Greta Thunberg gaf COP26 í Glasgow ekki háa einkunn: Bla, bla, bla. Að ráðstefnunni lokinni sagði hún við skoska BBC: „Þeim tókst meira að segja að útvatna bla, bla, bla.“ Málflutningur Grétu hefur alltaf verið sá að ríkisstjórnir taki ekki mið af þeim vísindum sem þau þó viðurkenna í orði kveðnu.
Í Noregi halda stjórnvöld áfram að gefa út leyfi til gas- og olíuleitar, vitandi vel að þekktar lindir jarðefnaeldsneytis duga meira en vel til að hita andrúmsloftið miklu meira en þær 1,5°C sem norsk stjórnvöld viðurkenna sem efri þolmörk lífs á Jörðinni. Einnig hér á landi tregðast stjórnvöld við að draga úr losun og bera fyrir sig þá sérstöðu að ekki geta nýtt hreina orku þar eð hlutfall hreinnar orku sé þegar orðið mjög hátt. Svo er þó ekki í vegasamgöngum og fiskveiðum. – Einn af atburðum ársins í loftslagsmálum var reyndar ekki-frétt frá ríkisstjórninni: Ísland var ekki meðal þeirra ríkja sem hétu því í Glasgow að vinna ekki jarðefnaeldsneyti úr jörðu. Þeirra á meðal Danmörk, Grænland og Svíþjóða.
Í beinni útsendingu
Kynslóð Grétu Thunberg – við öll – horfum á skelfilegar afleiðingar hækkandi hitastigs andrúmsloftsins. Þróun sem við nú getum nánast horft á í beinni útsendingu frá Kaliforníu, Bresku Kolumbíu eða Þýskalandi. Þróun sem ekki bara bitnar á fátækum meðbræðrum og systrum í Afríku eða láglendum eyjum Kyrrahafsins heldur tekur stjórnvöld öflugustu hagkerfa heims í bólinu. Kanslaraefni Kristilegra demókrata í Þýskalandi, Armin Laschet, varð á að flissa eins og bjáni þegar hann skoðaði eyðilegginguna í Erfstadt, eftir að 80 manns höfðu misst lífið í gríðarlegum flóðum sem þar urðu og í Belgíu í sumar leið. Manntjón varð minna í Belgíu en stjórnmálaleiðtogar kenndu loftslagsbreytingum og stjórnmálaferill Laschets var á enda.
Níræðir nóbelsverðlaunahafar
Staðreyndin er að í 50 ár – hálfa öld – hafa vísindamenn varað við loftslagsbreytingum. Tveir þeirra, Syukuro Manabe og Klaus Hasselmann, fengu Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði í ár. Báðir standa þeir á níræðu og verðlaunin fengu þeir fyrir gerð reiknilíkana af loftslagi Jarðar þar sem þeir spáðu fyrir um að aukið magn koltvísýrings i andrúmsloftinu myndi valda hækkandi hitastigi.
Ritstjóri útgerðarmanna afneitar enn
Eftir því sem skýrslur um loftslagshamfarir raðast inn í hillur ráðamanna, þeim mun þrjóskulegri verður ritstjóri Morgunblaðsins í afneitun sinni á niðurstöðum vísindasamfélagsins um að loftslagsbreytingar séu hættulegar íbúum þessarar plánetu. Í Reykjavíkurbréfi 30. október var þetta háð að finna:
„Nú er blásið til enn einnar varnarráðstefnu mannkyns og þar skal árétta og bæta í yfirlýsingar og heit frá því sem gerðist í París og eins þar á undan á ráðstefnum á borð við þá í Kyoto í Japan. Nú þegar aldarfjórðungur er liðinn frá ráðstefnunni miklu í Kyoto, sem lauk með miklum fögnuði og langvarandi lófataki.
Enda eru slíkar ráðstefnur eingöngu opnar fyrir algjörlega sannfærða um einn óskeikulan sannleik í hvert skipti. Það eitt ætti að skjóta öllum skelk í bringu eða a.m.k. gera þá hugsandi, þótt meira gerist ekki.
