Í dag, 20. nóvember, er nákvæmlega eitt ár síðan að Fréttablaðið og mbl.is birtu fréttir sem byggðu á minnisblaði um hælisleitandann Tony Omos sem Gísli Freyr Valdórsson, þáverandi aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra, lak í miðlanna.
Líkt og alþjóð, og raunar ýmsir sem tilheyra henni ekki, veit þá vildi enginn viðurkenna að minnisblaðinu hafi verið lekið úr innanríkisráðuneytinu þangað til að Gísli Freyr gekkst loks við því fyrr í þessum mánuði, degi áður en að aðalmeðferð yfir honum vegna lekans átti að hefjast.
Í millitíðinni hefur Hanna Birna ítrekað neitað að minnisblaðið hafi komið frá henni og hennar fylgdarliði og sett þrýsting á þá aðila sem fjalla um málið, rannsaka það eða saksækja, um að hætta því.
Það verður þó ekki litið framhjá því að þetta brölt Hönnu Birnu og aðstoðarmanna hennar hefur verið atvinnuskapandi fyrir ansi marga
Það verður þó ekki litið framhjá því að þetta brölt Hönnu Birnu og aðstoðarmanna hennar hefur verið atvinnuskapandi fyrir ansi marga. Fyrst skapaði þetta auðvitað vinnu fyrir blaðamenn DV, sem opinberuðu lekann og fylgdu þeirri opinberun eftir af miklu harðfylgi. Valdníðslan og yfirhylmingin sem ráðherrann hlóð í í kjölfarið skapaði svo vinnu fyrir blaða- og frétta menn annarra miðla, utan þeirra örfáu sem ákváðu að stilla sér upp með Hönnu Birnu í málinu í stað þess að segja fréttir.
Eftir að tilraunir til að þagga málið niður mistókust skapaði það nýtt og framandi verkefni fyrir rekstrarfélag Stjórnarráðsins, sem var fengið til að hvítþvo þau af lekanum. Það var gert með rannsókn sem fólst í að leita eftir tveimur nöfnum í titli tölvupósta. Þegar þau fundust ekki var syndaaflausn undirrituð.
Lögreglan hefur haft nóg að gera í Lekamálinu.
Næst skapaði þetta töluverða vinnu fyrir lögregluna á höfuðborgarsvæðinu, sem ákvað að rannsaka málið. Sú rannsókn skapaði síðan vinnu fyrir bandarísku alríkislögregluna, FBI, sem aðstoðaði íslenska kollega sína við rannsókn á tölvupósti Gísla Freys.
Eftir að Gísli Freyr var ákærður var ljóst að Hanna Birna gæti ekki lengur setið sem ráðherra dómsmála. Í stað þess að hún segði af sér var ákveðið að færa málaflokka dóms- og ákæruvalds til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. Hann setti síðan hinn hundtrygga aðstoðarmann sinn Jóhannes Þór Skúlason, í dómsmálaráðuneytið. Lekamálið var því atvinnuskapandi fyrir þá félaga.
Málið skapaði svo auðvitað vinnu fyrir ákæruvaldið sem rak málið á hendur Gísla og gaf út ákæruna í því.
Þá er ótalinn Umboðsmaður Alþingis, sem ákvað að rannsaka fordæmalaus afskipti Hönnu Birnu að rannsókn Lekamálsins, en hún boðaði Stefán Eiríksson, fyrrum lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, ítrekað á sinn fund til að ræða það. Umboðsmaður, sem hefur haft nóg að gera í málinu, mun birta niðurstöðu sína í því í næstu viku.
Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrum hæstaréttardómari, fékk síðan hlutverk í þessu öllu saman þegar hann veitti Hönnu Birnu ráðgjöf, meðal annars í tengslum við svör hennar til Umboðsmanns Alþingis.
Og þá er bara eftir Lagnaþjónustan ehf., sem ákvað að nýta sér lekamálið til að selja þjónustu sína, eins og sést á myndinni hér að ofan.
Bakherbergið óskar landsmönnum öllum til hamingju með Lekamálsafmælið!!!