Rögnunefndin svonefnda, sem Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar stýrði, hefur komist að þeirri niðurstöðu að Hvassahraun sé besti staðurinn fyrir flugvöll á höfuðborgarsvæðinu.
Flugvallarstæðin sem voru skoðuð eru við Bessastaðanes, Hólmsheiði, Hvassahraun og Löngusker auk þess sem breytt útfærsla á legu flugbrauta í Vatnsmýri var metin. Áætlaður stofnkostnaður yrði í öllum tilvikum á bilinu 22 til 25 milljarðar króna, nema á Lönguskerjum þar sem hann er metinn um 37 milljarðar króna. Hvassahraun kom best út, þegar öll atriði voru skoðuð.
Það sem vekur athygli í þessari skoðun nefndarinnar, er að besta niðurstaðan sé sú að reisa nýjan flugvöll, alveg frá grunni, í tæplega fimmtán mínútna akstursfjarlægð frá Keflavíkurflugvelli, miðstöð millilandaflugs í landinu.
Nefndin hafði reyndar ekki það hlutverk, að horfa til Keflavíkur, en einmitt í ljósi þess hlýtur að vera næsta skref að kanna Keflavíkurflugvöll sem valkost í þessu samhengi.
Oft hefur því verið haldið fram að hagsmunir landsbyggðarinnar séu ekki hafðir með í ráðum, ef niðurstaðan verður sú að færa flugvöllinn úr Vatnsmýri. En minna er hins vegar rætt um það, að ef miðstöð innanlandsflugs yrði færð til Keflavíkur, þá gætu opnast stórar dyr tækifæra þegar kemur að tengiflugi við hin ýmsu svæði á landsbyggðinni. Það væri til dæmis góð þjónusta við ferðamenn ef þeir gætu tekið flugið til Keflavíkur, skipt þar um eitt flug á vellinum, og komist til Húsavíkur í hvalaskoðun eða til Vestfjarða á sjóstöng. Í þessum tengimöguleikum gætu falist mikil tækifæri fyrir ferðaþjónustfyrirtæki á landsbyggðinni, í nálægð við stórbrotna náttúru landsins.
Vonandi munu stjórnmálamenn hafa vita á því að horfast í augu við gögn og staðreyndir, og taka næstu skref varðandi miðstöð innanlandsflugs, með það í huga. Vatnsmýrin er ekki besti staðurinn fyrir miðstöð innanlandsflugsins, sé mið tekið af niðurstöðu Rögnunefndarinnar. Þar ættu að geta verið mikil tækifæri fyrir Reykjavíkurborg, eins og augljóst er.
Boltinn er nú hjá stjórnmálamönnum. Þeir geta alveg farið með hann ofan í skotgrafirnar, eins og venjulega þegar flugvöllurinn er annars vegar, en þeir geta líka tekið upp þá skemmtilegu nýbreytni að sleppa því og vinna faglega að næstu skrefum.