Menn geta vissulega á þessum ráðstefnum óttans skipt um og skipst á bindum og skóm og skálað með hljóm, en það er algjörlega óþekkt á þeim að ein einasta minúta sé tekin frá til að skiptast á skoðunum. Þúsundir manna þar sem enginn efast er ekki ráðstefna, það er eitthvað annað og ógeðfelldara.“
Þarna talar ritstjóri þeirra útgerðarmanna sem makað hafa krókinn á auðlind allra landsmanna um ár og áratugi. Þeirra sem gjarnan tala um fiskveiðiauðlindina eins og sína eigin og ætla mætti að hefðu mestan hag af því að vernda hafið gegn súrnun og öðrum neikvæðum áhrifum loftslagshamfara á í lífríki hafsins.
Staðan eftir COP26
John Kerry, einn helstu arkitekta Parísarsamningsins, tók til varna og sagði að árangurinn í Glasgow myndi sýna að Gréta hefði rangt fyrir sér. Línuritið hér að neðan sýnir þann árangur. Landsframlög ríkja (sjá skýringartexta fyrir neðan mynd) fyrir COP26 og síðan á ráðstefnunni sjálfri duga hvergi nærri til að halda hækkun hitastigs við 1,5 gráðu á Celsíus, þótt þau hafi þokast í rétta átt.
Helminga verður heimslosun á 8 árum
Áskorunin er ærin. Til að ná að takmarka hækkun hitastigs við 1,5°C verður heimslosun gróðurhúsalofttegunda að dragast saman um helming á næstu átta árum. Bætt landsframlög sem aðildarríki Parísarsamningsins tilkynntu um hafa einungis minnkað losunar-gapið árið 2030 um 15−17%; gapið á milli þess sem ríkin hafa lofað fyrir 2030 og þess sem þarf til að halda hækkun réttum megin við 1,5 gráður um.
Landsframlög ríkja fyrir COP26 í Glasgow duga í besta falli til að takmarka hækkun hitastigs við 1,8°C – ef allir gera það sem þeir hafa lofað − en 2,4°C eru nær lagi.
Þá ber einnig að hafa í huga að árið 2015, ár Parísarráðstefnunnar, var jarðefnaeldsneyti (olía, gas og kol) 80% af orkuframleiðslu heims. Í aðdraganda COP26 í Glasgow – sex árum síðar – var hlutfallið enn hið sama − 80%.
Redding í horn
Enska hugtakið „Nationally Determined Contribtion (NDC)“ skýrir betur en íslenska snörunin, landsframlag, að það eru ríkin sjálf, hvert fyrir sig, sem ákveða hvað felst í framlaginu. Í París 2015 lofuðu aðildarríkin að uppfæra landsmarkmið fyrir COP26 í Glasgow, sem halda átti 2020 en varð ári síðar vegna Covid. Samtals skilaði 151 ríki uppfærðum landsmarkmiðum fyrir COP26 í Glasgow. Þar af lagði 91 ríki – 62,7% af heimslosuninni − fram ný eða uppfærð landsmarkmið sem fela í sér samdrátt í heildarlosun miðað við fyrra landsmarkmið frá því fyrir París 2015.
Í stað þess að bíða til 2025 eins og Parísarsamningurinn kveður á um var ákveðið að hvetja öll ríki til að gera þetta strax á næst ári. Ísland þar á meðal. Vonin um að takmarka hækkun hitastigs við 1,5°C felst í því að ríkin herði markmið sín til að ráðagerðin um helmingun heimslosunar fyrir 2030 verði að veruleika.
Brýning á Alþingi
Katrín Jakobsdóttir, þá í stjórnarandstöðu, lýsti þessu svo í þingræðu 23. ágúst 2016: „Í raun og veru var mjög áberandi á loftslagsfundinum [í París 2015] að 1,5° ætti að vera hið eðlilega markmið þó að ýmis ríki hafi ekki viljað ganga alla leiðina að nefna 1,5°, því að munurinn á 1,5° og 2° er gríðarlega mikill. Þá er ég að tala um ríki sem eru sérstaklega viðkvæm fyrir loftslagsbreytingum. Ég get nefnt Kyrrahafseyjar í því samhengi sem eru beinlínis í hættu á að hverfa undir sjó hækki hitinn um meira 1,5°.“
Katrín bætti við, að „... við þurfum að átta okkur á því að til þess að ná til dæmis markmiðinu um 1,5°, þ.e. að hlýnunin fari ekki yfir 1,5°, þurfum við, Ísland, Noregur og Evrópusambandsríkin, að horfa til þess markmiðs að draga úr losun um 55% fyrir 2030, þ.e. ekki endilega ná kolefnishlutleysi en hafa náð henni [losuninni] niður um 55%.
