Ég treysti því að foreldrar vilji börnum sínum allt hið besta: Að þau fái samskonar vernd gegn alvarlegum afleiðingum COVID-19 og þeir hafa sjálfir þegið með bólusetningu. Börnin eiga rétt á að njóta besta heilsufars og heilbrigðisþjónustu í formi bólusetningar sem yfir 90% þjóðarinnar, 12 ára og eldri, hefur fengið nú þegar.
Alvarleg veikindi af völdum Delta afbrigðisins eru meiri hjá unglingum og börnum en af fyrri afbrigðum SARS-CoV-2 veirunnar. Þrátt fyrir að Ómíkron afbrigðið sé miklu meira smitandi en Delta eru Delta smit enn yfir 100 á dag á Íslandi, og börn eru aðallega að sýkjast af Delta, meðan ungir fullorðnir eru í meirihluta þeirra sem sýkjast af Ómíkron.
Delta og Ómíkron – er óþarft að bólusetja börn?
Mikilvægt er að bólusetja börn þar sem þar sem þau geta veikst alvarlega af COVID-19 og bólusetning verndar vel gegn bæði smiti og alvarlegum sjúkdómi af völdum Delta og annara afbrigða eins og Alfa, Beta og Gamma. Þótt vernd gegn Ómíkron sé minni en gegn Delta þá vekja þrír skammtar af Pfizer bóluefninu sambærilegt magn hlutleysandi mótefna gegn Ómíkron og 2 skammtar veita gegn Delta, og veita þannig einhverja vernd. Það er heldur ekki tryggt að Ómíkron sé síðasta afbrigði SARS-CoV-2, og ný afbrigði gætu þróast á grunni Alfa, Beta, Delta eða annara afbrigða og þá er gott að hafa byggt upp vernd og ónæmisminni sem Pfizer bóluefnið vekur gegn þeim.
Í Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna, sem Ísland hefur staðfest, segir í 24. gr.: Aðildarríki viðurkenna rétt barns til að njóta besta heilsufars sem hægt er að tryggja, og aðstöðu til læknismeðferðar og endurhæfingar. Aðildarríki skulu kappkosta að tryggja að ekkert barn fari á mis við rétt sinn til að njóta slíkrar heilbrigðisþjónustu.
Aukaverkanir af bólusetningum gegn COVID-19
Niðurstöður rannsóknar frá Ísrael á samanburði aukaverkana eftir bólusetningu gegn COVID-19 eða PCR staðfestum SARS-CoV-2 sýkingum 16 ára og eldri, birtust í hinu virta tímariti New England Journal of Medicine í lok ágúst. Algengustu aukaverkanir eftir COVID-19 sjúkdóm voru hjartsláttartruflanir, nýrnaskaði, segamyndun í lungum, blóðtappar og hjartaáföll, síðan koma hjartavöðvabólga og gollurshúsbólga. Allar þessar aukaverkanir voru miklu algengari eftir COVID-19 sjúkdóm en eftir bólusetningu (11 til 168 sinnum algengari). Sú rannsókn sýndi 18.28 falt aukna áhættu á hjartavöðva- og gollurshúsbólgu meðal 233.392 einstaklinga sem fengu COVID-19 í 1- 42 daga frá greiningu miðað við jafnmarga í stöðluðum viðmiðunarhópi. Hins vegar var aukning á áhættu á hjartavöðva- og gollurshúsbólgu 3,24 föld á 1. til 42. degi frá fyrra skammti af tveimur meðal 884.828 bólusettra með Pfizer bóluefninu miðað við jafnmarga í stöðluðum viðmiðunarhópi. Þannig eru alvarlegar aukaverkanir af Pfizer bóluefninu miklu sjaldgæfari en sömu aukaverkanir í kjölfar COVID-19 sýkingar.
