Bjarni Benediktsson hefur sætt gagnrýni víða fyrir að neita að fordæma Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrum innanríkisráðherra, í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis um að hún hafi farið langt út fyrir valdsvið sitt í samskiptum við Stefán Eiríksson, fyrrum lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu.
Bjarni hefur ítrekað lýst yfir stuðningi við Hönnu Birnu í gegnum allt lekamálið, þótt stuðningnum hafi oft fylgt yfirlýsingar um að hann hafi áhyggjur af málinu og að staða Hönnu Birnu sem ráðherra hafi verið „óþægileg“.
Pólitískir klækjarefir í bakherberginu hafa verið að reyna að setja afstöðu Bjarna í víðara samhengi og rifjað upp skoðanakönnunina sem Viðskiptablaðið gerði 11. apríl 2013, tæpum tveimur vikum fyrir síðustu þingkosningar, sem sýndi að fleiri væru tilbúnir að kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef Hanna Birna væri formaður flokksins. Sú könnun hefur verið túlkuð sem hjaðningarvíg Hönnu Birnu og stuðningsmanna hennar gegn Bjarna.
Bjarni mætti í viðtal hjá RÚV sama dag og könnunin birtist og komst við, sagðist íhuga að segja af sér formennsku í flokknum og að það væri erfitt að takast á við gagnrýni sem kæmi innan úr flokknum. Bjarni sagði líka að þetta hefði ekki verið í fyrsta skipti sem könnun sem þessi birtist í Viðskiptablaðinu, sem væri í eigu fyrrverandi kosningastjóra Hönnu Birnu. Annar höfundur greinarinnar um könnunina var Gísli Freyr Valdórsson, sem síðar var ráðinn aðstoðarmaður Hönnu Birnu.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrum innanríkisráðherra.
Pólitísku refirnir hafa komist að þeirri niðurstöðu að skoða verði alla framgöngu Bjarna í lekamálinu í samhengi við þessa aðför. Hálfkæringslegar stuðningsyfirlýsingar hans við áframhaldandi setu Hönnu Birnu sem innanríkisráðherra hafi að hluta til verið settar fram til að hiti málsins myndi áfram hvíla á henni sjálfri eins lengi og það væri hægt, í stað þess að færast yfir á hann.
Yfirlýsing Bjarna í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis var að svipuðu meiði. Þar sagði Bjarni Hönnu Birnu hafa skaðast en að það væri „algjörlega í hennar höndum að koma aftur til þingsins og halda áfram sínum stjórnmálastörfum“.
Yfirlýsingin vakti ekki mikla kátínu á meðal margra netverja sem heimtuðu blóð. Til skamms tíma þarf Bjarni því að þola yfirhellingar í netheimum. Til langs tíma er afstaða hans hins vegar pólitískt klók, enda fáir þeirra netverja sem láta hæst í sér heyra sem myndu nokkru sinni kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Með því að sleppa að hjóla í Hönnu Birnu sparar Bjarni sér átök við valdamikið bakland hennar innan flokksins en færir á sama tíma ábyrgðina að fullu yfir á hana.
Spunameistarar gefa Bjarna háa einkunn fyrir hið pólitíska ippon sem hann hefur nú fellt fyrrum áskoranda sinn, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, á.