Katrín bætti við, að „... við þurfum að átta okkur á því að til þess að ná til dæmis markmiðinu um 1,5°, þ.e. að hlýnunin fari ekki yfir 1,5°, þurfum við, Ísland, Noregur og Evrópusambandsríkin, að horfa til þess markmiðs að draga úr losun um 55% fyrir 2030, þ.e. ekki endilega ná kolefnishlutleysi en hafa náð henni [losuninni] niður um 55%.“
Þetta var þá.
Bla, bla, bla úr stjórnarráðinu
Fyrir umhverfisþing í apríl í vor lét þáverandi umhverfisráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framleiða myndband þar sem upplýst var að árið 2019 hefði hlutfall vistvænna ökutækja af nýskráðum bílum verið 28%, árið 2020 hafi þetta hlutfall náð 60% af nýskráðum ökutækjum og fyrstu 3 mánuði þessa árs hefði hlutfallið náð 67%.
Hreinorkubílar
Um sama leyti eða 15. apríl sagði sami umhverfisráðherra á viðburði norrænna sendiráða og World Resources Institute að á fyrstu þremur mánuðum þessa árs hafi rúmur helmingur seldra bíla á Íslandi verið rafbílar – hreinir rafbílar eða tengiltvinnbílar. Sagði ráðherrann að á þessum tíma hafi 67% seldra bíla fallið í flokk „hreinorkubíla“. Árið 2020 var hlutfallið 60%, sem væri stórt stökk frá 2019 þegar hlutfallið var 28%. „Þannig að við erum að sjá hraða og afgerandi breytingu í þessum efnum.“
Samkvæmt skilgreiningu ráðherrans eru hreinorkubílar ekki bara rafbílar heldur tengiltvinnbílar sem ganga fyrir bensíni að töluverðu leyti og svo tvinnbílar sem að ganga aðallega fyrir bensíni. Þessi skilgreining rímar við skilgreiningu Bílgreinasambandsins, samtaka þeirra fyrirtækja sem vilja telja neytendum í trú um að allir bílar séu vistvænir – eða því sem næst. Svo virðist raunar sem ráðherra umhverfismála hafi gripið þessa markaðssetningu á lofti af því hún hentaði málflutningi hans, en láðst að athuga hvað felst í hreinorkuhugtakinu fagra.
Á líðandi ári er hluti náskráðra rafmagnsbíla hér á landi 26% af heild. Það er reyndar nokkur árangur en ekki nóg til að ná markmiðum ríkisstjórnarinnar. En var ekki nóg fyrir ríkisstjórnina enda er samanburðurinn við Noreg ekki hagstæður þar sem ríflega 60% nýskráðra bíla eru rafknúnir og í Svíþjóð eru hlutfallið 28%.
Í umsögn fjármála og efnahagsráðuneytisins um kvörtun Bílgreinasambandsins, Samtaka fyrirtækja í ferðaþjónustu og Samtaka verslunar og þjónustu vegna niðurfellingar VSK-ívilnunar fyrir tengiltvinnbíla segir: „Ríkissjóður hefur veitt rafmagns-, tengiltvinn- og vetnisbílum VSK-ívilnanir síðan sumarið 2012 eða í tæp tíu ár. ívilnanir frá upphafi nema 21,2 ma.kr., þar af 11,4 ma.kr. vegna tengiltvinnbíla.“
Þessir 11,4 milljarðar er að stórum hluta niðurgreiðsla á losun koltvísýrings enda ganga tengiltvinnbílar að miklu leyti fyrir bensíni.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið bendir á í umsögn sinni að „... í Glasgow voru ríki heims hvött til að draga í skrefum úr óskilvirkri niðurgreiðslu jarðefnaeldsneytis. Áframhaldandi stuðningur við tengiltvinnbifreiðar, sem ganga að hluta til fyrir jarðefnaeldsneyti, ynni að mati ráðuneytisins gegn þeim markmiðum sem ríki heims stefna á að ná fram samkvæmt þeim skuldbindingum sem samþykktar voru í Glasgow.“
Þá segir í umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins að „vörugjaldsívilnun sem samþykkt var með 15. gr. laga nr. 140/2020 af Alþingi eftir tillögu efnahags- og viðskiptanefndar sé óskilvirk aðgerð og orki tvímælis.“ Enn fremur vinni þessi afsláttur á vörugjöldum „að hluta til gegn rafvæðingu bílaleigna.“ Einnig segir, að „Tengiltvinnbifreið sem bílaleiga flytur inn mun augljóslega keyra mikið á bensíni/dísil og lítil ástæða er tiL að styðja sérstaklega við að bílaleigur kaupi inn tengiltvinnbifreiðar.
