Náms- og starfsráðgjöf er lögbundinn hluti af sérfræðiþjónustu grunnskóla. Í lögum um grunnskóla er þó ekki fjallað um með hvaða hætti náms- og starfsráðgjöf eigi að fara fram eða hversu umfangsmikil hún skuli vera. Það má samt segja að starf námsráðgjafa felist meðal annars í að veita nemendum persónulega ráðgjöf og stuðning í námi, fræða, gefa nemendum kost á áhugasviðskönnun og veita ráðgjöf við náms- og starfsval.
Náms- og starfsráðgjafar starfa náið með nemendum, foreldrum, kennurum, skólastjórnendum og öðrum starfsmönnum skóla að ýmiss konar velferðarstarfi er snýr að námi, líðan og framtíðaráformum nemenda. Námsráðgjöf er jafnframt ætluð til að vera fyrirbyggjandi þjónusta og stuðla að því að nemendur geti skapað sér viðunandi vinnuskilyrði í skóla og heima. Þetta felur meðal annars í sér að náms- og starfsráðgjafi þarf að hafa frumkvæði að því að nálgast nemendur sem eru í þörf fyrir aðstoð en bera sig ekki eftir björginni sem og að standa vörð um velferð þeirra og réttindi. Þetta á ekki síst við um þá nemendur sem veikari rödd hafa í samfélaginu.
Farsælt foreldrasamstarf besti stuðningurinn
Persónulegur og félagslegur stuðningur við nemendur er mjög mikilvægur. Sjálfsöryggi og góð sjálfsmynd hefur áhrif á hvernig einstaklingurinn upplifir sjálfan sig og möguleika sína. Það reynir mikið á þessa eiginleika við mismunandi aðstæður í lífinu, utan sem innan veggja skólans og eftir að námi lýkur. Samskiptamunstur er flóknara en áður þar sem samskipti eru æ meira í gegnum ýmiss konar miðla. Það er mikilvægt að kenna börnum og unglingum með markvissum hætti hvernig hægt er á farsælan hátt að eiga jákvæð og uppbyggileg samskipti, kunna að setja sjálfum sér og öðrum mörk og hvar ábyrgð okkar sjálfra liggur í því að vel gangi í samskiptum.
Það er því mikilvægt að við kennum færni til að taka hagnýtar ákvarðanir og nýta bjargráð í daglegu lífi bæði innan og utan skólans. Það þýðir í stuttu máli það að við ætlum að læra bjargráð sem við getum nýtt til að vera skilvirkari í lífinu, sérstaklega þegar tilfinningar eiga í hlut. Það er öllum mikilvægt að taka forystu í eigin lífi og efla færni til að draga úr spennu og auka vellíðan sína. Velferð og gengi nemenda er það sem allt skólastarf snýst um hverju sinni. Farsælt foreldrasamstarf og ánægðir foreldrar skipta mjög miklu máli og er besti stuðningur sem kennarar geta haft til að ná þessu sameiginlega markmiði.
Í nútímaþjóðfélagi er þörf á þjónustu
Fram kemur í ítarlegri rannsókn sem unnin var af Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri 2019 að skólar fá ekki alltaf nægilegt fjármagn til að sinna náms- og starfsráðgjöf eins og lög kveða á um. Skólastjórnendur grípa þá oft til þess ráðs að taka á sig mismuninn og greiða hækkað hlutfall náms- og starfsráðgjafa af öðru rekstrarfé skólans sem tekið er þá af annarri þjónustu við nemendur.
Tillögur hafa verið um að settar verði reglur um hámarksfjölda nemenda pr. stöðugildi náms- og starfsráðgjafa og viðmiðunartalan sem oftast hefur verið nefnd er um 300 nemendur fyrir eitt stöðugildi ráðgjafa. Það er mismunandi eftir bæjarfélögum hversu vel er að þessu staðið og standa sum þeirra sig mun betur en önnur. Í sömu skýrslu koma fram tillögur um hvort ekki sé nauðsynlegt að gerð verði heildstæð endurskoðun á því hvaða fagstéttir eigi að vinna í skólum, svo sem þroskaþjálfar, iðjuþjálfar, sálfræðingar, félagsráðgjafar, fjölskylduráðgjafar ofl. miðað við það hlutverk sem skólinn gegnir í nútímaþjóðfélagi. Það er ljóst að þörfin er fyrir hendi en til að það megi verða að veruleika þarf bæði fjármagn og fólk. Í dag er enginn náms- og starfsráðgjafi starfandi í mörgum skólum landsins.
Börn hafa ekki kosningarétt – ennþá
Starf náms- og starfsráðgjafa fellur vel að markmiðum stjórnvalda um að auka farsæld barna og veita snemmtækan stuðning með það að markmiði að styðja við farsæld barna. Ný lög sem tóku gildi 1. janúar 2022 og snúa að farsæld barna taka til þjónustu sem er veitt á vettvangi ríkis og sveitarfélaga, m.a. innan skólakerfisins, heilbrigðiskerfisins og félagsþjónustu sveitarfélaga, auk verkefna lögreglu. Gott starfsumhverfi nemenda og starfsfólks skóla skiptir miklu máli sem og vilji sveitarfélaga til að skapa skólum góð starfsskilyrði. Það er því mikilvægt að skólar hafi alltaf nægilegt fjármagn til að sinna lögbundnu hlutverki sínu og þjónusta við börn ætíð í samræmi við gildandi lög hverju sinni.
Það er stutt í sveitarstjórnarkosningar og ljóst að margir nýir sveitastjórnarmenn munu taka sæti í sveitarstjórnum víða um land. Forgangsröðun í þágu barna og velferð þeirra þarf að vera skýr, markviss og framsækin. Börn hafa ekki kosningarétt og það er því okkar hinna að gæta þess fyrir þeirra hönd að í sveitarstjórnir verði kosið fólk sem ætlar að standa vörð um hagsmuni barna.
Það má aldrei verða að velferð barna sé sett til hliðar og þau fái ekki þá þjónustu sem þau þurfa á að halda hverju sinni.
Höfundur er náms- og starfsráðgjafi.