Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, var áður sýslumaður á Akranesi. Hann fékk leyfi frá starfinu þegar hann tók við sem sérstakur saksóknari. Í nýlegum hrókeringum innanríkisráðuneytisins var sýslumönnum og lögreglustjórum landsins fækkað umtalsvert og nú hefur verið skipað í flestar nýju stöðurnar. Í Bakherbergjum hefur verið sagt frá því að Ólafur hafi ekki sótt um neina þeirra og sé því ekki lengur með örugga vinnu þegar tími hans sem sérstakur saksóknari er liðinn.
Ætlar sér að stýra íslensku Ökokrim
Miklar bollaleggingar eru um það á meðal manna í Bakherberginu að þetta þýði að Ólafur muni sækjast eftir að stýra nýrri efnahagsbrotastofnun sem mun í náinni framtíð taka við verkefnum sérstaks saksóknara og mögulega skattrannsóknarstjóra. Þverpólitískur vilji er fyrir uppsetningu slíkrar stofnunar sem myndi verða að fyrirmynd hinnar norsku Ökokrim. Fyrstu skrefin í þessa átt voru stigin þegar efnahagsbrotadeildin var flutt yfir til sérstaks saksóknara. Það embætti hefur hins vegar tímabundin líftíma og hægt er að leggja það niður hvenær sem er.
Bakherbergið birtist fyrst í síðustu útgáfu Kjarnans.