Þrátt fyrir þessa skýru hugsun þráast ráðuneytið enn við að flokka tengiltvinnbíla sem vistvvæna.
Uppfærsla loftslagsmarkmiða stjórnarsáttmála?
Í nýjum stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna segir: „Sett verður sjálfstætt landsmarkmið um 55% samdrátt í losun á beinni ábyrgð Íslands fyrir 2030 miðað við 2005.“
Orðalagið á „beinni ábyrgð Íslands“ þýðir að hlutdeild Íslands í sameiginlegu markmiði Evrópusambandsins um 55% samdrátt á sama tímabili verði hið sama. Ekki 29% eða 40% heldur 55%.
Í ljósi þess að frá 2005, sem er viðmiðunarár Evrópusambandsins, hefur losun hér á landi einungis dregist saman um 8% verður þetta markmið að teljast afar metnaðarfullt því samdráttur í losun verður að nær sjöfaldast á næstu 8 árum miðað síðustu 16 ár.
Líkt og við mátti búast hefur stjórnarsáttmálinn nú verið endurskoðaður. Smáa letrið neðanmáls hefur verið gert opinbert. Samkvæmt frétt 17. desember á vefmiðlinum visir.is verður „Hlutdeild Íslands í sameiginlegu markmiði Evrópusambandsins og Noregs um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda verður talsvert lægra en 55% þrátt fyrir að kveðið sé á um 55% losunarmarkmið í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.“
Orkuskipti
Vorið 2017 samþykkti Alþingi þingsályktun um aðgerðaáætlun um orkuskipti. Þar er kveðið á um að „Reiknað verði út hvaða áhrif aðgerðaáætlun um orkuskipti hafi á samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda með tilliti til skuldbindinga Íslands í loftslagsmálum.“ Með bréfi til umhverfisráðherra, dagsett 14. september sl., fóru Náttúruverndarsamtök Íslands fram á upplýsingar um hvernig nálgast mætti útreikninga á áhrifum aðgerðaáætlunar um orkuskipti á samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.
Enn fremur var óskað upplýsinga um hvort sams konar útreikningar hafi verið gerðir með tilliti til gildandi samnings milli Evrópusambandsins og Íslands um sameiginlegar efndir um 40% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda á fyrsta skuldbindingartímabili Parísarsamningsins?
Einnig var óskað upplýsinga um hvort slíkir útreikningar hafi verið gerðir með tilliti til væntanlegs samnings Íslands og Evrópusambandsins um sameiginlegar efndir sambandsins, Íslands og Noregs um 55% samdrátt í losun fyrir 2030.
Svar hefur enn ekki borist frá ráðuneytinu sem er miður í ljósi málflutnings framámanna í orkuiðnaði um brýna nauðsyn orkuskipta væri mjög áhugavert að sjá útreikninga á því hver verða áhrif aðgerðaáætlunar um orkuskipti á losun gróðurhúsalofttegunda, sem telja má undarlegt í ljósi þess hve ýmsum ráðamönnum verður tíðrætt um mikilvægi orkuskipta fyrir samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.
Siglt undir fölsku flaggi
Í grein Harðar Arnarssonar, forstjóra Landsvirkjunar, í Morgunblaðinu 21. desember segir: „Ef ekkert verður gert má búast við að eftirspurn raforku verði meiri en framboð sem í viðskiptum kallast skortur, fyrirtæki munu ekki fá þá orku sem þau telja sig þurfa, raforkuverð mun hækka og orkuskipti munu ganga hægar en ella.“
Hér er siglt undir fölsku flaggi. Í fyrsta lagi er ekkert sem bendir til að auka þurfi orkuframleiðslu á næstu árum til að knýja fleiri rafknúnar bifreiðar á Íslandi. Engar slíkar tölur hafa verið kynntar af hálfu Landsvirkjunar. Hvorki af Herði né nokkrum öðrum. Á hinn bóginn skrifaði Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur nýverið á vefmiðilinn visir.is að til að knýja bílaflotann þyrfti tæplega 1 Twstund. Bjarni bendir á að vinnslugeta rafmagns á Íslandi sé 21 TWst og því auðreiknað að innan við 5% af núverandi vinnslugetu þarf til að skipta út mengandi flota fólksbíla fyrir hreinorkubíla. Þá ber einnig að hafa í huga að rafbílar eru helst hlaðnir að nóttu til þegar álagið á raforkukerfið er minna.
