Nú standa öll spjót á Sigríði Björk Guðjónsdóttur, nýráðinn lögreglustjóra höfuðborgarsvæðinsins, vegna greinargerðar sem hún sendi Gísla Frey Valdórssyni, fyrrverandi aðstoðarmanni Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, um málefni hælisleitandans Tony Omos í árdaga Lekamálsins svokallaða.
Sigríður Björk afhenti Gísla umbeðna greinargerð án þess að hennar væri óskað með formlegum hætti, og mögulega í trássi við reglugerð um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu. Sem er athyglisvert, ekki síst vegna lögfræðimenntunar hennar og áralangrar reynslu innan lögreglunnar, en hún starfaði til að mynda um nokkurt skeið sem aðstoðarríkislögreglustjóri. Margur skyldi því ætla að hún þekki innviði lögreglunnar og réttarríkisins betur en flestir.
Eins og kunnugt er skipaði Hanna Birna vinkonu sína í stöðu lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, nánast samdægurs og Stefán Eiríksson hætti störfum, án þess að auglýsa stöðuna lausa til umsóknar. Ráðningin vakti athygli innan lögreglunnar, enda ekki á hverjum degi að ráðið sé í eina eftirsóknarverðustu stöðu hennar án auglýsingar.
Í hinum stórskemmtilega slúðurdálki vefmiðilsins Eyjunnar, Orðið á götunni, er fullyrt að nú eigi sér stað valdatafl í lögreglunni. Samkvæmt slúðurdálknum er mikil óánægja meðal hátt settra karla í lögreglunni með þá ákvörðun að skipa Sigríði Björk lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins. Í efstu lögum lögreglunnar hafi nefnilega verið vilji til þess að embættið færi til Jóns H. B. Snorrasonar aðstoðarlögreglustjóra. Birtingamynd óánægjunnar hafi glögglega komið í ljós undanfarna daga, þar sem fáir hafi komið lögreglustjóranum til varnar undanfarna daga á meðan að henni hafi verið sótt, og eitt og annað leki út innan lögreglunnar á sama tíma.
Sá sem skrifar Orðið á götunni segir að mörgum þyki ofangreint minna á aðfarirnar gegn Öldu Hrönn Jóhannsdóttur á sínum tíma þegar hún var settur saksóknari efnahagsbrota, og spyr: „Af hverju ætli karlasamfélagið innan lögreglunnar hafi svo miklar áhyggjur af framgangi dugmikilla kvenna?“
Alda Hrönn kærði Helga Magnús Gunnarsson, fyrirrennara sinn í starfi saksóknara efnahagsbrota, til lögreglu árið 2011 fyrir ærumeiðingar og sakaði Helga um að hafa kallað sig „Kerlingar tussu“ í vitna viðurvist. Málið var sent til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem Jón H. B. Snorrason, fyrrverandi samstarfsmaður Helga Magnúsar, fór fyrir rannsókninni og felldi niður að lokum. Helgi Magnús hélt því reyndar fram að ranglega hefði verið eftir honum haft.
Hvernig ónefndur pistlahöfundur Orðsins á götunni nær að tengja þessi tvö mál saman þykir í senn áhugavert og skondið í bakherberginu. Sérstaklega í ljósi þess að framkvæmdastjóri Eyjunnar, og einn eigenda Vefpressunnar, sem á Eyjuna og er útgefandi Pressunnar, heitir Arnar Ægisson og er giftur systur Öldu Hrannar Jóhannsdóttur. Það finnst konum og körlum í bakherberginu vera drepfyndin staðreynd.