Í grein sem birtist í Kjarnanum þann 28. febrúar sl. er því m.a. haldið fram að SORPA hafi ákveðið að draga úr flokkun úrgangs og að ekki hafi tekist að draga úr urðun hans þrátt fyrir tvöföldun í endurnýtingu. Hvoru tveggja eru rangar fullyrðingar en því miður aðeins hluti af enn frekari rangfærslum í umræddri grein sem bar yfirskriftina „Sveitarfélögin keppa við einkaframtakið.“ Þar sem greinarhöfundur virðist ekki hafa haft tíma til að afla sér réttra upplýsinga, sem þó hefði verið auðsótt, er mikilvægt að halda eftirfarandi staðreyndum á lofti.
Boðið upp á 36 flokka úrgangs
Það er rangt að SORPA hafi ákveðið að draga úr flokkun úrgangs og að slíkt sé brot á stefnumótun Landsáætlunar. Íbúum standa nú sem fyrr til boða 36 flokkar úrgangs á endurvinnslustöðvum, grenndargámum og í móttökustöð.
Í greininni er talað um að endurnýting hafi tvöfaldast sl. 10 ár. Með því er væntanlega vísað til efnis sem ekki fer til urðunar. Þessi fullyrðing er ekki rökstudd en gögn SORPU um magn móttekins úrgangs til urðunar styðja hana ekki. Til fróðleiks má benda á að meginhluti úrgangs til urðunar berst frá atvinnulífinu, ekki heimilum.
Það er rangt að ekki hafi tekist að draga úr urðun úrgangs. Þetta magn var 109 þús. tonn árið 2003 en 104 þús. tonn árið 2013. Á sama tíma fjölgaði íbúum samlagssvæðis SORPU um 14,5%. Á síðasta ári var hlutfall endurunnins heimilsúrgangs um 72%. Með nýrri gas- og jarðgerðarstöð eykst þetta hlutfall í 95%.
Ákvörðun tekin af eigendum
Það er fráleit fullyrðing að ákvörðun um byggingu gas- og jarðgerðarstöðvar hafi verið tekin án samráðs við eigendur. Ákvörðun var tekin af eigendum, m.a. eftir ferð borgarstjóra og bæjarstjóra sveitarfélaganna sem standa að SORPU, til Norðurlanda þar sem mismunandi lausnir voru skoðaðar. Einnig liggur fyrir undirritað samkomulag eigenda SORPU um byggingu stöðvarinnar.
Það er fráleit fullyrðing að ákvörðun um byggingu gas- og jarðgerðarstöðvar hafi verið tekin án samráðs við eigendur.
Ennfremur er rangt í greininni að samið hafi verið við danska fyrirtækið Aikan um „kaup á tækjabúnaði.“ Margoft hefur komið fram að aðkoma Aikan snýst eingöngu um ráðgjöf og tæknivinnu. Ávallt hefur staðið til að bjóða út alla jarðvinnu, byggingar, tanka, tækjabúnað og stjórntæki þannig að íslenskir aðilar gætu boðið í verkið. Að halda öðru fram eru ósannindi.
Það var ekki Áfrýjunarnefnd samkeppnismála sem kærði SORPU. Það var Gámaþjónustan sem kærði SORPU til áfrýjunarnefndarinnar fyrir að veita eigendum sínum – íbúum höfuðborgarsvæðisins – hærri afslætti en einkafyrirtækjum á markaði.
Eigendastefna var samþykkt í apríl 2013. Hana má kynna sér á heimasíðu SORPU. Samkvæmt stefnunni getur SORPA ekki stofnað dótturfyrirtæki eða gerst hluthafi í fyrirtæki nema með sérstakri heimild eigenda – öfugt við það sem haldið er fram í greininni.
Engin þekkt aðferð árangursríkari
Votvinnslustöð var ein af þeim aðferðum sem SORPA skoðaði ásamt ráðgjöfum. Þær hafa bæði kosti og galla. Votvinnsla felst í því að ná vökva úr úrganginum áður en hann fer í vinnslu. Vökvinn pressast úr en eftir verður kaka sem er um 20% af upphaflegu magni. Þetta efni er lífrænt og án undantekninga brennt erlendis. Byggja þyrfti hér brennslustöð sem kostar margfalt á við gas- og jarðgerðarstöð.
Sérsöfnun lífræns úrgangs fyrir votvinnslu krefst nýrrar tunnu við hvert heimili. Gróflega má áætla að slík fjárfesting kosti um 500 milljónir króna fyrir öll heimili á höfuðborgarsvæðinu. Þjónusta við aukatunnu kostar árlega á að giska um 500 milljónir króna þótt eitthvað sparist á móti. Með því að sleppa aukatunnu sparast stofnkostnaður gas- og jarðgerðarstöðvar á rúmum fjórum árum.
Sú aðferð sem SORPA hefur valið með byggingu gas- og jarðgerðarstöðvar er tæknilega einföld og þjónar öllum markmiðum. Með tilkomu hennar stefnir SORPA að því að endurvinna eða endurnýta 95% af öllum heimilisúrgangi. Engin þekkt aðferð hefur reynst árangursríkari.
Höfundur er framkvæmdastjóri SORPU bs.