyrst á eigin borgara er ljóst að við leysum engin af þeim stærstu áskorunum sem mannkyn stendur frammi fyrir. Og stendur til að leysa loftslagsmál á þennan máta? Ætlum við að koma til móts við þá sem eru á flótta víðs vegar um heiminn og vandamál þeirra á þennan hátt? Hnattræn vandamál krefjast hnattrænna lausna. Árið 2021 blés okkur ekki von í brjóst um að sá skilningur væri til staðar hjá þeim sem fara með völd.
Höfundur er heimspekingur.