Í rannsókn á sjúkrahúsinnlögn eða dauða af völdum hjartavöðvabólgu, gollurshúsbólgu eða hjartsláttartruflana meðal rúmlega 38 milljóna bólusettra einstaklinga og rúmlega 3 milljóna SARS-CoV-2 sýktra í Bretlandi, sem birtist í Nature Medicine um miðjan desember sl., kom fram 1,31-föld aukin áhætta á hjartavöðvabólgu innan 1 til 28 daga frá bólusetningu með Pfizer bóluefninu (fjöldi = 16.993.389), 1,30-föld aukin áhætta eftir annan skammt (ekki marktæk), meðan 9,76-falt aukin áhætta var eftir PCR staðfesta SARS-CoV-2 sýkingu (fjöldi = 3.028.867). Viðbótartilfelli voru 1 á hverja 1 milljón bólusettra með einum skammti af Pfizer en viðbótartilfelli voru 40 á hverja 1 milljón einstaklinga sem greindust með COVID-19 í 1 til 28 daga frá PCR staðfestri sýkingu. Hlutfallsleg áhætta á sjúkrahúsinnlögn var meiri eftir COVID-19 sýkingu en eftir bólusetningu bæði hjá þeim sem eru yngri en 40 ára og þeim sem eru 40 ára eða eldri. Hjá karlmönnum yngri en 40 ára var aukin áhætta 1.83-föld eftir Pfizer bólusetningu, en 4.06-föld eftir PCR staðfesta SARS-CoV-2 sýkingu. Sama rannsóknateymi birti bráðabirgðaniðurstöður (óritrýndar) 26. des. sl. sem sýndu að aukin áhætta á sjúkrahúsinnlögn og dauða af völdum hjartavöðvabólgu meðal 42 milljón einstaklinga í Bretlandi var meiri eftir COVID-19 sýkingu en eftir bólusetningu. Áhættan á hjartavöðvabólgu jókst við endurteknar bólusetningar með mRNA bóluefnum en er mjög lág í heildina, og jókst aðeins um 2 tilfelli á hverja milljón einstaklinga sem fengu örvunarskammt af Pfizer bóluefninu.
COVID-19 hjá börnum
Því er oft ranglega haldið fram að börn veikist ekki af COVID-19. Vissulega smitast þau sjaldnar og veikjast sjaldnar en fullorðnir, einkum aldraðir. Þegar Delta afbrigðið sem er meira smitandi en fyrri afbrigði, breiddist út í heiminum kom í ljós að SARS-CoV-2 veiran getur líka valdið alvarlegum veikindum hjá börnum, þótt flest veikist ekki alvarlega, sem betur fer.
Sjúkrahúsinnlagnir þessa aldurshóps vegna COVID-19 fóru hratt vaxandi með tilkomu Delta.
Samkvæmt upplýsingum frá Smitsjúkdómastofnun Evrópu (ECDC) var mikil aukning sjúkrahúsinnlagna COVID-19 sjúklinga á öllum aldri í Evrópu á haustmánuðum. COVID-19 hjá börnum er sem betur fer oftast einkennalítill og afleiðingar ekki alvarlegar. Alvarleg einkenni COVID-19 eru sjaldgæf hjá 5-11 ára börnum; af 65.800 börnum 5-11 ára, með COVID-19 veikindi með einkennum í 10 Evrópulöndum voru 0,61% lögð inn á sjúkrahús á Delta tímabilinu, og 0,06% þurftu á gjörgæslu/öndunarvél að halda. Áhættan á sjúkrahúsinnlögn 5-11 ára barna er 12-föld og áhætta á gjörgæsluinnlögn 19-föld ef þau hafa undirliggjandi sjúkdóma. Mikilvægt er að benda á að mikill meirihluti (78%) barna í þessum aldurshópi sem þurfti að leggja inn á sjúkrahús höfðu enga undirliggjandi sjúkdóma.
Nýleg bandarísk rannsókn á 5.217 börnum undir 18 ára aldri sem fengu COVID-19 tengda fjölkerfa bólgusjúkdóminn MIS-C í Bandaríkjunum sýndi að 44% voru á aldrinum 5-11 ára. Börn geta líka fengið langvinnar afleiðingar COVID (long-COVID) jafnvel eftir væga og einkennalausa COVID-19 sýkingu.
Meðal afleiðinga COVID-19 sýkingar eru hjartavöðvabólga og gollurshússbólga, sem er sjaldgæfari hjá 5-11 ára börnum en unglingum og ungum fullorðnum. Niðurstöður rannsóknar smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna (CDC) sýna 36,8-falt aukna áhættu á hjartavöðvabólgu hjá börnum undir 16 ára sem sýkjast af COVID-19. COVID-19 er nú áttunda algengasta dánarorsök 5-11 ára barna í Bandaríkjunum.
Í skýrslu evrópsku Smitsjúkdómastofnunarinnar frá 1. desember sl. er niðurstaðan sú að 5-11 ára börn í aukinni áhættu eigi að vera í forgangi fyrir bólusetningu, eins og í öðrum aldurshópum. Hinsvegar er tekið fram að það ætti að íhuga að bólusetja öll 5-11 ára börn þar sem sjúkrahúsinnlagnir og alvarlegar afleiðingar COVID-19 eins og MIS-C og langvinnur COVID-19 komi einnig fram hjá börnum í þessum aldurshópi sem ekki hafa neina þekkta áhættuþætti.
