Það er oft látið eins og að kaupaukakerfi, greiðsla svokallaðra bónusa, sé eðlislögmál í fjármálageiranum. Fjarstæðukennt sé að það yfirburðarfólk sem þar vinni geti ekki notið peningalegra fríðinda umfram aðra í samfélaginu vegna þess að það vinnur við að færa peninga úr einum vasa í annan. Og þiggur þóknanir fyrir.
Það er samt þannig að stóru íslensku viðskiptabankarnir þrír eru ekki eins og flestir bankar. Þeir fengu markaðshlutdeild sína og viðskiptavini að stærstu leyti í vöggugjöf. Fjármögnun þeirra er að stærstum hluta innlán Íslendinga. Þannig eru 70 prósent skulda Íslandsbanka innstæður viðskiptavina, 66 prósent skulda Landsbankans og 57 prósent skulda Arion banka. Og þeir voru endurreistir að hluta til fyrir skattfé.
Samanlagður hagnaður bankanna þriggja frá þeir voru endurreistir á rústum þeirra sem felldu íslenskt samfélag er vissulega stjarnfræðilegur, eða um 400 milljarðar króna. En hann er að mestu tilkominn vegna þess að virði eigna sem þeir tóku yfir hefur hækkað. Það á til dæmis við um fyrirtæki sem lentu í fanginu á þeim, og þeir hafa í mörgum tilvikum haldið á allt of lengi, oft með miklum samkeppnislegum afleiðingum, en voru síðan seld með miklum hagnaði. Það á einnig við um lán sem ekki voru metin innheimtanleg til að byrja með en hafa síðan skilað miklu meira í kassann eftir því sem tíminn hefur liðið.
Grunnreksturinn bankanna hefur hins vegar verið mun veikari, líkt og Már Guðmundsson seðlabankastjóri hefur nýverið bent á.
Miklu meira launaskrið
Launaskrið starfsmanna í fjármála- og vátryggingastarfsemi hefur verið töluvert á undanförnum árum. Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands voru meðalheildarlaun fullvinnandi starfsmanna í þessum geira 529 þúsund krónur á mánuði árið 2010. Í fyrra voru þau orðin 763 þúsund krónur á mánuði og hafa því hækkað um 44,2 prósent.
Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands voru meðalheildarlaun fullvinnandi starfsmanna í þessum geira 529 þúsund krónur á mánuði árið 2010. Í fyrra voru þau orðin 763 þúsund krónur á mánuði og hafa því hækkað um 44,2 prósent.
Meðaltal heildarlauna allra stétta á sama tímabili hafa farið úr 431 þúsund krónum í 555 þúsund krónur. Þau hafa hækkað um 28,8 prósent og því ljóst að launaskriðið í fjármálageiranum hefur verið langt umfram það sem gerist annarsstaðar.
Og þetta er karllæg stétt sem tekur svona mikið til sín. Í tölum frá Hagstofunni, sem voru birtar á mánudag, kemur fram að óleiðréttur launamunur kynjanna er hvergi meiri en í fjármála- og vátryggingarstarfsemi, eða 37,5 prósent, og hann hækkaði á milli ára. Til samanburðar þá er var hann 18,3 prósenthjá öllum starfsstéttum á árinu 2014 og lækkaði umtalsvert á því ári.
Mikill vill meira
Þrátt fyrir þetta þá vilja bankamenn fá hærri bónusa. Það er vert að minna á, áður en lengra er haldið, að í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið voru kaupaukar bankastarfsmanna, og sá hvati til áhættusækni sem þeir leiddu af sér, talin ein helsta ástæða þess að allt fór í steik á Íslandi haustið 2008.
Kaupaaukakerfi voru reyndar innleidd að nýju í bankanna fyrir nokkrum árum síðan. Samkvæmt lögum sem nú eru í gildi mega bónusar starfsmanna fjármálafyrirtækja vera 25 prósent af föstum árslaunum þeirra.
Íslandsbanki og Arion banki gjaldfærðu samtals um 900 milljónir króna vegna kaupaukagreiðslna til starfsmanna sinna á síðasta ári. Um hundrað starfsmenn fá slíkar greiðslur hjá hvorum banka fyrir sig. Arion banki gjaldfærði 542 milljónir króna í fyrra sem var 48 milljónum króna meira en árið á undan. Íslandsbanki gjaldfærði 358 milljónir króna í fyrra, eða 87 milljónum krónum meira en árið 2013.