Í nöp við rammaáætlun
Öllum má ljóst vera að telji Landsvirkjun að orkuskortur sé yfirvofandi eru nægir kostir í stöðunni næstu árin miðað við nýtingarkosti í rammaáætlun III. Bæði nýjar virkjanir og stækkun þeirra sem fyrir eru. Landsvirkjunarmönnum er einfaldlega í nöp við rammaáætlun.
Áróður orkufyrirtækja var mjög áberandi í aðdraganda kosninga og jókst enn á meðan stjórnarmyndunarviðræðum stóð. Hjá Landsvirkjun er mönnum sérlega illa við friðlýsingu Þjórsárvera og þar bæ þótti mjög illt að verkefnisstjóra þriðja áfanga rammaáætlunar tók ekki í mál að meta ennþá einu sinni veitulónið á jaðri veranna. Það kann að vera skiljanlegt í ljósi þess að í höfuðstöðvum Landsvirkjunar er Norðlingaölduveita eins og að nefna snöru í hengds manns húsi. Á hinn bóginn verður að segjast að málflutningur Landsvirkjunar gegn þriðja áfanga er ákaflega óheiðarlegur því fyrirtækinu er einskis vant vilji það virkja fyrir orkuskipti í framtíðinni.
Ábyrgð og skyldur Íslands
Losun Íslands er bara brotabrot af heimslosuninni. Á hinn bóginn ef horft er á losun á hvern íbúa breytist myndin. Frá árinu 2000 hefur losun á hvern íbúa aukist hvað mest á Íslandi af Evrópuríkjum. Árið 2019 var hún 13,1 tonn miðað við 9,1 tonn að meðaltali í ríkjum Evrópusambandsins. Þar munar mestu um stóriðjuna en jafnvel án stóriðjunnar er losun á hvern íbúa á Íslandi mun hærri að jafnaði en í Evrópusambandsríkjum að meðaltali, 8,1 tonn á Íslandi en 5,7 tonn á hvern íbúa ESB.
Á Íslandi nefna stjórnvöld ýmist hátt hlutfall endurnýjanlegrar orku eða barma sér yfir að hér sé mun erfiðara en annars staðar að draga úr losun. Þrátt fyrir alla orkuna. Augljóslega er hægt að draga mun hraðar úr losun frá vegasamgöngum, til dæmis með því að hækka kolefnisgjald á þá bíla sem menga mest. Einnig væri hægt að minnka losun frá togurunum sem hala inn milljörðum króna fyrir örfáa útgerðarmenn. Í Noregi hyggjast stjórnvöld banna innflutning á nýjum bensín- og dísilbílum þegar árið 2025, hér heima skortir ráðherra dugnað og þor.
Málstaður Íslands á alþjóðavettvangi byggir fyrst og fremst á að Ísland sé fremst meðal jafningja í baráttunni við loftslagsvána. Rök okkar fyrir verndun hafsins hljóta að vera að fyrst að við getum dregið úr losun þá geta aðrir gert það einnig enda höfum við efni til þess. Rök okkar fyrir stuðningi við fátæk þróunarríki sem verða að aðlagast erfiðari aðstæðum og nýta hreina orku hljóta að vera að við getum það af því að við erum ein auðugasta þjóð heims. Rök okkar fyrir minni losun á hvern íbúa eru að við höfum ekki meiri rétt á að menga andrúmsloftið en þau ríki sem hafa bágan efnahag. Hagsmunir Íslands - meginrökin fyrir róttækri lofslagsstefnu – eru að loftslagsváin skilur Ísland ekki útundan. Hér geta orðið flóð, skriðuföll og önnur óáran vegna meiri öfga í veðurfari. Lífríki hafsins er ógnað og súrnun sjávar er hraðari í Norður Atlantshafi en lífríkið þolir til lengdar.
Höfundur er formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.