Bólusetning barna með Pfizer bóluefninu
Lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA) veitti leyfi 29. okt. 2021 fyrir bólusetningum 5-11 ára barna með bóluefni Pfizer, Lyfjastofnun Evrópu veitti leyfi 25. nóv. 2021 og okkar Lyfjastofnun í kjölfarið. Bóluefnið (1/3 af fullorðinsskammti) veitti 90,7% vernd gegn PCR staðfestu COVID-19 hjá 5-11 ára börnum og myndun hlutleysandi mótefna er sambærileg og hjá 16-25 ára (non-inferiority). Öryggi og aukaverkanir eru sambærilegar og enginn 5-11 ára þátttakenda (4.695) í klínísku rannsóknunum fékk hjartavöðvabólgu eða gollurshússbólgu. Bólusetningin verndar gegn sýkingu og veikindum og minnkar hættu á endursýkingu. Niðurstöður voru birtar í New England of Medicine í byrjun nóvember 2021. Áður en Lyfjastofnun Bandaríkjanna gaf út leyfi fyrir bólusetningu 5-11 ára barna fór sérfræðinganefnd þeirra yfir aukaverkanir hjá milljónum bólusettra 12-15 ára unglinga, engin hættumerki hafa komið fram eftir að almennar bólusetninga 12 ára og eldri hófust.
Aukaverkanir af COVID-19 sýkingu og bólusetningu gegn COVID-19 hjá börnum
Í bresku rannsókninni sem nefnd er hér að ofan (óritrýnd birt 26. des. sl.) voru 2.136.189 unglingar á aldrinum 13 til 17 ára, en tilfelli hjartavöðvabólgu voru of fá (15 á 1.-28. degi frá bólusetningu) til að hægt væri að meta hvort áhættan væri aukin í þessum aldurshópi. Grunntíðni hjartavöðvabólgu, þ.e. fyrir COVID-19, er lægri hjá 5-11 ára börnum en 12-17 ár unglingum, þess vegna spáir hjartavöðvabólga í kjölfar bólusetninga hjá unglingum ekki endilega til um áhættuna hjá yngri börnum.
Nýbirt bandarísk rannsókn á aukaverkunum hjá 5-11 ára börnum (3. nóv-19. des. sl.), sem höfðu fengið rúmlega 8,7 milljón skammta af Pfizer sýndi að tilkynningar um aukaverkanir eftir bólusetningu voru 4.249 og af þeim töldust 4.149 (97,6%) ekki alvarlegar, en 100 tilkynningar (2,4%) voru um aukaverkanir sem töldust alvarlegar, og voru þær algengustu hiti (29= 29%), uppköst (21= 21%), auk hækkaðs troponín í blóði. Tólf fengu flog, 11 tilfelli hjartavöðvabólgu voru staðfest, 7 höfðu náð fullum bata og 4 voru á batavegi. Tíðni vægra staðbundinna og útbreiddra aukaverkana var svipuð og í klínísku rannsóknunum sem voru forsenda leyfisveitingar bóluefnisins fyrir þennan aldurshóp, þ.e. staðbundnar (eins og eymsli á stungustað) hjá 57,5% og útbreiddar (þreyta, höfuðverkur) hjá 40,9% 5-11 ára eftir seinni skammt af Pfizer bóluefninu sem er heldur lægra en hjá 12-15 ára (staðbundnar 62,4%; útbreiddar, 63,4%).
Í rannsókn frá Frakklandi sem birtist rétt fyrir jólin kom fram að 107 börn með MIS-C voru lögð inn á sjúkrahús í Frakklandi í september til október 2021, 33 þeirra (31%) voru unglingar sem áttu rétt á bólusetningu. Af þeim sem fengu MIS-C var enginn unglingur fullbólusettur, 7 höfðu fengið einn skammt en 26 voru óbólusettir. Einn skammtur af bóluefni minnkaði líkur á MIS-C tífalt m.v. óbólusetta unglinga, og var verndin mjög marktæk (áhættustuðull fyrir MIS-C eftir einn bóluefnisskamt =0.09, P <0 .001).
Fyrir lesendur sem ekki eru vanir að lesa tölfræði af þessu tagi segja tölurnar hér að ofan kannski ekki mikið. En fyrir alla sem leggja á sig að lesa og rýna í þær má vera ljóst að nýjar ábyggilegar rannsóknir sýna, svart á hvítu, að við eigum að tryggja 5-11 ára börnum sömu heilbrigðisþjónustu og þeim sem eldri eru, og sömu vernd gegn alvarlegum afleiðingum COVID-19 með bólusetningu. Þau eiga rétt á því eins og aðrir landsmenn, þannig sýnum við þeim umhyggju og færum þeim bestu vernd sem völ er á.
Höfundur er prófessor við læknadeild Háskóla Íslands og deildarstjóri hjá Íslenskri erfðagreiningu.