Landsbankinn, sem er að mestu í eigu ríkisins, er ekki með árangurstengdar greiðslur. Um 1.400 núverandi og fyrrverandi starfsmenn bankans fengu hins vegar 0,78 prósent hlut í bankanum gefins árið 2013 og fá greiddan arð vegna hans.
En mikill vill meira.
„Skaðlaust“ að hækka bónusa
Nú liggur fyrir frumvarp um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki. Í minnisblaði sem fjármála- og efnahagsráðuneytið sendi frá sér í lok apríl vegna þessa kom fram að ráðuneytið teldi það að „skaðlausu“ að veita fjármálafyrirtækjum heimild til að greiða bónusa sem væru allt að 50 prósent af árslunum starfsmanna. Þá mætti einnig skoða að smærri fjármálafyrirtækjum yrði gert kleift að greiða enn hærri kaupauka til starfsmanna, til dæmis 100 prósent af árslaunum, heldur en stóru viðskiptabönkunum.
Samtök fjármálafyrirtækja skiluðu umsögn um frumvarpið þar sem fram kom að takmörkun á bónusgreiðslum væri íþyngjandi að þeirra mati. Samtökin lögðu til að evrópskur lagarammi yrði fullnýttur og fjármálafyrirtækjum gert kleift að greiða starfsmönnum sínum á bilinu 100 til 200 prósenta af árslaunum í kaupauka.
Umsögn samtakanna er reyndar sér á báti. Hún segir meðal annars að allar sérreglur á Íslandi muni auka kostnað bankanna og auka lántökukostnað þeirra lika vegna þess að þá muni aðrir bankar halda að þeir séu lakari lántakendur.
Þau segja líka á að íslensk fjármálafyrirtæki séu í mikilli og vaxandi samkeppni við erlend fjármálafyrirtæki sem megi borga hærri bónusa.
Þau segja líka á að íslensk fjármálafyrirtæki séu í mikilli og vaxandi samkeppni við erlend fjármálafyrirtæki sem megi borga hærri bónusa.
Bæði Landsbankinn og Arion banki hafa sent inn umsagnir þar sem þeir gera athugasemdir við það fyrirkomulag kaupaukakerfis sem boðað hefur verið og telja það hamla samkeppnishæfni sinni.
Kerfi sem er til fyrir sig sjálft
Ísland er í höftum og full ríkisábyrgð er enn í gildi á viðskiptabönkunum. Innan þess ríkir ekki stórkostleg innbyrðissamkeppni og það er fjarstæðukennt að halda því fram, líkt og Samtök fjármálafyrirtækja gera, að íslenskir bankar eigi í alþjóðlegri samkeppni um starfsfólk. Fyrir því eru þrjár ástæður.
Í fyrsta lagi er erfitt að sjá fyrir sér að erlendir stórbankar standi í röðum við að ráða íslenska bankasnillinga þegar síðasta kynslóð þeirra setti heilt land nánast á hausinn og tapaði nokkur þúsund milljörðum króna af peningum erlendra banka og fjárfesta í hruninu. Í öðru lagi fá íslenskir bankastarfsmenn borgað í krónum og slík laun geta aldrei keppt við laun í eðlilegum gjaldmiðlum. Í þriðja lagi eru íslensku bankarnir ekki þátttakendur á alþjóðlegum bankamarkaði.
Í desember 2013 skrifaði ég pistil um laun bankamanna og lauk honum á eftirfarandi orðum: „Maður fær stundum á tilfinninguna að þeir sem starfa í fjármálageiranum hafi fundið glufu sem gerir þeim kleift að vinna þægilega innivinnu í upphituðum rýmum með miklu hærri laun en allir hinir. Að þetta sé mjög klárt fólk sem finnist betra að vera ekki að hafa neitt of mikið fyrir hlutunum án þess að það komi í veg fyrir að þau lifi meira þægindalífi en flestir samborgarar þeirra. Þess vegna er búið til kerfi þar sem þetta fólk fær óeðlilega borgað fyrir að stunda umsýslu með peninga. Kerfi sem er fyrst og síðast til fyrir sig sjálft og fólkið sem innan þess starfar. Klára fólkið sem á skilið að hafa það betra en hinir. Og annað slagið, þegar þessi tálsýn hrynur, þá borgum við hin til að reisa hana aftur við.“
Mér sýnist þau eiga jafnvel enn betur við í dag en þau áttu þá.