Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokks í Reykjavík.
Við tókum bréf UN Women um safe cities fyrir í borgarráði í haust. Þar var mannréttindaskrifstofu borgarinnar falið að vinna áfram að þátttöku Reykjavíkurborgar í því alþjóðlega verkefni sem UN Women hefur drifið áfram undanfarin ár. Og það er svo sannarlega verk að vinna um allan heim því tölfræði frá hinum ýmsu borgum er sláandi um það hversu hættuleg opin svæði geta verið konum. Og ekki bara opin svæði eins og almenningsgarðar heldur í strætisvögnum, almenningsklósettum og miklu víðar. Fyrir utan það sem manni finnst svo sjálfsagt, nefnilega að konur telji sig öruggar á þessum svæðum, þá hefur ofbeldi gagnvart konum og hræðsla þeirra við að verða fyrir ofbeldi neikvæð efnahagsleg áhrif í viðkomandi borgum. Það segir sig eiginlega sjálft að konur sem finna ekki fyrir öryggi taka síður þátt í ýmsum athöfnum eins og stjórnmálum, fyrirtækjarekstri og slíku sem skiptir miklu máli fyrir hagvöxt og þróun samfélagsins. Konur eru jú 50% íbúanna.
Verkefnið snýst um að bæta aðstöðu í borgunum með því að hugsa fyrir auknu öryggi strax á skipulagsstigi og með því að bæta löggæslu, eftirlit og endurhönnun þeirra svæða sem reynast vera hættuleg og/eða þar sem konur finna fyrir óöryggi.
Kannanir hafa leitt í ljós að í London segja 43% ungra kvenna að þær hafi orðið fyrir áreitni á götum borgarinnar síðasta árið. Í Nýju Delí segja 92% kvenna að þær hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni á opnum opinberum svæðum einhvern tíma á ævinni. Og dæmin eru því miður endalaus og því ekki vanþörf á því alþjóðlega átaksverkefni sem UN Women stendur fyrir.
En er þetta ekki bara í útlöndum? Hvað kemur þetta Reykjavík við sem er talin með öruggustu borgum í heimi? Jú því miður hafa bæði orðið slæmir atburðir hér heima hjá okkur og í viðtölum við konur kemur fram að þær eru óöruggar á ákveðnum svæðum, sérstaklega eftir að skyggja tekur.
En er þetta ekki bara í útlöndum? Hvað kemur þetta Reykjavík við sem er talin með öruggustu borgum í heimi? Jú því miður hafa bæði orðið slæmir atburðir hér heima hjá okkur og í viðtölum við konur kemur fram að þær eru óöruggar á ákveðnum svæðum, sérstaklega eftir að skyggja tekur. Við undirbúning þessarar greinar framkvæmdi ég mjög svo óvísindalega könnun þar sem fram kom að þær íslensku konur sem svöruðu fyrirspurn minni í gegnum tölvupóst telja sig öruggari í Reykjavík en í öðrum borgum (tvær þeirra búa erlendis). Þær sögðust þó stundum finna fyrir óöryggi í miðbænum að kvöldlagi, sérstaklega um helgar, sérstaklega vegna þess að svo margt drukkið fólk væri þar. Líka þar sem fáir væru á ferli eftir að dimma tæki. Svar við spurningunni um hvað væri til ráða töluðu þær um að vera alltaf með öðrum þegar rökkva tekur og í miðbænum um helgar. Líka að löggæsla þyrfti að vera sýnilegri í borginni, fleiri lögreglumenn mættu ganga eða hjóla um göturnar. Og þær nefndu lýsingu með hreyfiskynjurum á dimma staði sem væru ekki með almenna götulýsingu.
Auðvitað þarf að hugsa um þessa hluti í hér í Reykjavík eins og annars staðar þó maður trúi því að ástandið sé betra hér en víðast annars staðar. En það breytir því ekki að taka þarf á því sem er ekki í lagi. Aðferðafræði UN Women um öruggar borgir (e. safe cities) nýtist okkur vonandi vel til að gera enn betur.
Herferð UN Women á Íslandi um Öruggar borgir (e. Safe Cities Global Initiative) stendur yfir frá 18. til 25. nóvember. Hluti af herferðinni eru pistlaskrif um öruggar borgir sem birtast munu á heimasíðu Kjarnans á meðan að herferðin stendur yfir. Hjarta hennar er á heimasíðunniwww.oruggborg.is. Hægt er að lesa meira um herferðina og styrkja sambærileg verkefni í fátækustu löndum heims á heimasíðu landsnefndar UN Women á Íslandi.