Stefán Eiríksson, fyrrum lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, þurfti að þola fordæmalausan þrýsting frá Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrum innanríkisráðherra, vegna rannsóknar lögreglu á lekamálinu. Þessar aðfarir eru staðfestar í áliti umboðsmanns Alþingis sem segir að Hanna Birna hafi farið langt út fyrir valdsvið sitt með þeim. Ráðherrann fyrrverandi dró ástæður rannsóknarinnar í efa, dylgjaði um nafngreinda lögreglumenn sem hún taldi drifna áfram af pólitískum hvötum og hótaði lögreglustjóranum því að rannsókn lögreglu og ríkissaksóknara yrði sjálf rannsökuð þegar málinu yrði lokið. Ráðherrann hefur þá væntanlega búist við því að hún myndi geta valdnítt það úr þeim eðlilega farvegi sem málið var í. Stefán tilkynnti ríkissaksóknara um hótun ráðherrans, lét ekki undan ofstoppafullum þrýstingi ráðherrans og greindi umboðsmanni síðan skýrt frá þeirra samskiptum þegar eftir því var leitað.
Stefán tilkynnti ríkissaksóknara um hótun ráðherrans, lét ekki undan ofstoppafullum þrýstingi ráðherrans og greindi umboðsmanni síðan skýrt frá þeirra samskiptum þegar eftir því var leitað.
Stefán hætti síðan störfum í lok júlí 2014 og í stað hans var Sigríður Björk Guðjónsdóttir, fyrrum lögreglustjóri á Suðurnesjum, sett í valdamesta lögregluembætti landsins. Það var Hanna Birna Kristjánsdóttir sem setti hana í embættið.
Síðar kom í ljós að Sigríður Björk tengdist lekamálinu. Lögreglan á Suðurnesjum, sem hún stýrði á þeim tíma, hafði rannsakað hælisleitandann Tony Omos, sem lekamálið snérist upphaflega allt um. Gísli Freyr Valdórsson, fyrrum aðstoðarmaður Hönnu Birnu, var enda dæmdur í átta mánaða fangelsi fyrir að leka minnisblaði um Omos til Fréttablaðsins og mbl.is, líkt og heimsfrægt er orðið. Gísli Freyr játaði að lokum brotið daginn áður en mál hans fór fyrir dóm en hafði áður þverneitað því í heilt ár.
Í nóvember 2014 var greint frá því að Sigríður Björk hefði sent Gísla Freyr greinargerð um Tony Omos sama dag og fyrstu fréttirnar birtust upp úr minnisblaði um Tony Omos sem Gísli Freyr lak til fjölmiðla. Sigríður Björk greindi rannsakendum lekamálsins, kollegum sínum og nú undirmönnum í lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sem voru að reyna að komast að því hver hefði lekið minnisblaðinu fræga um Omos aldrei frá því að Gísli Freyr hafi óskað eftir greinargerð um Omos daginn eftir að minnisblaðinu var lekið. Henni hefur kannski ekki fundist þær upplýsingar hafa getað varpað ljósi á málið, hver sá seki mögulega væri, né raunverulega koma neinum öðrum við.
Í bakherberginu hafa margir velt því fyrir sér hvort Sigríður Björk, sem sá ekki nauðsyn þess að upplýsa lögregluna um samskiptin við Gísla Frey, hefði brugðist eins við í þessu máli og Stefán Eiríksson? Hefði hún staðið af sér þrýsting ráðherrans, tilkynnt um hótanir hans og upplýst umboðsmann Alþingis um óeðlilegt afskipti hans? Eða myndi hún komast að þeirri niðurstöðu að valdníðsla kæmi ekki neinum öðrum við?