Átta stjórnarandstöðuþingmenn, úr röðum Vinstri grænna, Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Pírata, hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar um aðskilnað starfsemi fjárfestingarbanka og viðskiptabanka. Flutningsmaður tillögunnar er Ögmundur Jónasson en fram kemur í greinargerð hennar að málið hefur, í einni mynd eða annarri, áður verið flutt í sjö skipti.
Nú þegar stórtækar breytingar á fjármálakerfinu eru handan við hornið, með framkvæmd áætlunar um losun fjármagnshafta og breytingum á eignarhaldi á endurreistu bönkunum þremur, er ekki seinna vænna en að huga að því hvernig fjármálakerfi er best að búa til.
Eitt held ég að flestir geti verið sammála um. Það verður að læra af reynslunni. Bankar mega aldrei aftur verða tíu sinnum stærri en árleg landsframleiðsla, þeir mega aldrei aftur fjármagna eigin hlutafé sitt langt út fyrir lögleg mörk, þegar mega aldrei aftur vera með 80 prósent af skuldbindingum sínum í annarri mynt en er starfrækslumynt á Íslandi.
Þó best af öllu væri, að hugsa sér fjármálakerfi sem væri án ríkisábyrgðar, þá er slíkt líklega útópía. Seðlabankar eru bankar bankanna, og á meðan svo er nauðsynlegt að hugsa fjármálakerfið út frá þeirri staðreynd.
Þekkt sjónarmið
Fyrrnefnd tillaga sem fram er komin, er í takt við umræðu sem átt hefur stað víða um heim, og er að efni til góður grunnur fyrir nauðsynlegar breytingar á hagkerfinu. Bankar eiga að vera þjónustustofnanir við hagkerfið, en það er óþarfi að gera þá meira gildandi en þörf er.- Og hver er þörfin?
- Hver eru sjónarmiðin fyrir aðskilnaði?
- Má jafnvel ganga enn lengra og breyta fleiru?
- Bankar eiga að grunni til að þjónusta einstaklinga og fyrirtæki með eðlilegri viðskiptabankastarfsemi. Grunnhugmyndin að baki bankastarfsemi er að þeir taki á móti innlánum og sinni útlánastarfsemi til að hjálpa einstaklingum og fyrirtækjum í daglegum rekstri og áskorunum. Þessi starfsemi getur verið flókin og krefjandi, og borið áhættu. Þörfin fyrir starfsemina er yfirþyrmandi fyrir öll hagkerfi og er nær óhugsandi að ímynda sér þau án þessarar grunnstarfsemi. Fjárfestingabankahlutverkið er utan þessarar starfsemi, og hugmyndin um lagalegan aðskilnað byggir á því að draga línuna á milli þessara tveggja þátta í starfseminni.
- Sjónarmiðin fyrir viðskiptabanka- og fjárfestingabankastarfsemi eru fyrst og fremst þau, eins og lesa má um í tillögunni, að draga úr áhættusækni og skilja að almannaþjónustuhlutverk bankanna, og fjárfestingabankahlutverkið. Meðal annars svo ekki sé hægt að nýta innlán almennings til áhættusamrar fjárfestingastarfsemi. Því allur grunnur bankastarfsemi byggir á hugmyndinni um að seðlabankar skattgreiðenda séu bankar bankanna, ef á reynir. Ef allt fer í óefni - eins og getur gerst - þá myndi aðkoma seðlabankans miðast við þessa stöðu.
Hvernig gæti þetta litið út ef það yrði gengið enn lengra?
Til þess að glöggva sig á þessari stöðu hér á landi mætti vel hugsa sér stöðuna, eins og hún gæti verið ef Alþingi myndi setja lög sem myndu skilja að viðskiptabanka, og skera hana alveg frá fjárfestingabankastarfsemi, og raunar öðru sömuleiðis, eins og til dæmis eignastýringarþjónustu.Þá myndi Íslandsbanki, sem ríkið á nú 5 prósent í, vera hefðbundinn viðskiptabanki, og myndi minnka um sem nemur fjárfestingabankastarfsemi. Ef eignastýringarþjónustan færi líka, þá yrði VÍB selt frá bankanum og það yrði sjálfstætt fyrirtæki ekki í eigu banka.
Arion banki, sem ríkið á nú 13 prósent í, yrði hefðbundinn viðskiptabanki, og myndi minnka um sem nemur fjárfestingabankastarfsemina. Stærsta eignastýringarfyrirtæki landsins, Stefnir, yrði selt og það yrði sjálfstætt fyrirtæki ekki í eigu banka.
Landsbankinn, sem ríkið á nú 98 prósent hlut í, yrði hefðbundinn viðskiptabanki, og myndi minnka um sem nemur fjárfestingabankastarfsemina. Landsbréf, dótturfyrirtæki bankans á sviði eignastýringar, yrði selt og yrði sjálfstætt fyrirtæki ekki í eigu banka.
Það má síðan nefna það, að eins og mál eru núna, þá hefur Fjármálaeftirlitið (FME) leyft bönkunum að stunda óskyldan rekstur þó það sé skýrlega bannað með lögum. Það hefur FME gert með undanþágum, einkum og sér í lagi þegar kemur að eignaumsýslu en bankarnir eiga enn fjölmarga eignarhluti í fyrirtækjum, næstum sjö árum eftir hrun fjármálakerfisins. FME hefur ekki gefið sértækar skýringar á því hvers vegna bönkunum hefur ekki verið stillt upp við vegg og þeim einfaldlega sagt að losa sig við eignir í skráðum félögum og öðrum félögum.
Ekki er hægt að tala um brunaútsölu enda er eftirspurn í hagkerfinu mikil samanborið við mörg önnur, og margir aðilar sem leita logandi ljósi að fjárfestingatækifærum. Bankar eiga ekki að standa í öðrum rekstri, enda grefur það augljóslega undan samkeppni þegar lánastofnanir taka þátt í því að reka alls konar fyrirtæki á samkeppnismarkaði.
Þessi stefna hjá FME er furðuleg, verður að segjast, og það heyri upp á yfirmenn þessarar mikilvægu eftirlitsstofnunar að skýra hvers vegna bankarnir fá að stunda óskyldan rekstur á Íslandi.
Augljóst að hugmyndirnar munu mæta andstöðu
Enginn þarf að efast um að þessar hugmyndir, sem nú eru komnar fram - og aðrar sem miða að því að breyta bankakerfinu - munu mæta mikilli andstöðu. Sum sjónarmið eru málefnaleg í þeim efnum, t.d. að verkefnið sé ekki einfalt í útfærslu og að mikilvægt sé að huga vel að því hvernig megi ná fram góðri niðurstöðu fyrir almenning.Eitt atriði verður líka að hafa í huga, þegar fjármálaþjónustan er annars vegar. Ef lög yrðu samþykkt sem myndu kveða á um aðskilnað viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi, og einfaldari rekstrarforms banka, þá myndi önnur fjármálaþjónusta ekkert gufa upp. Hún myndi flytjast annað, til fyrirtækja og einstaklinga sem er nú þegar að bjóða þjónustu sem bankarnir gera sjálfir. En áhættan sem henni fylgir yrði þá alfarið farin úr bönkunum, og þar með frá hinu mikilvæga almannaþjónustuhlutverki.
Tillagan um aðskilnað viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi er fagnaðarefni, en mikilvægt er að málið fái vandaða meðferð í þinginu. Vel má hugsa sér meiri breytingar á kerfinu en fram koma í tillögunni. Málefnið er mikilvægt og almannahagsmunir verða að ráða för. Engir aðrir hagsmunir.