Fólkið í bakherberginu er sammála um, að dagurinn í dag hafi verið sögulegur og atburðarásin fordæmalaus. Ein mesta vonarstjarna íslenskra stjórnmála, sé horft aðeins nokkur ár aftur í tímann, Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík og innanríkisráðherra, gerðist augljóslega brotleg við lagareglur þegar hún skipti sér af rannsókn lögreglu á lekamálinu þar sem ráðuneyti hennar og pólitískir aðstoðarmenn voru til rannsóknar. Hanna Birna viðurkenndi að hafa skipt sér óeðlilega af málinu, fyrir tveimur vikum síðan, sem gerði Umboðsmanni Alþingis auðveldara um vik að ljúka frumkvæðisathugun sinni með afgerandi og óumdeildri niðurstöðu. Alvarleikinn er öllum ljós, og málið er niðurlægjandi fyrir Hönnu Birnu, Sjálfstæðisflokkinn, íslensk stjórnmál og ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.
Einn siguvegari málsins er augljós; Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþings og jafnframt almennings. Það sem vekur athygli fólksins í bakherberginu, er hversu beitt skrif Tryggva voru alveg frá fyrstu stigum málsins. Hann ákvað strax, eftir að Stefán Eiríksson hafði upplýst hann um hin dæmalausu afskipti ráðherra af lögreglurannsókninni á ráðuneyti hennar, að þetta mál yrði til lykta leitt fyrir opnum tjöldum, enda snérist málið um leynd og valdabrölt bak við tjöldin. Fyrsta mál á dagskrá Tryggva var að draga tjöldin frá, og hefja síðan að óska eftir upplýsingum með hnífbeittan pennann að vopni, alveg þar til málið var til lykta leitt og sekt Hönnu Birnu í málinu var öllum ljós, og hún búin að afsaka sig í bak og fyrir beint gagnvart honum. Ein ritdeila í þessari mögnuðu rimmu Tryggva við stjórnvöld, sem Tryggvi gjörsigraði og steig aldrei feilspor í, var þegar hann spurði Sigmund Davíð hárbeittra spurninga um hvort ráðherrar í ríkisstjórn hans störfuðu eftir siðareglum, líkt og lög gera ráð fyrir. Sigmundur Davíð fullyrti að svo væri, sem reyndist ekki vera rétt líkt og Tryggvi hafði grunsemdir um, og svaraði síðan með skætingi eins og ofdekraður unglingur, hvort umboðsmaður Alþingis hefði sjálfur sett sér siðareglur! Umboðsmaður svaraði þessu kostulega bréfi forsætisráðherra af yfirvegun, og hélt áfram að rökræða sig í gegnum allar hindranirnar sem stjórnvöld settu upp til þess að kæfa störf Tryggva niður.
Það er rétt sem Tryggvi Gunnarsson sagði á opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í dag, að nú þyrfti að draga lærdóm af málinu svo það væri tryggt að mál af svipuðum toga myndi ekki endurtaka sig. Það er ekki hægt að gera annað en vona það besta í þeim efnum. En jafnframt er það fagnaðarefni að kerfið sem á að hafa eftirlit með valdníðslu ráðherra virkar þegar á reynir. Í það minnsta þegar það er með menn eins og Stefán Eiríksson, fyrrverandi lögreglustjóra, og Tryggva Gunnarsson innanborðs.